Fara í efni
Minningargreinar

Þór Sigurðsson

9. júní árið 1949 fæddist í þennan heim föðurbróðir minn og vinur Þór Sigurðsson eða Vósi, eins og við kölluðum hann alltaf. 10. júní 2024, 75 árum eftir fæðinguna, er hann borinn til grafar. Hann er sá fjórði sjö systkina sem kveður þetta líf alltof snemma. Sagt er að þau deyi ung, sem goðin elska, en það er lítil huggun á svona degi. Hins vegar er það huggun að Þór var sáttur við að kveðja þetta jarðlíf og honum munu standa allar dyr opnar í hvaða himnaríki sem er. Hann var einstakur maður. Hógvær, réttsýnn og svo góður og örlátur á allt sem hann gat gefið, að sumum þótti nóg um. En hann var líka allra manna skemmtilegastur og kraftmestur, sísyngjandi sagnamaður og gleðigjafi, elskaður af mörgum, bæði fjölskyldu og stórum, traustum vinahópi. Hans verður víða saknað.

Vósi var bara fimm árum eldri en ég, þótt hann væri föðurbróðir minn. Við lékum okkur mikið saman í uppvextinum og sömu sögur heilluðu okkur. Á barns- og unglingsárum voru það sögur af dulúðugum fyrirbærum og heimur Sígildu sagnanna, Tarsan og Prins Valíant. Stór hópur yngstu barna og barnabarna ömmu og afa lifði og hrærðist í náttúrunni í Sellandi á sumrin, í leikjum indíána og káboja á góðviðrisdögum, í samskiptum við hross, plöntun trjáa, berjatínslu og fjárrekstri. Og þegar of kalt eða blautt var til mikillar útiveru var setið inni við lestur og leiki sem snerust oft um ævintýraleiki í listilega sköpuðum borgum úr leir, með höllum og herjum, drottningum, konungum og hofgyðjum, sem Þór töfraði fram. Hann var listamaður og þótt við reyndum að herma eftir, þá var ég tilbúin að borga vel fyrir að fá hann til að skapa úr leir hofgyðjur og drottningar í silkikjólum (úr Macintoshbréfi) og litfagrar dyngjur þeirra. Greiðslan fólst oftast í því að klóra honum á iljunum eða bakinu, sem krafðist fullkomins jafnvægis milli „laust og fast“, og hafði í för með sér hálfgerða hugleiðslu fyrir okkur bæði. Þetta átti auðvitað ekki bara við um mig, heldur okkur flest yngri frænkur hans og frændur, og voru gæðastundir fyrir okkur öll.

Svo týndist tíminn og fullorðinslífið kom með daglegu amstri, sem bauð ekki upp á eins margar samverustundir. En síðustu áratugi höfum við aftur tekið upp gefandi vinasamband í sveitinni, þar sem við vorum nágrannar, með tvo litla hóla og skóginn á milli okkar. Hann var duglegri en ég að birtast fyrirvaralaust og þá var kannski skellt í pönnukökur með mjólkinni og svo settumst við á jörðina eða við eldinn og spjölluðum um lífið og tilveruna, gleði og sorgir, en ekki síst sameiginleg áhugamál okkar, sögu mannkyns, trúarhugmyndir, ættarsögurnar og töfra náttúrunnar. Þetta hefur kannski yfir sér alvarlegan blæ, en ég get lofað ykkur að það var mikið hlegið ... og ekki síst að sjálfum okkur.

Helgustu stundirnar voru þó ef til vill þegar við vorum hvort í „okkar landi“, ég að sýsla eitthvað utandyra og hann að vinna í skóginum, aleinn með sjálfum sér og náttúruvættunum, syngjandi með sinni miklu rödd, svo það barst fjallanna á milli. Þá settist ég gjarna niður, lokaði augunum og hlustaði. Dásamlegri tónleika hef ég ekki upplifað.

Svo gerðist það, fyrir nokkrum nóttum milli svefns og vöku, að ég heyrði hann syngja. Ég fann fyrir umvefjandi Sellandsnáttúrunni allt í kring, ilmi af jörðu og fuglasöng. Og þá fylltist tilveran af söngnum hans ... sem aldrei mun þagna.

Elsku Þórdís, Siggi og Stebbi. Hugur minn og hjarta er hjá ykkur á þessum tímamótum.

Valgerður

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00