Fara í efni
Minningargreinar

Þór Sigurðsson

Komið er að kveðjustund.
 
Upp í hugann koma svo ótalmargar minningar um Þór Sigurðsson og það er svo skrítið að vera að setja hér niður á blað einhver kveðjuorð. Það var ekki kominn tími til að kveðja.
 
Mér finnst eins og ég hafi alltaf þekkt Þór og ég var ekki gamall þegar afi sagði mér frá þessum manni og í minni mínu var það falleg lýsing afa á Þór enda held ég að öllum hafi þótt hið sama til Þórs koma. Þessi einstaka ljúfmennska, jákvæðni og vinarþel sýndi hann öllum, háum sem lágum og ég minnist þess ekki að hafa heyrt Þór hallmæla nokkrum manni, aldrei. Sama var með hrossin.
 
Þór gat alltaf séð eitthvað jákvætt í hverju hrossi og nefndi það. En hafi verið gallar sýnilegir á hrossinu voru þeir ekki ræddir.
 
Ég held að manngerðin Þór hafi bara ekki haft það í sínu stafrófi að tala neikvætt um nokkurn, hvorki mann né hesta.
 
Hann var svo forn en þó svo meðvitaður um framþróun og tæknibyltinguna á öllum sviðum, en alla tíð fylgdi hann eigin innsæi og fór sína leið og á sínum hraða, nýungarnar trufluðu hann ekkert á sinni leið, hvar sem það var.
 
Í mínum huga var Þór þannig að hann gat verið uppi á hvað tíma Íslandssögunnar sem er og hefði getað stokkið inn í mannkynssöguna okkar hvar sem er og alltaf átt þar heima.
 
Fnjóskadalur hefur misst sinn mætasta son, og það þótt mér vitanlega hafi Þór aldrei átt lögheimili í dalnum austurfrá. En þvílík elska og þvílík virðing og hlýja sem hann í hverju orði og hverju verki sýndi dalnum er eiginlega rannsóknarefni.
 
Selland var sannarlega hans paradísarreitur, þar unni hann sér mest og best, og þegar Þór nefndi Selland þá sá maður það í augunum á honum að elskan og væntumþykjan var algjörlega fölskvalaus.
 
Sörlastaðir í Fnjóskadal áttu líka stóran stað í hjarta Þórs og það var einstaklega gaman að vera með honum þar, og síðast er við áttum saman stund á Sörlastöðum fann ég sem aldrei fyrr hvað staðurinn var honum hjartfólginn, og sögu staðarins þekkti Þór langt aftur og miðlaði henni í einstaklega fallegri lýsingu til mín. Ég er ævarandi þakklátur fyrir það allt.
 
Þvílíkur sagnabrunnur var Þór, og sem betur fer hafði hann á liðnum árum sent mér ýmislegt sem hann vildi sagt hafa um hesta, hestamenn, hestaferðir, ljóð og annað ýmislegt, og hann treysti mér fyrir því að varðveita það, og í þeim gögnum leynast demantar sem nú fá miklu dýpri merkingu í mínum huga. Reyndar átti Þór margt ósagt þegar kallið kom, en ég veit að það er mikið til í óbirtum gögnum og það verður verkefni að fara í gegnum þau.
 
Kær vinur hefur lagt af stað yfir Gjallarbrú og þótt sannarlega hafi það ekki verið óvænt kallið óumflýjanlega, þá ætlaði Þór að hafa sigur, sagði mér nokkrum dögum fyrir andlátið er ég heimsótti hann á sjúkrahúsið að hann þyrfti að fara að rífa sig upp úr þessu svo hann gæti þjálfað hrossin til að komast austur yfir Bíldsársskarðið í sumar í Selland.
 
Já, lífsviljinn og bjartsýnin fylgdi mínum kæra vini allt til enda, og það var svo mikið Þór, alltaf jákvæður og sá allt í fallegum hillingum. Það er mín bjargfasta trú að einmitt sú bjarta hilling hafi nú tekið á móti honum og þegar þessi orð eru sett á blað eru nákvæmlega 75 ár síðan Þór leit veröldina fyrsta sinn og sannarlega ástæða að óska þér kæri elsku vinur innilega til hamingju með daginn.
 
Það er þungt skarð höggvið í raðir vina og félaga í hestaheimi hér á Akureyri og það hef ég heyrt síðustu daga að vinamargur var Þór Sigurðsson og það verður tómarúm í hópnum næst þegar við hittumst, gamli góði hópurinn eins og fyrir tveimur árum á Sörlastöðum. En einmitt þá veit ég að andi okkar kæra vinar mun svífa yfir allt um kring og minning Þórs Sigurðssonar mun eiga pláss í þeim hópi.
 
Genginn er einstakur maður.
 
Í þeirri barnstrú er mér var gefin veit ég að Þór Sigurðsson hefur tekið sér pláss á fallegum stað og gengur þar til starfa af sama lífsvilja og jákvæðni og í lifanda lífi, að hverju verkefni er fyrir höndum ber í sólarlandinu eilífa.
 
Ég sendi börnum Þórs sem og öllum öðrum ættingjum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.
 
Blessuð sé ætíð minning Þórs Sigurðssonar.
 
Sigfús Ólafur Helgason

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00