Fara í efni
Minningargreinar

Svala Tómasdóttir

Ég man þá tíð, að ég var lítill snáði að skondrast um syðsta hluta Brekkunnar á Akureyri. Þá lá leiðin oft suður og niður í Gil, þar sem var leikvöllur og margt barna. Oft endaði ég inni í Lækjargötu 6, þar sem frændfólk mitt tók alltaf vel á móti stráknum. Þar gat ég átt von á að hitta frændur mína Jónsa, Skjöld eða Hrein, aðaltöffara bæjarins þá, eða systur þeirra Guðbjörgu eða Svölu. Tommi föðurbróðir minn var líka stundum heima og kona hans, Hulda Emilsdóttir, tók mér alltaf vel.

Þar var líka Sigurlína, föðuramma mín Sigurgeirsdóttir, sem alltaf var eitthvað að sýsla, en sagði ekki margt við strákinn að óþörfu. Þarna hafði hún komið börnum sínum til manns. Fimm fyrirferðarmiklum drengjum og tveimur stúlkum. Bóndi hennar og afi minn, Jón Emil Tómasson, féll fyrir krabbameini þegar börnin voru kornung; það elsta 18 ára og það yngsta fjögurra ára. En amma var hörkutól og tókst henni að halda hópnum saman með þrotlausri vinnu og dyggri aðstoð elstu barnanna. Þau voru nefnd „Tommarar“, sennilega vegna þess að faðir þeirra var oft nefndur „Jónsi Tomm“. Flest þeirra hófu sinn búskap í Lækjargötu 6, á neðri hæðinni eða í risinu.

Ég man að ég strákurinn var stoltur af mínum Tommurum, taldi þá mæta og merka. Fjóla systir pabba var elst, en síðan kom Karl, Páll, Sigurgeir, Helga Ármann, Tómas og Þorvaldur var yngstur. Þar að auki áttu þau systkini hálfbróður samfeðra, sem var Jón Forberg. Það hvarflaði ekki að mér á þessum sokkabandsárum, að þetta fólk yrði mér ekki samferða um aldur og ævi. En ég var rifinn upp af þeim draumi þegar Fjóla féll fyrir krabbameini á besta aldri og það mein hefur leikið okkur Tommarana grátt. Kalli var mikill vinur minn, hann var glaðlyndur og mér þótti það upphefð að „Kalli á pissubílnum“ var frændi minn. En hann féll frá fyrstur þeirra bræðra og mér þótti vænt um að geta heiðrað minningu hans stuttu síðar með því að gefa syni mínum nafnið Gunnar Karl. Svona er lífið; það er ekki endalaust. Elsta kynslóð Tommaranna er öll gengin og nú eru farnar að þynnast ræðir næstu kynslóðar. Síðast var það Svala Tómasdóttir, sem hvarf í Sumarlandið.

Þegar ég var að skondrast í Lækjargötunni strákurinn, hitti ég þar oft fyrir Svölu frænku mína, sem var árinu eldri en ég. Við lékum okkur gjarnan saman, þótt það þætti nú varla við hæfi á þeim árum, að strákar væru að leika sér með stelpum! En ég lét mig nú hafa það samt og mér þótti félagsskapur Svölu góður og gefandi. Hún var rólynd og þolinmóð við strákinn. Ég var líka eins og grár köttur í kring um Hafnarstræti 21, sem foreldrar hennar voru að byggja í félagi við Jónsa, elsta bróður Svölu. Fékk stundum hamar í hendur og þóttist maður með mönnum í byggingarvinnu með Tomma, Jónsa, Hreini og stundum var Skjölli einnig með. Eitt sinnið lá ég flatur ofan á timbrinu þegar verið var að slá upp fyrir plötu efri hæðar. Ég negldi og negldi eins og enginn væri morgundagurinn, en allt í einu tók ég eftir því að ég var einn; allir frændur mínir voru farnir. Ég þorði varla að príla niður. Við eftirgrennslan komst ég að raun um, að það hafði komið brunaútkall án þess að ég veitti því athygli, en þá voru liðsmenn brunaliðsins kallaðir út með lúðurblæstri minnir mig. Þá þustu náttúrlega allir frændur mínir á brunastað, því allir voru þeir liðsmenn í Slökkviliðinu og þrír þeirra fastráðnir seinna meir.

Svo liðu árin og við Svala fórum sitt í hvora áttina. Svala frænka mín fór í húsmæðraskóla og hún fór ekki langt eftir mannsefninu; hann var í næsta húsi í Hafnarstrætinu; Rafn Herbertsson, sem lengi var verkstjóri hjá Vatnsveitunni. Þau bjuggu í fyrstunni í Hafnarstrætinu, því Svala tók að sér heimilishald fyrir föður sinn eftir að móðir hennar lést úr krabbameini 1966. Þá var Helga yngri systir Svölu enn á barnsaldri og þær systur nátengdar. Þessu ráðskonu- og móðurhlutverki skilaði Svala með miklum sóma. Síðar byggðu Rabbi og Svala sér heimili á Brekkunni, fyrst í Hálundi, síðar í Pílutúni og loks fluttu þau í Kjarnagötuna. Þau eignuðust tvær dætur; Huldu og Kolbrúnu Ingu, sem báðar búa á Akureyri. Þeirra afkomendur skipuðu stóran sess í hjarta Svölu.

Það var gott að vera í samvistum við Svölu frænku mína; hún var rólynd gæðakona, sem öllum vildi vel. Líf hennar var þó enginn dans á rósum, því undanfarin ár hefur hún glímt við erfiðan nýrnasjúkdóm. Hún tók því með æðruleysi og þakklæti til hjúkrunarfólks sem hjálpaði henni við tíðar heimsóknir á sjúkrahús. Þar hittumst við nokkrum sinnum og áttum gott spjall. Frænka mín tók veikindum sínum með reisn og æðruleysi, eins og hún gerði í öðru mótlæti sem mætti henni í lífinu. Þannig konu er gott að muna. Blessuð sé minning Svölu Tómasdóttur. Ég er staddur á erlendri grundu og næ því ekki að kveðja frænku mína við útförina í dag. En hugur minn verður með henni og hennar og ég bið þeim öllum Guðs blessunnar.

Gísli Sigurgeirsson

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00