Sigurður Hlöðversson
Ár er hjól í aldarvagni. Ég eldist með sama hraða og samferðamenn mínir og sumir þeirra heltast úr lestinni. Ættingjar, vinir og samverkamenn. Þannig er lífið. Ég fylgdi einum þeirra; Sigurði Helga Hlöðverssyni, síðasta spölinn suður á Naustahöfða á fimmtudaginn. Þá varð mér hugsað til löngu liðinna tíma. Eða hvað? Hvað er langt og hvað er stutt? Sumar þær minningar sem komu upp í huga minn á Höfðanum eru enn ferskar, rétt eins og þetta hafi verið í gær. En svo man ég varla það sem gerðist í gær!
Ég byrjaði blaðamennsku hjá Íslendingi en flutti mig síðar yfir á Vísi fyrir atbeina Sæmundar vinar míns Guðvinssonar. Vísir var þar með fyrst dagblaða til að ráða blaðamann á landsbyggðinni í fullt starf. Síðan fór ég yfir á Dag, því þá var vilji til þess meðal stjórnenda blaðsins að gera blaðið að frjálsum óháðum málsvara framfara á landsbyggðinni. Því miður höfðu þeir ekki kjark til að ljúka þeirri vegferð og því fór sem fór með eina dagblaðið utan Reykjavíkur. Þaðan fór ég yfir á Ríkisútvarpið, fyrst til Svæðisútvarpsins á Akureyri, en eftir stutt stopp þar var ég ráðinn fréttamaður fyrir fréttastofu Sjónvarpsins.
Fyrstu árin mín þar var ég einn á báti, því fréttastofur Sjónvarps og Útvarps voru sitt hvor stofnunin og samkeppi þar á milli. Ég hafði enga fastráðna tæknimenn og enginn myndatöku- eða klippibúnaður var þá til á Ríkisútvarpinu á Akureyri. Ég hafði vinnustofu á mínu heimili, en leitaði eftir tæknivinnu hjá Samveri, sem þá var að hasla sér völl í vinnslu á sjónvarpsefni undir dyggri stjórn Þórarins Ágústssonar. Fyrirtækið hafði bækistöð við Grundargötu, þar sem fyrrum var öflugt trésmíðaverkstæði forfeðra Þórarins. Ólafur afi hans smíðaði vönduð og öflug húsgögn, m.a. skrifborðið sem ég sit við þessa stundina, smíðað úr gegnheilli eik. Ágúst sonur hans hélt síðar uppi merkinu. Afkomendur þeirra eru völundar, hvort heldur sem þeir fást við smíðar, pípulagnir, myndatökur eða eitthvað annað.
Sigurður Hlöðversson við myndavélina þegar Gísli Sigurgeirsson ræðir við Pál Einarsson jarðfræðing í Grímsey. Anna Kristín Arnarsdóttir hljóðmaður á milli þeirra.
Þórarinn tók að sér myndatökur fyrir Sjónvarpið upp úr 1980. Við tókum saman mína fyrstu frétt, en hún var tekin á filmu. Þá var ég að hlaupa í skarðið fyrir Hermann vin minn Sveinbjörnsson, sem þá var lausráðinn fréttamaður Sjónvarpsins á Akureyri með ritstjórn Dags. Upp úr þessari vinnu Þórarins fyrir Sjónvarpið þróaðist Samver, sem var um tíma öflugt við fréttavinnslu og dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Þeir sendu til dæmis út þætti með eyfirsku efni og sáu um fyrstu beinu útsendingarnar fyrir Sjónvarpið frá Akureyri. Mig minnir að það hafi verið við Alþingiskosningarnar 1987. Þá tók ég viðtal við Ragnar vin minn Steinbergsson, formann yfirkjörstjórnar, sem var sent út beint, fyrsta beina útsendingin í Sjónvarpinu frá Akureyri. Um nóttina komu síðan tölur og viðtöl við frambjóðendur, allt í beinni úr Oddeyrarskóla. Meðal þeirra sem þar komu að verki var Sigurður Hlöðversson, en auk hans man ég eftir Þórarni, Viðari Garðarssyni, Geir Hólmarssyni og Önnu Kristínu Arnarsdóttur meðal Samversmanna. Eflaust gleymi ég einhverjum.
Þergar ég kom inn í þennan heim voru mikil umbrot í vinnslu myndefnis. Myndböndin voru að ryðja filmunni út og vinnslan varð einfaldari. Engu að síður þurfti tvo við upptökur á fréttaskotum; myndatökumann og hljóðmann. Ég var blautur á bak við eyrun í þessum heimi, en Samversmenn tóku mér vel. Sigurður Hlöðversson, sem nú er genginn í sumarlandið, var óþreytandi við að leiðbeina mér. Ég þekkti hann ekki fyrir; hann var sunnanmaður, sem elti ástina sína norður yfir heiðar. Það var Gunnur Ringsted. Hún fékk ekki vinnu við hæfi í Reykjavík, en Baldvin tannlæknir Ringsted faðir hennar hafði þörf fyrir aðstoð. Þess vegna fluttu þau Siggi og Gunnur norður og það var fengur fyrir okkur norðanmenn.
Eftir að Siggi hætti störfum hjá Samveri var hann um tíma tökumaður fyrir mig í fréttum og klippti jafnframt fréttirnar. Það var gott að vinna með Sigga. Hann var óhemju duglegur og ósérhlífinn og ég gat alltaf treyst því, að hann skilaði mér nægu myndefni í góða frétt og hann átti gott með að nálgast fólk við mismunandi aðstæður. Hann hikaði ekki við að vaða eld og brennistein til að ná góðum myndum. Stundum greindi okkur reyndar á um mynduppbyggingu og hreyfingar sem tökumaðurinn skapaði í myndinni með súmmi, tilti eða pani, eins og tökumenn orða það. Siggi var alltaf tilbúinn í bollaleggingar um slík atriði. Hann kunni að nýta sér aðfinnslur til lærdóms og hann las sér líka mikið til um kvikmyndagerð. Þau ár sem við unnum saman var hann í stöðugri framför sem tökumaður.
Siggi var alltaf tilbúinn í slaginn hvenær sólarhringsins sem ég hringdi. Hann var bóngóður og á síðustu árum gat ég oft leitað til hans með tæknileg vandamál þegar ég hef verið að yfirfæra gamalt efni yfir í stafrænt form. Ég veit að hann hjálpaði mörgum í sömu sporum; við að fiska gamlar minningar af VHS spólum yfir á DVD diska eða minniskubba.
Siggi sagði mér stundum frá starfsárum sínum hjá rafveitunum syðra og hér fyrir norðan. Þar störfuðu miklir ævintýramenn, því það dugðu engir meðalmenn í þessi störf hér í eina tíð og þannig er það eflaust enn. Þessir jaxlar þurfa að berjast inn til dala og upp til fjalla hvernig sem veður er. Oftar en ekki í öskrandi byl, klífa upp í staura og möstur til að berja ísingu af línum og fyrir kom að teflt var á tæpasta vað. Ég er ekki frá því að hann hafi stundum saknað áranna hjá rafveitunum. Siggi minn var nefnilega alltaf svolítill ,,göslari“, sem hafði gaman af ævintýrum og harki. Hann var ætíð tilbúinn til að hjálpa þeim sem lent höfðu í ógöngum, hvernig sem á stóð. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur í orðsins fyllstu merkingu.
Síðustu árin fóru ekki mildum höndum um Sigurð. Hann var vel að sér, vel lesinn og kunni skil á ótrúlegustu hlutum. Þess vegna var það honum sárt þegar það tók að hverfa úr huganum, sem hann vissi að hann átti að vita og muna. En það fór vel um Sigga í hjúkrunarheimilinu Hlíð síðustu misserin. Þar naut hann mjúkra handa hjúkrunarfólks, afkomenda og vina. En ég hygg hann hafi verið ferðbúinn blessaður og ég bið þess að hann hafi fengið gott leiði.
Siggi elskaði amerískar drossíur frá því upp úr miðri síðustu öld, með óteljandi hrossum undir húddinu, sem gáfu ómælda orku út í hjólin. Ég sé hann fyrir mér á einni slíkri í Sumarlandinu, í galladressinu og með skyrtuna fráhnefta niður á bringu. Að sjálfsögðu með uppbrettar ermar og rúðuna bílstjóramegin niðurskrúfaða, þannig að golan þyrlar upp rauðbirkinn lubbann. Sígó í munnvikinu og kók í hendi. Svo stingur hann lítilli plötu í spilarann undir mælaborðinu og skrúfar magnarann í botn. Fyrr en varir trylla tónar rokksins og Elvis Presley allt sem andann dregur. Siggi stígur bensínfjölina í botn. Hann hverfur í rykmekki með tilheyrandi dekkjavæli. Hann slær af sígarettunni út um gluggann um leið og hann gefur góðlátlegt vink með bros á vör.
Góða ferð gæskur.
Gísli Sigurgeirsson