Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Guðmundsson

„Siggi bróðir er dáinn“. Svona hófst símtal frá Ragnhildi systur minni við lok dags 19. apríl.

Tilveran hrundi, mig setti hljóðan, þetta getur ekki verið. Það fyrsta sem upp í hugann kom var að þetta væri hrekkur, þeim sem þekktu Sigga hefði ekki brugðið þó svo hefði verið. En sannleikurinn er svo sár og um hugann fóru alls konar undarlegar hugsanir, því hann? Maður á allra besta aldri, 53 ára. Ég varð reiður, ofsareiður, reiðari en nokkurn tímann á ævi minni. Minningar um skemmtileg og ekki eins skemmtileg augnablik úr ævi okkar systkina, alls konar prakkarastrik, hrekkir, skemmtileg ferðalög og veiðiferðir, ótal matarboð o.s.frv., jafnvel þegar þú reyndir að drepa mig með golfkylfunni eftir að ég hafði strítt þér daglangt, ég sló út flest ólympíumet í spretthlaupum því þyturinn sem kemur þegar sjöjárnið sveiflast fast við hnakkann virkar vel sem hvati til spretthlaupa, þegar ég var næstum búinn að skilja þig eftir við Fnjóská þegar þú sleist út úr 16 punda laxinum sem ég var nýbúinn að setja í og þú reifst af mér stöngina og ætlaðir að sýna mér hvernig best væri að landa kvikindinu, allt þetta og svo margt annað sem við áttum svo góðar minningar um.

Ég hef oft leitt hugann að því síðustu vikurnar, eftir að við vorum svo óþyrmilega minnt á hverfulleika þessa lífs að fólk deyr því miður ekki allt gamalt og á vel við hið fornkveðna, Þeir lifa lengst sem lýðum eru leiðastir. Þetta orðatiltæki hefur mörgum manninum sem ég hef kynnst um ævina hæft vel en verður aldrei heimfært upp á þig minn kæri bróðir sem ég kveð með þessum fátæklegu orðum því þetta orðatiltæki á svo sannarlega ekki við um þig. Þín verður minnst fyrir margt, varst hress, léttlyndur, spaugsamur með afbrigðum og stríðnari en flestir sem ég hef kynnst um ævina er sú lýsing sem fer þér best, uppátækjasamur með eindæmum, frekur á greiða en jafnframt greiðvikinn við aðra, tilætlunarsamari en flestir sem ég hef kynnst en svo stór í hjarta, óútreiknanlegur en samt svo fyrirsjáanlegur að mörgu leyti. Eitt gerðir þú fyrir bæinn þinn sem vonandi verður ekki aftur tekið, lagðir gras á torgið í miðbænum sem enn stendur en bæjarstjóri þess tíma vildi fjarlægja fyrir hádegi eins og mig minnir að hafi verið orðað, enn njóta bæjarbúar þessa og gera vonandi um ókominn tíma.

Hjartans þakkir fyrir góða samveru þær vikur sem þú dvaldir hjá okkur í vetur, það voru margar gleðistundirnar, setið yfir einum köldum, tári af rauðu og góðri steik. Við verðum hins vegar sennilega aldrei ráðnir til að sparsla og mála meðfram hurðum, afköstin hefðu hvergi þótt góð, þóttu nú ekki góð enda fundum við okkur ævinlega eitthvað annað til að gera.

Við erum sjö, alltaf sjö sögðu systur mínar við mig um daginn, og þannig er það því við systkinin erum þrátt fyrir allt afar samrýmd þó ekki sjáist það alltaf utan á okkur og þessi erfiði tími hefur þjappað hópnum frekar saman.

Sjálfur trúi ég ekki á framhaldslíf en ef svo ólíklega vildi til býst ég við því bróðir að þú sért staddur í Valhöll við skylmingar og glasaglaum með fyrrum köppum þessa lands þar sem þið Egill, Gunnar, Skarphéðinn og aðrar hetjur höggvið mann og annan í herðar niður ef aðra betri afþreyingu skortir því alltaf varstu tilbúinn til að taka slaginn. Elska þig bróðir og sakna þín alla daga, alla.

Þinn bróðir,

Arnar

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01