Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Guðmundsson

Elsku fal­legi stóri bróðir og vin­ur.

Nú ert þú far­inn á vit nýrra æv­in­týra og skil­ur eft­ir þig stórt skarð sem aldrei verður fyllt.

Penn­inn er þung­ur, erfitt og ósann­gjarnt að þurfa að skrifa þessi orð alltof snemma. Það er al­veg óend­an­lega sárt að þú haf­ir farið svona snemma frá okk­ur, það var svo margt sem þú átt­ir eft­ir að gera og þú varst svo spennt­ur fyr­ir kom­andi tím­um í Sam­b­íu.

Marg­ir eiga sér drauma en upp­fylla þá aldrei. Það er ekki hægt að segja það um þig. Þú varst hug­mynda­rík­ur og bjart­sýnn og fram­kvæmd­ir hluti sem flest okk­ar dreym­ir aðeins um. Þú varst góður vin­ur og milli okk­ar ríkti kær vinátta og traust. Ég mun sakna sam­tal­anna okk­ar um allt og ekk­ert, grettu­mynd­anna, hlát­urs­ins og hrekkj­anna þinna sem gerði líf okk­ar svo skemmti­legt. Þú varst svo skemmti­leg­ur og fynd­inn, ótrú­lega rétt­sýnn og með svo stórt hjarta en á sama tíma svo lítið hjarta, mátt­ir ekk­ert aumt sjá. Þótt þú vær­ir ekki spar á stóru orðin, gerðirðu svo mörg góðverk án þess að krefjast neins í staðinn. Þú þurft­ir ekki að aug­lýsa það fyr­ir um­heim­in­um hvað þú vær­ir góð sál. Þú gerðir frek­ar hlut­ina í skjóli næt­ur og þú einn viss­ir hversu góðan mann þú hafðir að geyma. Þú varst hreinn og beinn og ekk­ert fyr­ir kjaftæði. Sagðir hlut­ina eins og þeir voru en leyfðir öll­um að hafa sín­ar skoðanir. Þú hafðir þínar og hikaðir ekki við að bera þær á torg. Ef þú skaust þig í fót­inn, hikaðirðu held­ur ekki við að taka það til baka ef þú hafðir rangt fyr­ir þér, sem var auðvitað afar sjald­an. Ég veit ekki hvað ég sagði oft við þig: Skrifaðu bók, þú ert svo frá­bær penni. Skrif þín vöktu at­hygli og komust oft­ar en ekki í blöðin, enda varstu með frá­bært viðhorf til lífs­ins, þótt það hafi ekki verið þér alltaf auðvelt.

Þér leið oft­ast vel en þú átt­ir líka erfiðar stund­ir sem ég veit að tóku af þér toll. Það voru ekki all­ir sem fengu að koma ná­lægt þér, en milli okk­ar ríkti mik­il vinátta, ég átti það til að skamm­ast í þér og ég veit að þú hlustaðir, al­veg eins og ég hlustaði á þig. Þú vild­ir alltaf bæta þig og ég vildi óska að ég gæti sagt þér núna hve vænt mér þótti um þig. Veit að þú veist það en mig lang­ar bara svo að segja þér það einu sinni enn. Faðma þig og segja þér hvað mér finnst þú frá­bær, skemmti­leg­ur, fynd­inn og fal­leg­ur, sem þú viss­ir svo sem al­veg. Send­ir mér reglu­lega sjálfs­mynd­ir þar sem þér fannst þú sjúk­lega sæt­ur, enda varstu það, alltaf flott­ur í tauinu, eng­inn karl­maður átti jafn mörg skópör og þú, eða föt ef því er að skipta.

Þú varst mik­ill safn­ari og ferðaðist um heim­inn eins og hann væri þinn. Hann var þinn leik­völl­ur og þú lést ekk­ert stoppa þig í að upp­lifa eitt­hvað nýtt. Hvert sem þú komst naustu þess að vera til, en þú naust þess líka að vera einn með sjálf­um þér og horfa á heilu þáttaraðirnar. Vildi að við gæt­um horft sam­an á næstu Yellow­st­one-seríu, veit að þú verður þarna með mér.

Börn­in þín voru auga­stein­arn­ir þínir og þú varst svo stolt­ur af þeim. Svo varstu svo ást­fang­inn af elsku Nja­vwa og lífi ykk­ar í Sam­b­íu. Svo margt sem þú átt­ir eft­ir að gera þótt þú vær­ir bú­inn að gera mun meira en flest­ir sem lifa aðeins í 53 ár. Þegar þú komst síðast til Íslands, þá hringd­irðu í mig og sagðist koma eft­ir tvo daga, hvort þú feng­ir ekki gist­ingu eins og alltaf. Að sjálf­sögðu var það í boði, en nokkr­um sek­únd­um seinna labbaðirðu inn, þurft­ir bara að gera smá grín. Mér þykir svo vænt um þessa minn­ingu.

Krakk­arn­ir mín­ir eiga eft­ir að sakna Sigga frænda, skemmti­leg­asti frænd­inn sem kenndi þeim að veiða, fór með þau í gull­fiska­tjörn og keypti handa þeim flott­asta dótið og gaf alltaf bestu gjaf­irn­ar. Ekki var það verra að þú varst alltaf með seðla í vas­an­um, til að gleðja lít­il hjörtu. Stóru börn­in okk­ar eru góðir vin­ir og litlu strák­arn­ir mín­ir, sem aldrei gátu setið kyrr­ir, þeir eru svo lík­ir þér, uppá­tækja­sam­ir og skemmti­leg­ir. Þú dýrkaðir þá, enda sástu sjálf­an þig í þeim. Gleymi því seint þegar þú skild­ir ekki af hverju þú ætt­ir ekki að halda á yngsta syni mín­um und­ir skírn. Ég hefði dregið þig suður að óþörfu, en það kom fljótt í ljós að þarna eignaðist þú nafna, lít­inn Sigga. Klökk­ur og stolt­ur varstu, elsku bróðir.

Vind­ur er bú­inn að vera hérna hjá mér og ég er svo glöð að ég get fengið að hafa hann, rölta með elsku kraft­mikla gaur­inn þinn sem er alltaf með slím­ug­an bolta fyr­ir mann að kasta, gott fyr­ir okk­ur klígju­gjörnu vin­ina. Ég kúgaðist svo um dag­inn að ég ældi næst­um, hló svo eft­ir það, því þú hefðir gert ná­kvæm­lega það sama. Þú varst mér svo góður. Þegar ég var ung­ling­ur á ver­gangi, þá hýst­irðu mig, hugsaðir um mig og hent­ir í mig þúsund­köll­um. Alltaf til staðar fyr­ir litlu syst­ur, í blíðu og stríðu.

Ég veit að þú treyst­ir Óla til að sjá um mig eft­ir þinn dag. Milli ykk­ar var góð vinátta og þið höfðuð gam­an af veiðiferðunum ykk­ar og að tala um gráa fiðring­inn ykk­ar – mótor­hjól.

Þú sagðir við mig í síðustu af­mæliskveðju að þú mynd­ir alltaf grípa mig ef eitt­hvað bjátaði á, ég finn að þú ert enn til staðar og veit að þú munt aldrei svíkja það lof­orð og grípa mig, alltaf. Það er svo margt sem ég vil segja en sumt af því geymi ég fyr­ir mig, ann­ars er það efni í að minnsta kosti heila bók.

Ég lofa að halda vel utan um ást­ina þína, Nja­vwa, sól­ar­geisl­ana þína, stolt og yndi, Kolfinnu, Guðmund, Sjöfn og Óðin. Ég verð alltaf til staðar fyr­ir börn­in þín eins og þau væru mín eig­in.

Farðu vel elsku upp­á­halds stóri bróðir minn, kæri vin­ur minn. Hjarta mitt spring­ur úr sorg en ég veit þú verður þarna til að grípa mig, alltaf.

Þín litla syst­ir,

Ragn­hild­ur Rós.

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00