Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Bjarklind

Maður hefur í fæstum tilvikum eitthvað að segja um upphaf eða endi ævinnar, en æviskeiðið byggir upp minningar og félagi okkar Sigurður Bjarklind var einstakur drifkraftur stórra minninga!

Jafnframt því að vera frábær og metnaðarfullur kennari þá brann með honum mikill eldmóður fyrir útivist og auk fallhlífastökksins var hann afburðagóður hlaupari. Þrátt fyrir mjög góðan árangur í götuhlaupum á tíunda áratugnum þá áttu samt fjallahlaupin hug hans allan. Mögnuð keppnishlaup í Þorvaldsdalnum þar sem keppnisandinn hljóp með okkur í gönur langt ofan hefðbundinnar leiðar yfir stórgrýtisklungur en samt á nýju meti er eftirminnilegt. Gönguskarðs- og Bíldsárskarðshlaupin urðu býsna mörg og æfingafjallið Ystuvíkurhnjúkurinn – já já þá vorum við nú hættir að telja enda orðin eins og hver önnur vikurútina hjá Sigga.

Minningarnar voru þó hvergi stærri en þegar við hlupum Látraströndina og út í Fjörður. Alltaf var stutt í mentorinn hjá Sigga og í Fjörðu-hlaupunum fóru fram munnleg próf þannig að glugga þurfti í gamlar Ferðafélagsárbækur og lykilritið „Í verum“ eftir Theódór Friðriksson til að geta brugðist við spurningum kennarans. – Hvað heitir bærinn þarna niður við sjó? – Sker! Og eftir að hafa klárað megnið úr skrokknum upp Sprengibrekku að Messukletti kastaði maður úr sér móður og másandi – Hnjáfjall! Og áfram var haldið með kennileyti og sögur af fólki í farteskinu.

Sama var uppi á teningnum þegar við fórum að fara í göngur í Víknafjöllum. Sagt var að þegar síðasti nothæfi fjárhundurinn í Útkinn gaf upp öndina hafi verið kallaðir til hlaupagikkir frá Akureyri. En auðvitað þurfti Siggi smali í Strympu að standa skil á gangnamönnum eins og aðrir Kinnungar.

Þá hafði Siggi í heiðri sömu áherslur á kennileiti og fróðleik, kunna þurfti skil á mannlífi fyrri tíma, sem dæmi sögunni af flutningi orgelsins frá Húsavík yfir í Rauðuvík og hvernig bóndi bar það upp einstigið fyrir heimasætuna á Vargsnesi. Enn jókst svo við fróðleikinn við næturgistingu í Naustavík þar sem staðkunnugir Útkinnungar rifjuðu upp gamlar sögur áður en haldið var til náða fyrir átök komandi gangnadags.

Genginn er drengur góður og þegar rifjaðar eru upp þessar mögnuðu ferðir með Sigga verður manni hugsað til Fjarða-Þyts sem þótti glæstur hesta!

Góða ferð kæri vinur yfir í Huldulandið!

Hafðu þakkir fyrir allt og allt.

Jón Ívar og Kalli

Sigurður Bjarklind

Jón Már Héðinsson skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 10:00

Sigurður Bjarklind

Jan Eric Jessen skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 08:00

Sigurður Bjarklind – lífshlaupið

24. febrúar 2025 | kl. 08:00

Sigurður Bjarklind

Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 06:00

Gísli Bragi Hjartarson

Snjólaug Sveinsdóttir skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 11:15

Gísli Bragi Hjartarson – lífshlaupið

14. febrúar 2025 | kl. 08:00