Gísli Bragi Hjartarson

Glókollarnir tveir eru sonur minn, Svenni og dóttir mín , Lára Lilja. Afinn er tengdafaðir minn og vinur sem við kveðjum í dag með söknuði og þakklæti. Við bjuggum saman í Svíþjóð um átta ára skeið þar sem Gísli Bragi og Lilla hugsuðu um börnin okkar Hjartar meðan við foreldrarnir flugum með himinskautum í námi og starfsframa. Í hvert sinn sem ég lokaði dyrunum á eftir mér á leið til vinnu vissi ég að börnin mín væru á besta stað, elskuð og leidd á vit afaævintýra. Tveir glókollar bættust í hópinn í Svíþjóð. Heiða, sem stjórnaði afa sínum með krullum og skapi og á hverjum morgni fóru hún og afi í nestisferð með sitt hvorn brúsann, einn fyrir afa með kaffi og einn fyrir Heiðu með djús. Jóhanna með augun blá kom síðust og var í fangi afa síns eins mikið og hún og afi mögulega gátu. Ef hún var spurð til nafns þá kynnti hún sig sem Jóhanna með augun blá því það var nafnið sem afi hennar gaf henni.
Gísli Bragi var ímynd sannrar karlmennsku. Hann var heljarmenni, á yngri árum karlakarl sem sinnti lítið konu og börnum en þeim mun meira pólitík, vinnu og félagsstörfum. Karlakarlinn stímdi á sker í lífsins ólgusjó. Flestir hefðu lagt árar í bát, orðið bitrir og hálffúlir karlfauskar en ekki Gísli Bragi. Honum tókst hið nánast ómögulega, að endurskoða sjálfan sig og sína forgangsröðun og fann það sem gefur lífinu gildi. Hann er fyrirmynd sannrar karlmennsku sem lætur sig aðra varða en er þar að auki besti múrarinn, bestur í að skipta um dekk á bíl, bestur í að þrasa um pólitík og öruggur í eigin skinni. Gísli Bragi skildi manna best að þegar horft er í baksýnisspegilinn þá skipta engu aurarnir sem þú áttir eða metorðin sem þú fékkst heldur hversu margar fléttur þú fléttaðir, fána þú perlaðir með litlum glókoll og augu sem horfðu á þig full trausti og muna þig.
Gísli Bragi er farinn í síðustu buskaferðina. Þar bíður hans glókollur og saman fara þeir á vit ævintýranna.
Snjólaug Sveinsdóttir


Gísli Bragi Hjartarson

Einar Friðrik Malmquist

Brynjar Elís Ákason

Jóhanna S. Tómasdóttir
