Fara í efni
Minningargreinar

Sigríður Halldóra Hermannsdóttir

Við fráfall Siggu Dóru systur minnar og mágkonu Auðar koma margar minningar upp í hugann.

Minningar um æskuárin í Fjólugötu 13 eru margar, allar ljúfar og ógleymanlegar. Sigga Dóra var sem önnur mamma mín því 10 ár voru á milli okkar. Hún var snemma komin út á vinnumarkaðinn og vann í bókabúð og þaðan kom hún með margar eftirminnilegar gjafir sem hún færði litla bróður. Þetta var á þeim tímum eftir stríðið sem höft voru í gangi og skortur á ýmsum vörum í landinu.

Innan tíðar var Sigga komin með kærasta og Ari kom inn í fjölskylduna. Hann var togarasjómaður og þá var siglt með fiskinn til sölu til Bretlands. Það var spennandi því alltaf kom hann færandi hendi þegar heim kom.

Fljótlega festu þau kaup á neðri hæðinni í Fjólugötunni og brátt stækkaði fjölskyldan. Svo fór að húsnæðið varð of lítið. Þá var ég líka búinn að festa ráð mitt, kominn með konu og barn. Stór ákvörðun var tekin, við réðumst í húsbyggingu og upp reis fjölskylduhúsið í Byggðavegi 84. Árin okkar saman þar eru ógleymanleg. Það var dásamlegt sambýli og mikil samhjálp.

Sigga Dóra var okkur fyrirmynd í öllu. Hún var meistarakokkur, allt lék í höndunum á henni, hún saumaði og prjónaði á prjónavél fatnað á börnin sín og vann hluta úr degi í Litlu-búðinni í Byggðaveginum til að drýgja tekjurnar. Þvílíkur dugnaðarforkur. Alltaf boðin og búin að passa börnin okkar þegar þurfti o.s.frv. Auður á henni margt að þakka og er sérstaklega minnisstætt hvað hún var viljug að lána henni nýju Kitchen Aid hrærivélina sína einn dag í viku svo Auður gæti bakað vistir til vikunnar. Börnin okkar áttu alltaf sitt annað heimili á efri hæðinni hjá „Löggu“ frænku (eins og þau kölluðu hana) og amma Anna var í sinni íbúð í húsinu með okkur. Þetta þríbýli var hamingjuríkt og glaðvært.

En þar kom að Sigga og Ari keyptu sér hús í Skálagerði 2 þar sem pláss var fyrir alla. Alltaf var jafn yndislegt að koma til þeirra og gleði og hamingja ríkjandi þar alla tíð. Börnin uxu úr grasi, öll stúdentar frá MA og skólafélagar þeirra heimagangar í Skálagerðinu, allir sóttu þangað í gestrisnina og vinskapinn og kökurnar hennar Siggu Dóru. Okkur er efst í huga nú hvað hún var okkur kær og góð. Heimili hennar var okkur öllum alltaf opið og okkur vel fagnað. Þar ríkti fyrst og fremst ást, umhyggja og vinsemd. Eftir stendur í minningunni væntumþykja og þakklæti fyrir samveruna í 82 ár.

Síðustu árin dvaldi hún á Lögmannshlíð þar sem hún naut mjög góðrar aðhlynningar og alúðar. Erum við þakklát fyrir það og þangað var gott að koma. Það var sorglegt og erfitt að horfa upp á hana hverfa frá okkur og inn í sinn hugarheim. Með sorg í hjarta kveðjum við hana en gleðjumst jafnframt yfir því að eftir langa ævi er þrautum hennar lokið og henni líður nú vel. Nú er hún komin í Sumarlandið til Ara síns og þau tilbúin í fyrsta valsinn.

Takk fyrir allt elsku Sigga Dóra!

Elsku Anna Guðný, Hemmi, Inga og Matta, sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingólfur og Auður

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00