Fara í efni
Minningargreinar

Sigmundur Þórisson

Kveðja frá Old-boys KA

Okkur í gamla hópnum Old boys í KA langar að minnast látins fótboltafélaga og félaga, Sigmundar Þórissonar.

Við félagarnir í þessum hóp héldum saman í u.þ.b. 30 ár og vinskapurinn ristir enn djúpt. Hluti hópsins byrjaði í gömlu Skemmunni en fluttist síðan í KA húsið með byggingu þess 1991 og hefur haldið tímanum kl. 16:30 á sunnudögum síðan þá og til dagsins í dag. Enda margir innan hópsins sem komu að byggingu hússins og þar átti Simmi stóran hlut að máli. Hann var formaður KA frá 1989-1998. Í hans tíð unnust margir titlar hjá félaginu, m.a. Íslandsmeistarar í knattspyrnu, handbolta, blaki og sveitakeppni í júdó.

Í dag er hluti af Old boys hópnum beinir afkomendur okkar eldri félaganna og halda tímann hálf fimm vonandi heilagan. Þótt iðkun knattspyrnu væri megin tilgangurinn varð hópurinn með tímanum annað og meira. Þetta varð samstilltur hópur sem lét sig ekki bara fótbolta varða heldur gerði margt saman. Það var farið í ferðir jafnt innan sem utanlands, m.a. til London, Barcelona og Rómar. Þá var ávallt farið á einn leik og haldin virðuleg árshátið á þessum stöðum með mat og skemmtiatriðum og voru eiginkonurnar einatt með. Sigmundur var alltaf með í þessum ferðum, enda gleðimaður.

Tíminn hálf fimm á sunnudögum varð heilagur tími sem ekkert gat hróflað við, það var mætingaskylda, sama hvað var um að vera í fjölskyldunum. Hann var festa í lífinu hjá okkur öllum í hátt í 30 ár og ef ske kynni að það félli niður tími vegna einhvers urðum menn eins og fiskar á þurru landi, vissu ekkert hvað þeir áttu af sér að gera.

Á æfingunum giltu fastmótaðar reglur sem mönnum bar að hlýða. Það var t.d. alltaf hendi ef bolti snerti hönd. Urðu stundum heitar umræður í hita leiksins. Simmi stóð gjarnan á milli stanganna og varði vel en hann hafði þá bjargföstu skoðun að öxlin á honum næði alveg niður að úlnlið og gat því verið langsótt að fá dæmda hendi á hann. Ef hann var ásakaður um hendi svaraði hann gjarnan fyrir sig „þetta er engin helvítis hendi þetta er öxl“. Aðrir í liðinu voru með skilgreindar hendur eins og læknisfræðin kvað á um og komust ekki undan því að fá dæmda á sig hendi. Eftir tíma og blástur var spjall í potti og skolað niður með einum öl.

Það hefur kvarnast úr hópnum okkar og alltaf sárt að sjá á eftir góðum félaga og færum við fjölskyldu Sigmundar innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Old-boys KA

Tómas Lárus Vilbergsson

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01