Rúnar Heiðar Sigmundsson
Nú þegar aðventan nálgast eru liðin 40 ár síðan ég hóf að venja komur mínar í Espilundinn að hitta heimasætuna sem þá var liðlega 16 ára og ég nýorðinn 18 ára, allir fuglar orðnir fleygir nema örverpið. Komur mínar voru litnar hornauga af húsbóndanum á heimilinu, Rúnari Heiðari Sigmundssyni sem við fylgjum nú síðasta spölinn í dag eftir áratuga samveru. Þessi hornaugu vörðu nú ekki nema stundarkorn ef svo má að orði komast því eins og Rúnar sagði sjálfur í ræðu sinni á brúðkaupsdag okkar Guðrúnar, „Ég var oft fámáll og fúll við Fúsa, er hann fór að gera sig heimakominn en eftir því sem kynni okkar jukust sá ég fljótt að þetta var hinn besti drengur.“ Betra hrós er ekki hægt að fá frá jafn yndislegum manni og Rúnar var. Það varð strax ljóst að Rúnari þótti jafn vænt um mig eins og ég væri sonur hans og eftir því sem árin liðu upplifði ég Rúnar sem minn eigin föður þar sem ég var ungur að árum þegar ég missti föður minn. Það var ekki aftur snúið ég var svo sannarlega orðinn einn af fjölskyldunni og umvafinn kærleik og ást af bæði Rúnari og Helgu, tengdaforeldrum mínum.
Það varð mér fljótt ljóst er við Guðrún stofnuðum fjölskyldu og eignuðumst börnin okkar fjögur að afi og amma voru alltaf til staðar fyrir þau, okkur og fjölskylduna alla. Samverustundirnar allar, brallið í þeim afafeðgum, útilegurnar, sjóstöngin í Grímsey og víðar, ferðalögin til útlanda, ferðirnar að Melum og í Ófeigsfjörð og svo má lengi telja er við fórum m.a. á „Vilborgu“ sem var húsbíllinn þeirra hjóna.
Rúnar var útivistarmaður mikill og bar ómælda virðingu fyrir náttúrunni, hann stundaði gönguskíði, göngur á fjöll, sjóstangaveiði og síðan var hann sporgöngumaður á svo kölluðum racer hjólum á Akureyri ef ekki á Íslandi.
Ég er ekki einungis að kveðja minn ástkæra tengdaföður í dag heldur farsælan samstarfsmannn til þrjátíu ára. Eftir nám í VMA þar sem við Guðrún útskrifuðumst af viðskiptabraut varð fljótt ljóst að starfsvettvangur minn var í sama farvegi og hjá Rúnari eða í bókhaldi og fjármálum. Árið 1992 eftir að Rúnar var búinn að vera nokkur ár heima í fullu starfi með bókhaldsskrifstofu stakk hann upp á því að við myndum stofna saman fyrirtæki sem og við gerðum og fluttum starfsemina í Kaupang og síðar keyptum við okkar eigin húsnæði þar. Þetta var slíkt gæfuspor fyrir mig og fjölskyldu mína sem enn varir og þar vissi minn maður að hæfileikum mínum væri best varið. Fyrir þetta tækifæri get ég aldrei fullþakkað mínum yndislega tengdaföður. Þegar við byrjuðum að starfa saman varð mér ljóst að þar fór maður með mikla virðingu á sínu sviði hér á Norðurlandi og þótt víðar væri leitað. Rúnar var prinsipp maður, vandur að virðingu sinni og mátti aldrei sjá á neinn hallað, frekar tók hann hallann á sjálfan sig. Þegar við byrjuðum okkar samstarf þá voru reiknivélin, ritvélin svo ekki sé talað um kalkípappírinn hans helstu tól við skýrslu- og ársreikningagerð og það var engin þörf á tippexi, slík var nákvæmnin.
Það var svo ekki fyrr en í fyrra þegar Rúnar ákvað að setjast endanlega í helgan stein eftir að hafa gert sínar síðstu skattaskýrslur fyrir sig og vini og vandamenn, 89 ára gamall.
Með þessum fátæklegum orðum til manns sem ég hef alla tíð borið ómælda virðingu fyrir kveð ég minn ástkæra og yndislega tengdaföður og þakka honum svo og tengdamóður minn henni Helgu sem lést árið 2015 fyrir þeirra hlýhug og ástúð til mín og barna minna. Guð veri með okkur öllum.
Sigfús Karlsson