Fara í efni
Minningargreinar

Pálmi Stefánsson

Ég kynntist Pálma fyrir rúmum 60 árum síðan þegar sameiginlegur vinur okkar leiddi okkur saman í hljómsveit, en það var Birgir Marinósson en hann var þá búinn að fá Gunnar Tryggvason til liðs við sig og þessi hljómsveit hóf að spila 28. okt. 1961 í Víðihlíð í Húnavatnssýslu og spilaði til 29. sept. 1962 á Hótel Höfn á Siglufirði eða alls á 61 dansleik. Pálmi kom frá Árskógsströnd og var þá nýfluttur til Akureyrar og samdist okkur svo um að hann gerðist kostgangari hjá okkur hjónum en við vorum þá nýbúin að stofna heimili.

Árið 1962 hættir Birgir með sína hljómsveit og þá tók Pálmi við og til liðs við okkur gekk þá Sveinbjörn Vigfússon, en þessi hljómsveit hóf að spila 6. okt. 1962 og hennar síðasta ball var 22. sept. 1963, og þá stofnaði Pálmi hljómsveitina Póló og ég hljómsveitina Laxa, en vinátta okkar hélst alla tíð þó svo að við værum ekki að spila saman. Til dæmis tókum við Alþýðuhúsið á Akureyri á leigu og spiluðum við þar, báðar hljómsveitir til skiptis eða hvor sitt kvöldið. Þetta gerðum við í tvö sumur á virkum kvöldum en fórum svo eitthvað úr bænum um helgar.

Einhverju sinni heyrði Pálmi okkur flytja lag eftir Grétar Ingvarsson og texta eftir mig, sem að heitir Æskuást. Hann var þá að gefa út plötu með Erlu Stefánsdóttur og varð þetta lag afar vinsælt. Svo gaf hann út plötu sem heitir Eitt með öðru, þar bauð hann mér að syngja tvö lög. Þegar að við vorum að mestu hættir að spila þá fórum við fara á öldrunarheimilin hér í bæ, stundum tveir eða þrír til að spila fyrir heimilisfólk þar. Hann vildi gera meira úr þessu og hringdi í mig og sagðist ætla að stofna alvöru hljómsveit og að ég ætti að vera í henni. Ég sagði honum að ég væri búinn að selja trommusettið mitt. „Það er allt í lagi, þú átt bara að syngja,“ sagði hann þá og þar með var það ákveðið, en við gerðum meira en að spila á öldrunarheimilunum. Við fórum til Dalvíkur og Ólafsfjarðar og vorum á skemmtunum í safnaðarheimili Akureyrarkirkju og spiluðum á hafnarfestivali í Óðinsvéum í Danmörku. Þegar Pálmi fór að missa heilsu undir það síðasta, þá komst hann stundum ekki til að spila og eitt sinn þegar ég heimsótti hann á sjúkrahúsið og við höfðum verið að spila daginn áður, þá sagði ég honum að við hefðum sett nýtt nafn á bandið; nú héti það Vinir Pálma. Hann var afar kátur með það.

Kæri vinur, þín verður sárt saknað og við félagarnir í Vinum Pálma kveðjum þig með miklum söknuði og við vitum að þú verður kominn með band í sumarlandinu innan tíðar.

Rafn Sveinsson.

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01