Pálmi Stefánsson
Kveðja frá Kiwanisklúbbnum Kaldbaki.
Við Kaldbaksfélagar kveðjum nú einn af máttarstólpum klúbbsins okkar, Pálma Stefánsson. Pálmi hefur verið félagi í Kaldbaki lengur en nokkur annar eða í um 50 ár, alltaf með mjög góða mætingu og þurfti mikið að ganga á svo hann kæmi ekki á fundi eða aðrar samkomur hjá klúbbnum. Hann var forseti Kaldbaks starfsárið 1986–87 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina eins og gengur og var nokkurs konar akkeri fyrir þá sem vildu fara svolítið fram úr sér með alls konar hugmyndir í klúbbstarfinu. Þá kom hann fram með sínar skoðanir, á sinn rólega og yfirvegaða hátt sem allir tóku tillit til.
Þær voru ófáar samkomurnar sem Pálmi mætti á með nikkuna, hvort það voru jólafundir, jólatrésfagnaðir eða skemmtikvöld. Fyrir síðasta jólatrésfagnað okkar hafði hann veikst mikið nokkru áður og töldum við ólíklegt að hann gæti spilað en þegar við færðum það í tal við hann, hvort hann treysti sér til þess, þá hélt hann það nú, hann færi ekkert að bregða út af vananum. Svona var hann, skilaði alltaf sínu. Pálmi var gegnheill Kiwanismaður og hann sagði okkur að eitt sinn hefði hann verið spurður af hverju hann væri búinn að vera svona lengi í Kiwanis, þá svaraði hann því til að hann hefði aldrei tímt að hætta, þetta væri svo góður félagsskapur. Við teljum þetta orð að sönnu. Að leiðarlokum þökkum við Kaldbaksfélagar Pálma fyrir samfylgdina á liðnum árum og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.
F.h. Kiwanisklúbbsins Kaldbaks,
Kristinn Örn Jónsson, forseti.