Fara í efni
Minningargreinar

Páll Snævar Jónsson

Nú er komið að kveðjustund elsku Palli minn. Fyrir 19 árum kynntist ég syni þínum Stefáni (Bróa) og nokkrum árum síðar varst þú svaramaður í brúðkaupi okkar, það var góður og fallegur dagur. Þú og Hanna tókuð einstaklega vel á móti mér og dóttur minni Báru og vorum við strax partur af fjölskyldunni, fyrir það er ég þakklát.

Ljúfari mann er erfitt að finna og aldrei sá ég þig skipta skapi. En það sem einkenndi þig fyrst og fremst var mikill húmor og léttleiki. Sem dæmi um það má nefna að þegar ég kynntist Bróa þá bjó ég á Svalbarðseyri og einhverju sinni varst þú spurður að því hvað sonur þinn væri að gera þar, þitt svar var „hann er að ditta að einhverju tæki“.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna þá varstu hættur að vinna en hafðir þá meiri tíma til að sóla þig á svölunum í Lindarsíðu, taka á móti vinum og fjölskyldu og fara rúnt um bæinn. Á heimili ykkar var oft margt um manninn og ekki skrítið með 7 börn, 26 barnabörn og 32 barnabarnabörn sem alltaf gátu leitað til ykkar ef eitthvað bjátaði á. Í staðinn fyrir sunnudags læri buðu þið öllum í laugardagsgraut og voru það æðislegar stundir. Þú og Hanna stjönuðuð við stóra sem smáa á þessum dögum.

Ég og Stefán eignuðumst Rósu Maríu 2008, ykkar yngsta barnabarn og þó að þið væruð komin af léttasta skeiði þá gáfu þið henni alltaf tíma og nokkuð oft í 1. og 2. bekk leitaði hún til ykkar eftir skóla, fékk eitthvað gott að borða, hlýjan faðm og gott samtal.

Eitt er víst í þessu lífi Palli og það er að á endanum kveðjum við og fáum hvíld. Eftir sitja aðstandendur og syrgja. En í sorginni er einnig gleði því þá lítur maður til baka, minnist gleðilegra stunda og finnur til kærleiks þegar við rifjum upp þann tíma sem við áttum saman. Við sem eftir erum munum passa gullið þitt, Hönnu eins vel og við getum og halda utan um hana.

Að lokum vil ég þakka þér Palli fyrir að vera nákvæmlega eins og þú varst og takk fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Ég fékk leyfi frá barnabarni þínu, Rósu Maríu til að hafa ljóð frá henni með í þessari kveðju.

Sorgin

Sorgin situr enn í hjarta þínu
þú liggur ein í móa
og sól og vindur
blása burt öllum sorgum þínum.

Kveðja,
María Hensley

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01