María Guðmundsdóttir
María Guðmundsdóttir Toney, fyrrverandi landsliðskona á skíðum er látin. María var dyggur félagi í Skíðafélagi Akureyrar (SKA) og alin upp í brekkum Hlíðarfjalls. María varð margfaldur Íslandmeistari og keppti fyrir hönd Íslands bæði á HM unglinga og á heimsmeistaramótum um árabil. Segja má að allt líf Maríu hafi verið litað af skíðamennsku en hún stundaði nám bæði í skíðamenntaskóla í Geiló í Noregi og í skíðaháskóla í Bandaríkjunum.
Þjálfarar skíðafélagsins minnast Maríu sem fyrirmyndar íþróttamanns sem var ávallt dýrmætur liðsmaður, litrík og jákvæð, glaðvær og brosmild sem tók áskorunum með einskæru jafnaðargeði og af yfirvegun – meira að segja þegar að hún slasaðist korter í ólympíuleika!
Liðsfélagar Maríu minnast hennar með hlýju og húmor.
_ _ _
Það er svo margt fallegt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Maríu, en einna helst er það viljastyrkurinn og jákvæðnin sem hún alltaf bar að vopni. Húmorinn var aldrei langt undan og dreifði hún brosum hvert sem hún fór.
Helga María Vilhjálmsdóttir
Þegar ég kynntist Maríu snérist lífið um skíði og hún var óþolandi litli krakkinn sem kom upp í fullorðinsflokk, alltof góð á skíðum og gaf okkur eldri stelpunum heldur betur spark í rassinn. Við þurftum að standa okkur eða tapa fyrir litla krakkaskítnum. Hún var alltaf brosandi og kát, drepfyndin, sjálfsörugg, með bros sem gat brætt hvern sem er, skemmtileg og einbeitt. Þetta eru allt frábærir kostir en algjörlega óþolandi þegar þeir tilheyra stærsta keppinauti manns! Ég kynntist Maríu betur síðar þegar við vorum saman í skíðamenntaskóla í Noregi. Við náðum vel saman. Vorum báðar með ruglað keppnisskap og höfðum gaman af því að hafa gaman og urðum mjög góðar vinkonur. Við bjuggum hlið við hlið og það eru svo margar góðar minningar frá þessum tíma. Okkur fannst ekki leiðinlegt að klæða okkur upp, dönsuðum oft og hlæja mikið. Þá voru haldin ófá Singstar og GuitarHero partý á þessum tíma. Svona á milli þess sem við prýddum skíðabrekkur Evrópu. Við skiptumst oft á að elda kvöldmat og borða saman. Einstaka sinnum (lesist: mjög oft) endaði það með brownies köku í eftirrétt. Við íslensku stelpurnar í Geilo elskuðum að baka brownies og horfa saman á Biggest loser. Eitt það besta við að gera brownies var að borða aðeins af deiginu áður en kakan fór í ofninn. Við María fengum einu sinni þessa frábæru hugmynd, við gerðum tvær uppskriftir af brownies, eina til að borða bara deigið (forrétturinn) og aðra til að baka (eftirréttur). Nokkrum skeiðum seinna lágum við auðvitað upp í sófa að drepast í maganum, sem skánaði ekki með hláturskastinu sem fylgdi.
Katrín Kristjánsdóttir
Lífsglöð, brosmild, ákveðin, úrræðagóð, þrautseig og margt annað kemur í huga manns þegar maður hugsar um Maríu Guðmundsdóttur. En hún var fyrst og fremst frábær vinkona sem ég kynntist í Hlíðarfjalli á skíðaæfingum og náði vinskapur okkar útfyrir skíðaæfingar og skíðabrekkurnar. Til að mynda ferðuðumst við mikið innanlands og erlendis saman. Minnistæð er ferð okkar til Ísafjarðar með Matthíasi frá Austurríki. En við urðum veðurteppt í viku á Ísafirði. Var veðrið svo vont að við héldum að skíðaskálinn myndi fjúka ofan af okkur í mesta veðrinu. Við þurftum að sinna skólaverkefnunum meðan við vorum föst á Ísafirði en þá fékk María þá snilldarhugmynd að við myndum deila heimanáminu okkar á milli þessa vikuna. Ég tók að mér stærðfræðina fyrir Maríu og hún tók íslensku verkefnin mín, það komst nú fljótt upp þar sem svörin í bókinni minni voru vel læsileg.
Magnús Finnsson
Elsku Mæjapæja, það er svo ótal margar skemmtilegar sögur hægt að segja af þér, fyrirmynd og flippari lífs míns – þér datt alltaf eitthvað nýtt í hug og tókst öllu með jákvæðni! Það sem kemur sterkast upp í hugann á mér þegar ég hugsa um þig, er Brynjuís. Þú varst mesti Brynjuís áhugamaður sem ég hef þekkt, og treystu mér ég þekki nokkra.
Eitt sumarið vorum við nýbúnar að klára langan vinnudag á KEA og fórum beint á þrekæfingu þar sem hlaupið var fyrir allan peninginn, þegar við erum að rölta út í bíl (í rauðu þrumuna þína) stingur þú upp á hvort við eigum ekki fá okkur Brynjuís – við séum nú búnar vera svo duglegar í dag. Þú varst ekki lengi að plata mig í þetta og við brunum beint af þrekæfingunni og niður í Brynju –
þegar við sitjum fyrir utan að kjamsa á bragðarefinum sem við keyptum okkur, keyrir Markus þjálfari svo framhjá á leið sinni heim af þrekæfingunni. Ég man enn í dag eftir svipnum á honum og hláturskastinu sem fylgdi eftir hjá okkur. Lofa, mun borða nóg af Brynjuís í framtíðinni, allt til heiðurs þér – létt.
Þín, Stínastuð - Kristín Rut Gunnarsdóttir
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Maríu er hláturinn hennar, þvílíkt smitandi og var aldrei langt undan. Mikill grínari en samt svo einbeitt.
Matthildur Rún Káradóttir
Manneskja sem alltaf var skemmtilegt að umgangast. Hress og orkumikill stuðbolti sem að verður sárlega saknað.
Arnór Dagur Dagbjartsson
„Þetta er ekkert mál,“ sagði María og kom hjólandi að hitta okkur í Vaglaskógi 13 ára, þegar ég keppti á mínu fyrsta FIS móti og var að fara á taugum þegar ég fór í hnéaðgerð.
„Við verðum líka að vera pæjur,“ sagði María og við lökkuðum á okkur neglurnar, settum límmiða á hjálmana og dönsuðum fyrir framan tölvuna. Það skilaði sér svo þegar við fórum í Photobooth flipp með Alberto Tomba.
Thelma Rut Jóhannsdóttir
María var fyrirmynd á öllum sviðum. Gleymi seint eftir þeim tímum þar sem maður mætti upp í Hlíðarfjall á æfingu og þar var stelpa sem var líka alltaf á æfingu og var hún aðeins eldri en ég en vá hvað hún var góð á skíðum og alltaf brosandi og hláturinn ekki langt undan. Það leið ekki langur tími milli þess frá því að ég sá þessa stelpu upp í fjalli og þangað til ég fór að horfa upp til hennar og fylgjast vel með henni á æfingum. Ég ætlaði sko að skíða jafn flott og hún!
Á seinni árum var ég svo heppin að fá að kynnast henni Maríu og það sem kemur upp í hugan hjá mér er þvílík jákvæðni og gleði. Við vorum að keppa á FIS móti í Noregi og kom hún til mín og spurði mig nú hvernig hafi gengið. Ég var fljót að svara í þungum tón að það hafi gengið ömurlega og allt væri ömurlegt. Hún var ekki lengi að snúa öllum neikvæðu hugsununum mínu við þar sem hún spurði strax til baka brosandi, „Hey gamla“, finnst þér samt ekki gaman á skíðum? Ég var svosem ekki lengi að hugsa og svaraði glettin á svip og frekar vandræðaleg játandi. Þetta er alveg klassísk María, – sterkt hugarfar, jákvæð og fyrirmynd á öllum sviðum.
Auður Brynja Sölvadóttir
María var ákveðin, skemmtileg, brosmild og virkilega hress. Hún var alltaf hrókur alls fagnaðar á æfingum og góður vinur en við krakkarnir eyddum miklum tíma saman bæði innan og utan æfinga. Þegar við festumst á Ísafirði þá hélt María uppi stuðinu og tók mig meðal annars í plokkun og rakstur enda fannst henni engin ástæða til að vera bara úfin og myglaður þó maður væri fastur uppi í fjalli í 30 metrum á sekúndu.
Hákon Valur Dansson
María var sú sem var með hvað mestan drifkraft og sterkasta karakter sem ég hef kynnst. Ferlega hress alltaf í skapinu og þegar illa gekk þá gjarnan var hægt að hringja í hana og hún hughreysti og endurhlóð drifkraftinn hjá manni.
Það er ekki sjálfgefið að eiga svona persónuleika að og hvað þá fyrir utan hversu brosmild og skemmtileg sem hún var. Þó margar minningar blossi upp þá er ein helst sem mér þótti ferlega vænt um og það var þegar ég fór til Geilo í leyniskíðaferð með pabba og þær María, Katrín Kristjáns og Fanney Guðmunds buðu mér í íbúðina til Kötu eða Maríu sem bjuggu hlið við hlið í heita brownie og ís veizlu! Það var mikill galsi hjá okkur og köku-hveiti og deig út um allt og miklar rökræður um hvernig ætti að baka brownie-kökuna, smakka þurfti deigið til og það þurftu sko ALLIR að smakka deigið, allir hlæjandi með deig upp að enni. Loks er kakan var tilbúinn var skorið í stórar sneiðar og mikill ís með. Stutt þögn var þegar fyrstu bitarnir voru teknir og þar sem miðjan á kökunni var ennþá fljótandi og síðan fara þær að blaðra um hvað hefði mátt fara betur sennilega, man það ekki nákvæmlega, því ég sat ennþá í þögninni, Virkilega einbeittur! Því mér fannst þessi Geilo brownie klassík alveg rosalega góð og get ekki staðfest það en er nokkuð viss um að það hafi verið 10 stjörnuhröp þegar ég setti fyrsta brownie bitann upp í mig, fyrsta skiptið á ævinni! Svo eftir að við vorum öll búinn að jafna okkur í maganum eftir hálf elduðu brownie kökuna var playstation tölvan ræst og rafmagns tölvu-gítararnir gripnir upp og var rokkað fram eftir kvöldi.
Skíða-stuðkveðjur
Sturla Snær Snorrason
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég sit hérna og skrifa er hvað ég var rosalega öfundsjúkur út í skíðastílinn þinn, hann var svo afslappaður eitthvað, þú skíðaðir alltaf eins og það væri hver annar sunnurdagur, engin pressa, bara skíða niður og koma í mark (í 90% tilfella fyrst). Ég man eftir öllum skiptunum þegar við héngum hjá Karen Sig niðri í kjallara, í Singstar, gistiparty, horfa á mynd eða bara spjalla. Ég man svo vel eftir því þegar ég ákvað að spyrja hvort þú vildir vera kærastan mín í 8. bekk, hvað ég var sveittur í lófunum úr stressi... ég absolutely trúði ekki að sætasta og besta skíðastelpan hefði virkilega áhuga á pirrandi gerpinu sem ég var. Ég trúði og trúi því enn að þú hafir laðast meira að skíðahæfileikum mínum heldur en persónuleika, þú elskaðir þetta sport það mikið. Ég man hvað ég var ógeðslega hræddur við pabba þinn, frægasta skíðaþjálfara heims og ég gleymi því aldrei þegar hann sagði mér í fyrsta skiptið að ég mætti ekki setja skíðin svona þvert á falllínuna... ég skildi ekki neitt hvað hann átti við en kinkaði samt kolli og lofaði öllu fögru. Nokkrum dögum seinna safnaði ég kröftum í að segja þér að ég skildi þetta bara alls ekki og þú að sjálfsögðu skellihlóst og útskýrðir fyrir mér hvað kallinn átti við. Ég man þegar ég sagði þér að uppáhalds kakan mín væri mjúk súkkulaði kaka og það tók þig ekki 5 mín að rífa fram hráefnið og og græja fyrir mig blautar brownies. Ég man þegar þú fórst í skóla til Noregs til að elta drauminn þinn og hvað mér fannst erfitt að kveðja þig, fyrstu kærustuna. þessar minningar sitja með mér og munu alltaf gera. í seinni tíð var eiginlega pirrandi að fylgjast með þér því að það sem þú og Ryan áttuð saman er eitthvað sem ég held að fáir finni á sinni lífstíð, það geislaði á hverri einustu mynd af ykkur hvað þið í alvörunni nutuð þess að eyða lífinu saman, þið létuð ekkert stoppa ykkur og voruð að byggja upp það líf sem alla dreymir um að eiga. Við sjáumst síðar elsku María.
Róbert Ingi Tómasson
Skíðafélag Akureyrar sendir fjölskyldu Maríu og aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur.