Fara í efni
Minningargreinar

Magnús Geir Guðmundsson

Margs er að minnast þegar ég frétti af skyndilegu fráfalli vinar míns Magnúsar Geirs Guðmundssonar og ótal minningarbrot koma upp í hugann á þessari stundu.

Við Magnús kynntumst fyrst að ráði í húsi nokkru við Grenivelli á Akureyri, þar sem báðir leituðu ásjónar tónlistargyðjunnar hjá sameiginlegum vini okkar á Eyrinni í höfuðstað Norðurlands. Það hefur að öllum líkindum verið fyrir hartnær fjörtíu árum síðan.

Við höfðum vitað af hvor öðrum í einhvern tíma, enda bjuggum við báðir norðan Glerár og vart voru meira en fimm hundruð metrar á milli æskuheimila okkar. Það var fleira sem batt okkur vinaböndum en tónlist. Báðir höfðum við áhuga á skáldskap, þó svo að við værum á ólíkum stað á því sviði, og var skáldskapurinn oft á tíðum ræddur af mikilli ástríðu. Menning, stjórnmál og mannlífið sjálft gat einnig orðið okkur samræðuefni. Magnús vildi gjarnan fara út í langar einræður um ættfræði manna og gat oft þulið upp tengsl fólks sem við báðir áttum að þekkja, en oftast var það svo að fennt hafði yfir minni mitt á viðeigandi einstaklingi og því kom ég oft af fjöllum, þegar hann nefndi einn eða annan „sem var úr Þorpinu“ og á okkar reki. Þetta var eitt að því sem aðskildi okkur; að annar hafði áhuga á ættfræði og hafði nokkuð stærri harðan disk í höfðinu en gengur og gerist, en hinn var algjörlega laus við áhuga á ættfræðigrúski og hafði frekar fábreytta vinnslustöð innan höfuðkúpunnar. Þegar ég hugsa til baka, þá furðaði maður sig oft á því – og ég er ekki einn um það – þvílíkt minni Magnús hafði. Hann mundi fábrotna hversdagsatburði sem gerðust fyrir fjörtíu árum og eftir að sjónin fór, þá kom hann fólki á óvart með að muna útlit bygginga og lit þeirra sem og hvernig hagaði til innandyra í þessum byggingum, hverjir unnu þar og hvernig þeir tengdust öðru samferðarfólki okkar í gegnum lífið. Minni hans voru hans augu eftir að sjónin brást.

Magnús var skarpgreindur og hefði getað orðið afburðarmaður í hverju því sem hann hefði tekið sér fyrir hendur, hvort sem hann hefði orðið rafvirki, jarðfræðingur eða heilaskurðlæknir. En örlögin gripu því miður snemma í taumana og Magnús lifði mest allt líf sem fjölfatlaður maður. Fjölfatlaður? Jú, samkvæmt læknisfræðilegri skilgreiningu. En hann sá oft betur og heyrði betur, en margir aðrir með fulla sjón og heyrn.

Magnús gaf út einar sex bækur og var oftast að finna hefðbundin kveðskap í þeim; kveðskap með höfuðstaf, stuðlum og endarími, en þannig fannst honum að ljóðagerð ætti að vera. Stundum var myrkur yfir kvæðunum, en líka gáski sem einkenndi persónugerð Magnúsar og hér er ein skemmtileg limra sem er einkennandi fyrir Magnúsargáskann:

Svona almennt og yfirleitt,
alla jafna og gegnumsneitt.
Með hógværum hætti,
en helst öllum mætti,
ég yrki alls ekki neitt.

En sem betur fer stóðst þetta ekki og Magnús hélt áfram að yrkja, og skemmti þannig mörgum þeim sem áhuga höfðu á hefðbundnum kveðskap; með bókum sínum og á fésbókarsíðu sinni. Magnús var virkur á Fésbókinni, hafði skoðanir á flestu og fylgdist vel með. Hann sótti sér fróðleik í útvarpsþætti á Rás 1 og hlustaði á sjónvarp. Hann fór til Arizona í Bandaríkjunum ásamt fleiri og lifðu minningarnar úr þeirri ferð með honum lengi.

Í bókinni Ljóðstafakransi er að finna ljóðið Skref fyrir skref. Það er fallegt ljóð sem býður upp á marga túlkunarmöguleika:

Skref fyrir skref,
þú skilur við myrkrið,
fetar fram á veg,
þó farir hægt.

Skref fyrir skref,
þér skilar áfram,
í átt til ástar,
upphafsins nýja.

Skref fyrir skref,
skundar brátt hraðar,
í myrkri ei meir,
til móts við ljósið.

Nú ertu farinn, Magnús minn, úr myrkrinu og í ljósið. Ég votta aðstandendum samúð mína og Magnúsi vil ég þakka fyrir ánægjulegar samverustundir og andríkar samræður á liðnum árum. Þín verður sárt saknað. Við sjáumst síðar.

Stefán Sigurðsson

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00