Kristmundur Stefánsson – lífshlaupið
Kristmundur Stefánsson fæddist á Akureyri 18. ágúst 1966 og lést á Akureyri 29. mars 2023.
Foreldrar Kristmundar eru Stefán Jónas Guðmundsson f. 10. mars 1945, d. 27. mars 2018, og Vilborg Guðrún Friðriksdóttir, f. 4. október 1946. Systkini Kristmundar eru Hanna Kristín f. 29. júní 1968, Sigurlín Guðrún f. 23. júní 1969, Stefán Friðrik f. 22. desember 1977 og Thelma Rut (samfeðra) f. 11. september 1989. Eiginmaður Vilborgar er Ásmundur Kjartansson, f. 14. nóv. 1935.
Stjúpbörn Kristmundar eru Berglind Ása, f. 28. apríl 1983, Friðrik Árni f. 12. nóv. 1985, Hörður Már f. 2. sept. 1988 og Sigríður Ásta f. 4. apríl 1991. Afabörnin eru: Fríða Björk, Karen Mist, Arna Lísbet, Bergur Elías, Hafþór Friðrik og Ásrún Áróra.
Kristmundur bjó fyrstu árin með foreldrum sínum í Ási og í Sunnuhvoli á Eskifirði en fjölskyldan fluttist til Akureyrar árið 1974. Ungur fór Kristmundur að vinna með stjúpafa sínum Antoni Kristjánssyni í Véla- og Raftækjasölunni og varð mjög hændur að hestamennsku sem varð hans stærsta áhugamál.
Að loknu skyldunámi hélt Kristmundur á sjóinn, fyrst á Kaldbak með föður sínum en var svo nær samfellt í sjómennsku í áratug á ýmsum togurum auk þess að sinna um stund keyrslu bæði vöru- og leigubíla og vinnu á Uppanum. Á þessum árum hélt hann heimili með Línu móðurömmu sinni, Línu systur sinni og fjölskyldu hennar á Akureyri.
Kristmundur söðlaði um vorið 1991 þegar hann fluttist í Skriðuland, hóf búskap og sambúð með Halldóru Friðriksdóttur sem stóð í tæp 20 ár og gekk fjórum börnum hennar í föðurstað. Hann naut sín vel í bústörfunum enda einnig iðinn og atorkusamur í hrossaræktun. Þegar rólegt var í bústörfunum vann Kristmundur samhliða í vörubílaakstri hjá Jarðverk á Dalvík.
2010 flutti Kristmundur aftur til Akureyrar - var leigubílstjóri á BSO í rúman áratug og keyrði á A-31 eftir að hann fékk stöðuleyfi. Einnig kom hann víða við; var húsvörður á gistiheimilinu Gulu villunni, vann með aldavinum sínum Helgu og Guðmundi á Bautanum og í hestastússi og hjá Líflandi jafnt í verslun og við akstur á fóðurvörum til bænda allt til æviloka.
Síðustu árin var Kristmundur í sambúð með Aiju Burdikova, f. 22. nóv. 1989. Kristmundur var vinnusamur og fylginn sér í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, sannur vinur vina sinna og úrræðagóður fyrir þá sem honum þótti vænt um. Kristmundur naut þess að ferðast til vina sinna, evrópskra skiptinema sem hann kynntist á Gulu villunni og tók sérstöku ástfóstri við Ítalíu - hafði mikla ástríðu fyrir ítalskri matar- og mannlífsmenningu.
Jarðarför Kristmundar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 12. apríl kl. 13:00.