Fara í efni
Minningargreinar

Kristmundur Stefánsson

Að morgni 29. mars. s.l fékk ég vonda frétt, Krissi kvaddi í morgun.

Og þótt vissulega hafi þessi frétt ekki komið á óvart var hún vond, hún var sár. Maður sem átti svo margt eftir og já, átti þrátt fyrir allt svo margt að lifa fyrir.

Kristmundur Stefánsson lést þann 29. mars eftir snarpa baráttu við krabbamein.

Já, þetta var vont að heyra. Það er alltaf vont þegar samtímamenn manns og já, félagar falla frá og þegar aldurinn er nú ekki hærri en raun ber vitni í tilfelli Kristmundar, þá kallar það fram spurningar um tilganginn og í huga mér komu einmitt þær vangaveltur, hversvegna er maður á besta aldri kallaður af velli, á meðan kannski aðrir miklu eldri og sáttari við lífið en farið að halla helgum degi hjá lifa. Við þessum spurningum hafa aldrei fengist svör og því verður maður hvort sem manni líkar það betur eða verr að sættast við orðin hlut.

Kristmund Stefánsson er ég búin að þekkja frá því að hann var sennilega 10 til 12 ára gamall og allar götur síðan höfum við vitað hvorir af öðrum, stundum leið langur tími milli þess sem við töluðum saman, en eins líka hitt að hér fyrrum unnum við stundum nokkuð mikið saman að undirbúningi mótahalds okkar hestamanna.

Sérstaklega er mér minnisstæð aðkoma Kristmundar að hinu svokallaða Stjörnutölti sem við hestamenn hér í bæ héldum í Skautahöllinni.

Þar var okkar maður í essinu sínu, og ég segi það hiklaust og með fullu sanni að þar kunni Kristmundur sitt fag, og hann lagði gríðarlegan metnað í verðlaunin á mótunum, og ég segi að Kristmundur færði verðlaun á Stjörnutölti upp á hærra og æðra plan en hér þekktist og saga Stjörnutölts Léttis verður ekki skrifað án þess að Kristmundar verði þar sérstaklega getið.

Einnig áttum við Kristmundur gott samstarf er hann sá um uppeldi ungra graðfola fyrir mig og um það uppeldi sá hann listavel.

Kristmundur átti nokkuð af hrossum um dagana, en vildi miklu frekar að aðrir nytu þeirra og var gjarn á að gefa jafnvel frá sér efnileg ung hross og naut hann þess að sjá þau vaxa og gera góða hluti á keppnisbrautinni hjá nýjum eigendum sínum. Það var nóg fyrir hann að skapa hrossin, og leyfa svo öðrum að njóta, það var hans fylling í hestamennskunni.

Kristmundur var eiginlega ekki félagsmálamaður, en samt, jú, og þó eða. Nákvæmlega svona hugsa ég um Kristmund þegar ég nú að kvöldi dags minnist látins félaga.

Kristmundur ætlaði að verða sjómaður og stundaði sjómennsku um hríð en síðan og allt fram til þess að heilsan tók af honum völdin starfaði hann sem leigubílstjóri.

Eitt af hlutverkum leigubílstjóra var að keyra aldrað fólk að og frá dagvistun á elliheimilum og ég veit að margir eldri borgarar sem nutu keyrslu Kristmundar þakka honum góðvildina, hjálpsemina og gæskuna sem hann sýndi öldruðum borgurum þessa bæjar. Tendamóðir mín var ein af þeim er naut þessa vinarþels bílstjórans Kristmundar og þakkar hún Kristmundi hlýjum huga alla túrana frá elliheimilinu að og frá og heim í Mýrarveginn.

Það hefur komið í ljós nú síðustu daga hve Kristmundur átti marga að sem nú sjá á bak honum, sem syni, bróður, fósturföður og fósturafa og minnast hans með miklu þakklæti og hlýju. Hann átti stað í hjörtum marga er nú sakna og syrgja.

Kristmundur átti marga kunningja, en ég er ekki viss um að vinirnir hafi verið svo margir, en þeir sem töldust vinir hans voru sannir.

Lífið er stundum ósanngjarnt og andlát Kristmundar Stefánssonar er og verður ósanngjarnt.

Hann vissi að hann gekk með alvarlegan sjúkdóm, en aldrei heyrði ég hann kvarta. Sagðist stundum reyndar hafa það skítt þegar veikindin herjuðu af miklum þunga, en sagði jafnframt að þetta stæði allt til bóta og væri allt á uppleið.

Ég vil þakka Kristmundi Stefanssyni (Munda) samtímasporin okkar saman og vil leyfa mér að trúa að handan heilaga hliðsins sem Kristmundur hefur nú gengið í gegnum sé fallegt ljós sem lýsa mun í sporum hans um alla eilífð.

Ég votta öllum ástvinum Kristmundar Stefánssonar nær og fjær mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Kristmundar Stefánssonar.

Sigfús Ólafur Helgason

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00