Kristinn Páll Einarsson
Elskulegi faðir minn. Í dag kveð ég þig, í dag göngum við síðasta spölinn saman.
Þú háðir erfiða og stranga baráttu við illvígan sjúkdóm sem tók sinn toll. Þrátt fyrir veikindi þín tókstu aðstæðum af miklu æðruleysi, jákvæðni, kurteisi og varst alltaf með húmorinn nálægt. Undir lokin breyttir þú ekki út af vananum heldur hélst áfram að segja sögur og komst okkur systkinum og mömmu ansi oft til að hlæja þrátt fyrir að sjúkdómurinn þinn væri búin að ná yfirhöndinni. Þú vildir alls ekki að ég hefði áhyggjur af þér allt fram á síðasta dag enda kvartaðir þú aldrei, það lýsir persónu þinni best. Þú varst alltaf hraustur og hress á líkama og sál, hjólaðir um allan Akureyrarbæ þrátt fyrir veikindi þín. Þú elskaðir mest að ferðast til heitari landa, hitta börnin þín, barnabörn og tengdabörn fyrir sunnan á leið ykkar mömmu til útlanda. Þannig leið þér best. Orðheppinn varstu með eindæmum og áttum við það sameiginlegt að sjá spaugilegu hliðarnar á málum, alltaf stutt í grín og glens. Þú varst ekki mikið fyrir vesen og óþarfa fyrirhöfn og einföldu hlutirnir voru yfirleitt valdir í stað þeirra flóknu. Þú hafðir mikinn áhuga á öllu því sem við systkinin vorum að fást við, hringdir oft í okkur spurðir og vildir fá að vita hvað væri næst.
Eitt af því sem mér er efst í huga og mun sakna mikið elsku pabbi minn eru símtölin okkar sem við áttum á leið minni til vinnu vestur um haf. Þú hafðir mikinn áhuga á öllu sem tengdist vinnunni minni og vissir alltaf upp á hár hvar ég var stödd í heiminum. Þú varst bestur í að samgleðjast með mér og öðrum, varst góður hlustandi og hvattir mig alltaf áfram.
Bráðgáfaður og góður faðir og afi sem skilur eftir sig stórt skarð hjá fjölskyldunni allri.
Sorgin er mikil og söknuðurinn sár en lífið heldur áfram hjá okkur og ég veit að þú vildir að við lifðum því til fulls og það ætlum við svo sannarlega að gera. Við munum ávallt geyma minningarnar um þig í hjörtum okkar elsku besti pabbi minn. Hvíl í friði.
Þín pabbastelpa,
Sigríður Ósk Kristinsdóttir