Fara í efni
Minningargreinar

Karólína Margrét Másdóttir

Í dag kveðjum við kæra mágkonu og svilkonu, Karólínu Margréti Másdóttur, sem var þó alltaf betur þekkt sem Kæja meðal vina og samferðafólks, og Lína í foreldrahúsum. Ævistarf Kæju var grunnskólakennsla og þeir eru ófáir nemendurnir sem nutu góðrar leiðsagnar hennar í stærðfræði í fjölmörg ár. Kennslustundir þar sem smitandi áhugi og sanngirni voru höfð að leiðarljósi lifa með þeim nú og munu gera áfram.

Allir sem til þekktu vissu fyrir víst að þegar hratt tiplandi fótatak heyrðist í fjarlægð, þá myndi hin lágvaxna, ljóshærða Kæja birtast innan skamms. Í tréklossum, sem voru hennar einkennismerki, gat þessi fínlega kona farið á ógnarhraða um ganga og stofur, sali og herbergi án þess að blása úr nös. Við hin þurftum að hafa okkur öll við til að halda í við hana, hvort heldur sem var innan dyra eða utan. Þegar komið var í Hólsgerði til Stebba og Kæju voru gestir vart sestir niður þegar Kæja var farin að ganga um stofuna og fylla borðið af alls kyns veitingum. Þá skipti litlu hvort um afmælisboð, áramótagleði eða stutt innlit var að ræða, Kæju þurfti helst að stöðva á ferðum hennar milli stofu og eldhúss áður en borðið svignaði undan kræsingum.

Kæja var Reykjavíkurmær sem ólst upp í Laugarneshverfinu og fyrstu sambúðarárin bjuggu þau Stebbi við Hringbrautina í Reykjavík. Hún var því öllum hnútum kunnug í borginni þegar yngsti bróðir Stebba, þá ungur að árum, kom suður í helgarferð í þeim erindagjörðum að slá í gegn á tónlistarsviðinu. Unga parið skaut yfir hann skjólshúsi en fljótlega kom í ljós að unglingspiltinum fannst hann ekki geta stigið á svið nema með hárgreiðslu sem hæfði upprennandi tónlistarmanni. Hin úrræðagóða Kæja var ekki lengi að finna lausn á því og sendir popparann til færasta hárgreiðslumanns Reykjavíkur. Norðanpiltinum tókst þó ekki betur upp en svo að hann fór húsavillt og var klippur af allt öðrum aðila. Útkoman var því mikil vonbrigði, hárgreiðslan hræðileg og hann kemur til baka í öngum sínum. Kæja talaði þá kjark í unga manninn sem hélt aftur af stað og gerði nýja tilraun til að móta ímynd sína. Í þetta sinn rataði hann inn um réttar dyr og kom til baka með útlitið sem til þurfti. Það má því þakka staðfestu Kæju að viðskiptasamband sem varði í fjölmjörg ár milli unglingsins og besta klipparans í Reykjavík varð að veruleika.

Eftir að Kæja og Stebbi fluttu frá Reykjavík bjuggu þau í nokkur ár á Eiðum áður en þau settust að á Akureyri. Að sjálfsögðu leið ekki á löngu áður Kæja var orðinn mikill stuðningsmaður handboltaliða KA, eins og allur hennar drengjahópur og tengdafjölskylda. Mörg okkar sáu algerlega nýja hlið á henni þegar hún tók að mæta á völlinn, hrópandi hvatningarorð úr stúkunni, mjög kappsfull og svo einbeitt að eftir var tekið. Það hefði þó kannski ekki átt að koma neinum á óvart vegna þessa að Kæja var mikil baráttukona.

Við sem þetta skrifum sitjum nú og söknum. Við söknum konu sem vildi réttlátt samfélag og jöfnuð, konu sem hafði dillandi hlátur og skemmtilega kímnigáfu allt þar til yfir lauk. Við söknum konu sem mætti vágesti alltof ung en barðist af mikilli seiglu í ótrúlegan langan tíma en bar það aldrei á torg. Við söknum konu sem gat tekið skjótar ákvarðanir, líkt og þá að fara með örskömmum fyrirvara til Nice þar sem ferðalangar lentu í hremmingum sem líða þeim aldrei úr minni. Og við söknum konu með hlýjar hendur sem fannst smart að vera Parísaradama.

Elsku Stebbi, Baldur Már, Andri Snær, Kristín Hanna og Ágúst, við sendum ykkur og ömmu- og afastrákunum þremur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill en minning um sterka, einstaka konu mun ávallt lifa í brjóstum okkar allra.

Hvíl í friði elsku Kæja,

Eiríkur og Friðrika

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00