Fara í efni
Minningargreinar

Karólína Margrét Másdóttir

Karólína systir mín var sú sem hélt sundurleitum systkinahópi okkar saman. Hún vissi líka alltaf hvernig ástatt var hjá hverju okkar systkinanna. Ég þekki það best hjá mér sjálfum.

Sumarið 1971 var ég í línuflokki sem var að tengja raflínuna milli Varmahlíðar og Akureyrar. Svo vildi til að ég fékk áltrissu í höfuðið ofan úr staur, og var farið með mig á sjúkrahúsið á Sauðárkróki og sárið rimpað saman. Ég lá í flokksbúðunum og var óvinnufær vegna stirðleika í hálsi. Ég hef grun um að ráðskonan í búðunum okkar hafi haft símasamband við systur mína, sem var í vinnu á bæ skammt frá Varmahlíð – allavega var mér keyrt til hennar. Henni blöskraði útgangurinn á hausnum á mér þegar hún sá blóðkleprana um allt hárið, og fannst að það hefði nú mátt snyrta umhverfið í kringum sárið. Hún dró mig í höfuðsnyrtingu, sem tók þó nokkurn tíma – en útgangurinn varð allur annar eftir meðferðina.

Nokkrum árum seinna var ég að vinna í frystihúsinu Jökli á Raufarhöfn. Þá var Kæja þannig stödd, hvernig sem á því stóð, að það hentaði henni að koma við á Raufarhöfn, þótt það hafi nú yfirleitt ekki þótt vera í alfaraleið. Ef ég man rétt, sem er nú ekki alltaf, var hún þar í vinnu í einhvern tíma, nægilega lengi til að hitta flesta ættingja okkar á staðnum, sem voru þó nokkrir. Það færði mig nær flestum bæjarbúum, þótt reyndar væru flestir þeirra búnir að uppgötva að ég væri ýmsum skyldur. Það gerði mér lífið vissulega auðveldara að vera náinn mörgum á staðnum.

Á þeim tíma þegar við Gréta bjuggum í Breiðholtinu kom Kæja í heimsókn til okkar. Hún var þekkt fyrir að ganga rösklega, hvert sem gengið var, og reyndar líka hvernig sem veðrið var. Það viðraði sæmilega, svo ég fór með henni í Elliðaárdalinn, sem var spölkorn frá Staðarbakkanum, þar sem við bjuggum. Milli hólma í ánni eru litlar brýr, og hægt að velja sér ýmsar leiðir. Þegar við komum að ánni gengum við upp gilið meðfram henni, upp að stíflunni. Ef ég man rétt þá fórum við að minnsta kosti tvisvar yfir ána, yfir stífluna við vatnið og síðan yfir einhverjar minni brýr á leiðinni, bæði upp og niður. Ég hafði gengið þetta á svipaðan hátt nokkrum sinnum áður, en leyfði henni að ráða ferðinni, enda fór best á því að ég elti hana. Þegar við komum heim úr göngutúrnum sá ég að við höfðum verið nokkurn veginn helmingi styttri tíma að fara þessa leið en þegar ég gekk sömu leið með öðrum.

Það má segja að systkinahópur okkar hafi misst sinn samnefnara þegar Karólínu systur okkar nýtur ekki við. Hún var sú sem hélt hópnum saman. Og fjölskyldan í Hólsgerði 7 hefur misst mikið þegar hennar nýtur ekki við lengur.

Ársæll Másson

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00