Fara í efni
Minningargreinar

Karólína Margrét Másdóttir

Okkur langar í nokkrum orðum að minnast Kæju, góðrar vinkonu og lespíu. Það sem leiddi okkur saman var stofnun lesklúbbs innan starfshóps Lundarskóla á Akureyri þar sem valinn hópur úr mismunandi störfum innan skólans myndaði lesklúbb haustið 2007. Síðan þá höfum við verið duglegar að hittast, lesa og ræða bækur, fara út að borða og í helgaferðir í Ólafsfjörð. Fyrst og fremst snerist þetta um skemmtilega samveru og oftast var Kæja hrókur alls fagnaðar með skemmtilega sýn á bækurnar sem hún hafði lesið eða ástæðurnar fyrir því að hún kaus að lesa þær ekki. Hún hafði sterkar skoðanir á því hvernig bækur hún vildi lesa og var fljót með þær.

Engin hætta var á að einhver okkar færi svöng úr klúbb hjá Kæju, hún var gestrisin og örlát. Hún hafði ákveðnar skoðanir á hvernig hún forgangsraðaði sínum tíma. Tveir fjölskyldudagar vikunnar þar sem hún fékk fólkið sitt í mat og handboltaleikir með KA eða KA/Þór höfðu algeran forgang í hennar lífi. Fyrir utan þá viðburði lét hún sig aldrei vanta í klúbb. Hún kom alltaf gangandi, tindilfætt, og þáði sjaldan far heim þótt komið væri langt fram á kvöld.

Margar skemmtilegar helgar áttum við með Kæju í Ólafsfirði en þangað fórum við reglulega í mörg ár, blönduðum mojhito, elduðum góðan mat, ræddum bókmenntir, fengum okkur góðan göngutúr eða þá að við keyrðum til Siglufjarðar til að fá okkur hressingu.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar við minnumst Kæju okkar. Hún ræddi veikindin aldrei að fyrra bragði og eyddi oftast talinu þegar hún var spurð um líðan sína eða heilsu. Umhyggja fyrir öðrum einkenndi Kæju, það skipti hana meira máli hvernig aðrir höfðu það, hvort sem það vorum við og fjölskyldur okkar eða aðrir samborgarar hennar. Hún var skoðanarík og mjög pólitísk, var vel að sér um þjóðfélagsleg og skólatengd málefni og með ríka réttlætiskennd sem oftar en ekki skein í gegnum hennar málflutning af högum fólks og hvað mætti betur fara í okkar samfélagi.

Hún lét sjúkdóminn ekki hafa áhrif á líf sitt, hélt sínu striki, var dugleg að fara út að ganga og gekk hratt. Hún hugsaði vel um fólkið sitt og var stolt af strákunum sínum og þeirra fólki.

Elsku Kæja okkar, hvað við eigum eftir að sakna þín, glettninnar, hlýjunnar og skemmtilegs álits þíns á lesefni sem varð fyrir valinu hjá lespíunum þínum. Við sjáumst í Sumarlandinu og þá ræðum við bækur og miklu fleira.

Elsku Stefán, Baldur Már, Andri Snær, Ágúst, systkini og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra vegna fráfalls Kæju.

Lespíurnar

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00