Fara í efni
Minningargreinar

Kári Árnason

Elsku pabbi. Kveðjustundin er komin og söknuðurinn mikill. Þú kvaddir rétt fyrir miðnætti þann 2. júlí. Við vorum með þér á Hlíð, EM í gangi og KA sigraði Val í undanúrslitum bikarkeppninnar þennan dag. Á heimleið um nóttina upplifðum við mæðgur appelsínugulan himinn og fjallahringurinn þinn í Eyjafirði var baðaður í ógleymanlegri birtu.

Þrátt fyrir veikindi þín elsku pabbi náðir þú á ótrúlegan hátt að sækja í grínið. Það hefur örugglega verið gert fyrir okkur fjölskylduna. Þegar sjúkraliði kom og sagðist þurfa að mæla þig, þá svaraðir þú að þess þyrfti ekki, þú hefðir ekkert stækkað, værir enn 170 cm.

Það er svo ótal margt sem kemur upp í hugann og ekki hægt að tíunda hér nema brotabrot. Þú og mamma hafið verið saman í 65 ár. Fyrsti kossinn ykkar var þegar þið voruð 14 ára í íþróttaferðalagi, þú í fótbolta og hún í handbolta. Saman hafið þið stigið dansinn og bara mánuði fyrir andlát þitt bauðstu mömmu upp í dans á Hlíð.

Við systur erum svo innilega þakklátar fyrir ljúfa og örugga æsku. Við minnumst þess með gleði í hjarta hversu góður pabbi, afi og tengdapabbi þú varst. Við höfum alltaf verið svo stoltar af myndarlega og klára pabba okkar.

Þið mamma heimsóttuð okkur systur, hvar sem við bjuggum innanlands eða erlendis. Þá var gjarnan tekið til hendinni og auðvitað gert margt skemmtilegt saman. Við systur erum allar búnar að að vera búsettar á Akureyri síðasta áratuginn og höfum haft yndi af félagsskap ykkar mömmu. Nú var komið að okkur að vera til staðar fyrir ykkur.

Árið 1961 þegar þú varst 17 ára fékkstu einlægt bréf frá Þórólfi Beck, sem þá stundaði atvinnumennsku hjá St. Mirren í Skotlandi. Þar biður hann þig að íhuga að koma aftur til Skotlands og hefja atvinnumennsku. En nei, þú varst búinn að skrá þig í íþróttakennaraskólann og varst kominn með kærustu, hana mömmu.

Á þínum yngri árum kepptir þú í frjálsum, fimleikum, fótbolta, badminton og tennis en í viðtali við íþróttablaðið árið 1983 er haft eftir þér, „Það er ekkert skemmtilegra en að vera á skíðum í góðu veðri.“

Þú hafðir yndi af því að skrifa og varst með einstaklega fallega rithönd. Þú skrifaðir dagbækur um áraraðir og alltaf þegar þið mamma fóruð í ferðalag. Eftir keppnisferil í fótbolta tók við fjallamennskan, sem var þín líkamsrækt á seinni árum. Þú skrásettir alla þessa leiðangra þannig að segja má að Word forritið hafi verið þitt Strava. Ferðirnar á Súlur voru skráðar í sérstakt skjal og með aðstoð Konna vinar þíns þá náðir þú að fletta upp í gömlum gestabókum á Amtsbókasafninu og skrá þær allar, 270 ferðir frá 1961 til 2013.

Það virðist vera okkur systrum í blóð borið að líta til fjalla þegar við vöknum á morgnana. Ef veður er gott þá viljum við hvergi annarsstaðar vera en á gangi úti í móa.

Í framtíðinni eigum við systur vonandi eftir að ganga um fjöll og firnindi og í hjörtum okkar verður þú með í för. Ganga rólega og taka stutt skref þegar á brattan er að sækja, eins og þú kenndir okkur.

Þínar dætur,

Elva, Kata og Erna

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00