Kara Guðrún Melstað
Elsku Kara, hvernig eigum við að kveðja þig, ætluðum ekki að þurfa að gera það strax, en stundum rennur tíminn bara út. Við töldum okkur hafa nógan tíma til að fara að ferðast saman, gera skemmtilega hluti, leika okkur og njóta. Hittingurinn okkar í Wendgräben, í tilefni afmælis ykkar Alla, var yndislegur og ógleymanlegir dagar, mikið spjallað, hlegið, gantast og rifjaðar upp sögur frá uppvaxtarárum okkar í Bjarmastígnum. Við systkinin unnum í systkinalottóinu þegar við fæddumst, við höfum alltaf verið svo ánægð hvert með annað, passað upp á hvert annað og notið þess að vera saman þegar við höfum getað. Stundum liðið langur tími á milli hittinga vegna búsetu en það hefur aldrei skipt máli, alltaf eins og við höfum verið saman í gær. Þú varst alltaf kletturinn, elst og tókst strax ábyrgð á okkur þegar veikindi mömmu komu upp. Hélst okkur við verkefnin og studdir okkur sama hvað var. Okkur fannst þú samt stundum aðeins of stjórnsöm þegar þú komst heim í frí úr kennaranáminu og lést okkur fara að þrífa heimilið. Við gátum ekki séð að það væri ekki allt í lagi þó gólfin væru ekki nýskúruð, leirtauið glansaði ekki eins og nýtt og ekki alltaf búið um rúmin. En í dag vitum við að þetta var bara væntumþykja og ást. Það er svo yndislegt að hugsa til þess hvað þú hefur verið okkur mikilvæg, þó þú hafir búið mikið erlendis þá varst það samt alltaf þú sem maður leitaði til með allt og ekkert, úrræðagóð, glöð og lausnamiðuð, aldrei nein vandamál bara verkefni. Alltaf tilbúin að leyfa krökkunum að koma í heimsókn til Þýskalands svo þau gætu verið með frændsystkinum sínum, styrkt tengslin, sem eru svo sterk og góð í dag. Stundir sem þau munu aldrei gleyma, stundir sem þú bjóst til með þeim og þú sem hefur alltaf verið þeim svo kær.
Tómarúmið sem situr eftir er sárt og erfitt að sætta sig við, en tíminn á eftir að deyfa sársaukann og gera hlutina bærilegri, en tilhugsunin um að fá ekki símtal, geta ekki hringt, fengið heimsókn eða heimsótt þig er svo erfið. Minningarnar eru margar og yndislegar og þær munu lifa með okkur og ylja, þín er og verður sárt saknað.
Elsku Alli, Elfar, Aðalheiður, Andri Grétar og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur og megi góðar minningar um fallega konu hjálpa ykkur á erfiðum tímum og lifa með ykkur.
Svefninn þinn langi
Hvert sem ég fer,
hvað sem ég geri,
í lífi sem dauða,
mun mynd af þér endurspeglast
í augum mér.
Gylltur rammi.
Og bros þitt
og hjarta gert úr demanti.
Og birtan sem umlykur þig
færir mér yl.
Allt þetta mun ég varðveita djúpt í huga mér, og minningin um hlátur þinn og gleðina sem þú færðir mér mun fylgja mér hvar sem ég er, hvert sem ég fer
inn í eilífðina
(Höf. Dimma)
Elsku sis, hvíldu í friði og megi allar góðar vættir umlykja þig.
Margrét (Magga), Vala og Sæmundur (Sammi).