Fara í efni
Minningargreinar

Kara Guðrún Melstað

Minningarorð um Köru tengdamóður mína.

Fyrir tæpum tólf árum kynntist ég Köru þegar leiðir okkar Elfars lágu saman. Ekki gerði ég mér grein fyrir því þá hvað það var mikil lífsins lukka. Við vorum ákveðnar báðar tvær og nokkuð ljóst að við þyrftum að stilla saman okkar strengi, en eftir það var ekki aftur snúið. Samband þeirra mæðgina var einstakt og náið þrátt fyrir fjarlægð milli tveggja landa og það var mér ráðgáta í fyrstu hvernig ég ætti eða gæti staðið mig eins vel og þessi ótrúlega kona, því Kara var engin venjuleg kona. Hún skipulagði, framkvæmdi, skipti oft um skoðun en á endanum lét hún verkin tala, hvort sem það voru framkvæmdir á heimilinu, vera ofuramma eða skipuleggja ferðalög og flutninga innan fjölskyldunnar.

Kara gekk undir nafninu Drekinn í fjölskyldunni og hún kallaði sig sjálf Drekann í daglegu tali. Það gustaði af henni þegar hún mætti á svæðið og tók til hendinni, hún sá um allt, gekk í allt, sama hvað og hún hafði ráð undir rifi hverju. Kara hafði mikinn áhuga á saumaskap og þar naut hún sín í að finna upp og búa til allt milli himins og jarðar. Það var henni því mikið hjartans mál að tengdadóttirin eignaðist saumavél og linnti hún ekki látunum fyrr en vélin var komin í hús. Hún tók mig oft í kennslu í hinu og þessu, pússa almennilega skó, þrífa viftuna eða skipta um síur og við gerðum grín að okkur og hlógum þegar hún, Drekinn, sagðist vera að þjálfa Litla-Dreka. Hún kenndi mér ótalmargt sem er mér dýrmætt í dag.

Það voru alltaf miklar gleðistundir barnanna okkar þegar amma Kara og Alli afi komu til landsins eða þau fóru út til þeirra. Þar voru samverustundirnar nýttar vel, farið í skógarferðir, dýragarða, verslunarferðir, handboltaleiki og hin ýmsu ævintýri skipulögð og það er engin betri en amma Kara að segja sögur fyrir svefninn, helst um dreka og risaeðlur. Þetta voru góðir tímar fyrir okkur öll sem við erum svo þakklát fyrir í dag.

Vorið var komið og við vissum að veikindi Köru höfðu tekið yfirhöndina. Það var erfitt en á sama tíma gott að fara öll út til Þýskalands og dvelja hjá henni síðustu vikurnar. Þar fengu börnin mín tækifæri til að eiga með henni stundir og ég trúi því að hún hafi notið þess að heyra húsið sitt fyllast af lífi og leik, í bland við fuglasöng og sólargeisla sem teygðu sig inn til hennar.

Það er komið að kveðjustund, við fjölskyldan stöndum þétt saman og höldum minningu þinni á lofti um ókomna tíð eins og þú myndir vilja.

Þín,

Andrea Eiðsdóttir.

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01