Jón Laxdal Halldórsson
Þegar ég byrjaði í Barnaskóla Akureyrar var ég nemandi barnakennarans og síðar bæjarlistamannsins Þorvaldar Þorsteinssonar. Hinum núllbekknum kenndi annar bæjarlistamaður, Jón Laxdal Halldórsson en honum kynntist ég aldrei sem smábarnakennara. Sennilega muna allir nemendur skólans samt eftir honum því hann gekk um á gulum gúmmístígvélum. Þetta vakti athygli og umtal barnanna og jafnvel hneykslan enda flest af góðum heimilum. Á þessum tíma gekk fullorðið fólk í Iðunnarskóm frá Sambandinu og Akureyri ekki orðinn sá menningar- og tízkubær sem hann er í dag með sína ítölsku skó og listagil. Samtímabörn eiga sjálfsagt erfitt með að ímynda sér að gul stígvél geti haft svona mikið að segja því heimurinn í dag er fullur af körlum í konufötum og konum í smábarnafötum á Instagram svo ekki sé minnst á Crock-skó í öllum regnbogans litum í raunheimum. En á þessum tíma var þetta einstakt og hefur sennilega haft meiri áhrif en margan grunar og er til merkis um hvað Jón Laxdal var flinkur pedagóg og fagurkeri því auðvitað var Barnaskóli Akureyrar gulmálaður. Seinna tóku sum barnanna upp á því að heimsækja Rauða húsið þar sem boðið var upp á samtímalist og rokk-tónlist í risinu og þannig tók Jón áfram þátt í að bjarga lífi barnanna.
Þegar ég hóf nám við Myndlistarskóla Akureyrar var Jón Laxdal þar kennari. Þetta var mjög góður skóli en að sumu leyti íhaldssamur og var Jón Laxdal nauðsynlegt mótvægi enda framsækinn og gagnrýninn. Eftir skóla var ekki farið heim og horft á sjónvarpið því það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum, heldur haldið áfram að auðga andann með hvers kyns ljóðum og var Jón hvatamaður að útgáfu bókarinnar Rifbein sem Ólund gaf út með skrifum ungra höfunda. Jón Laxdal og Kristján Pétur prentuðu bókina ef ég man rétt í gamla barnaskólanum (ekki þessum gula) þar sem þeir og fleiri listamenn voru með aðstöðu og prentvél. Fyrir ungt fólk sem var að hefja sína listabraut var ómetanlegt að kynnast alvörulistamönnum og rokkurum í húð og hár og fá að njóta kunnáttunnar sem þeir deildu af miklu örlæti.
En Jón var ekki bara góður kennari heldur var hann fyrst og fremst listamaður, meira að segja bæjarlistamaður Akureyrar árið 1993. Mér finnst reyndar Jón Laxdal hafa verið bæjarlistamaður Akureyrar í fjörutíu ár en það er gott að hann skyldi fá laun eitt árið. Ég myndi segja að hann hafi verið gangandi listaverk þar sem persónuleg fagurfræði, kímnigáfa og ákveðin uppreisn kristallaðist í gulum stígvélum.
Ásmundur Ásmundsson