Jón Laxdal Halldórsson
Ég vil með nokkrum orðum minnast Jóns Laxdals, eins af mínum uppáhaldslistamönnum. Ég man fyrst eftir honum í galleríinu hjá mömmu, Þóreyju Eyþórsdóttur, þar sem hann var með verk og muni til sölu og á ég enn eyrnalokkana og önnur verk eftir hann frá þessum tíma. Ég heillaðist strax af listaverkum Jóns sem veittu mér innblástur en ég nota sjálf texta í mínum verkum. Eftir að ég fór að vinna með gömul dagblöð og tímarit frá sveitinni þar sem amma mín og afi bjuggu varð innblásturinn enn greinilegri. Mér fannst mikill heiður þegar hann kom á sýningu mína sl. maí og ég varð hálffeimin við að sýna honum verkin mín, sem mörg hver eru undir áhrifum frá honum.
Jón var að mínu mati með merkilegri listamönnum þjóðarinnar, verk hans búa yfir næmni, húmor og skarpskyggni á sama tíma og þau eru falleg og vönduð. Framlag Jóns til íslenskrar myndlistar er veigamikið og dýrmætt. Það var einstakt að koma í Freyjulund, listaverk upp um alla veggi og gólf þar sem vinnustofa og heimili rann saman í hrífandi og andríkan heim. Það hryggir mig að kveðja hann, ég hefði gjarnan viljað kynnast honum betur en ég þekkti hann aðallega í gegnum listsköpun hans. Ég votta fjölskyldu og aðstandendum Jóns innilega samúð mína.
Þuríður Helga Kristjánsdóttir