Jón Laxdal Halldórsson
Við hittumst fyrst á teríunni á jarðhæð Hótels KEA. Hann hafði gefið út ljóðabókina Myrkur á hvítri örk og vildi selja mér. Flottur titill á ljóðabók hugsaði ég. Hann var sjálfur í hvítum loðfeldi með stingandi og einbeitt dimm augu hugsuðar. Ég hafði áður séð Jónsa á úrsmíðastofu föður síns innar í Hafnarstræti með stækkunareinglyrni rýnandi inn í smátt úrverkið en þekkti hann ekkert þá enda fimm árum eldri en ég. En þarna hófst samtal, samvinna og vinskapur sem stóð ansi lengi yfir. Ég var stífur gestur á heimilum hans, elskaði samtalið, fyrst í Tjarnarlundi, síðan í Kotárgerði, Glerá, Helgamagrastræti og síðast Freyjulundi. Seint á árinu 1980 fann Guðbrandur Siglaugsson vinur okkar hús niðri í Skipagötu sem stóð autt og hafði síðast verið kaffistofa hafnarverkamanna við Torfunesbryggju. Seint á árinu 1980 var ákveðið að taka það á leigu með hópi vina okkar og stofna menningarmiðstöð sem fékk nafnið Rauða húsið. Þar var gallerí, bókaútgáfa og bóksala. Þar voru haldnir heimspekifyrirlestrar, mest með kennurum og samnemendum Jónsa og Guðmundar Heiðars úr heimspekinni. Flestar sýningarnar voru með kennurum mínum og samnemendum úr nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans. Þar voru haldin ljóðakvöld og tónleikar. Æfingaaðstaða akureyrsku nýbylgjuhljómsveitarinnar Baraflokksins var á efri hæðinni. Þarna var gaman í tæp þrjú dýrmæt ár í þroska okkar. Á þessum tíma fór Jónsi að stunda myndlist og hélt sýna fyrstu sýningu í Rauða húsinu. Þar kynntist hann mörgum af bestu myndlistarmönnum þjóðarinnar og öðlaðist sjálfstraust, því að þeir sáu að hann var einn af þeim. Það er erfitt að leyna miklum hæfileikum – alla vega til lengdar. Tíu árum síðar kom einn frægasti og fíngerðasti myndlistarmaður heimsins á síðari hluta 20. aldar við á Akureyri. Hann hét Donald Judd og var sjúklega smámunasamur minimalisti. Hann stoppaði stutt en ég leiddi Donald eiginlega fyrir tilviljun inn á vinnustofu Jónsa sem þá var í kjallaraholu Listasafnsins í Grófargili – þessi heimsókn var ekki plönuð. Ég kynnti þá ekkert, sagði bara að þetta væru túristar en Donald var með kærustu sinni og dvöldu þau dágóða stund, skoðuðu og handléku verk hans. Ég spjallaði við Jón á meðan. Þau kvöddu hann með virktum og sögðu eitthvað sem ég heyrði ekki en þegar við gengum niður gilið sögðu þau einum rómi: „Þessi verk eru afar vel gerð!“ Ég hef oft hugsað að grunnur myndlistarhæfileika Jónsa hafi legið í margra ára skoðun á úrverki með einglyrnisstækkunargleri í uppeldinu. Nákvæmni hans og náttúruleg tilfinning fyrir myndbyggingu á þar rætur sínar. En Jónsi var auðvitað ekki bara í myndlist, hann var heimspekingur, ljóðskáld og tónlistarflytjandi í norðanpiltum og Bjössunum. Fyrir mig stendur myndlistin þó upp úr. Mér var verulega brugðið þegar ég frétti af andláti hans. Hann var stór þáttur í mínu lífi. Ég vil votta fjölskyldu hans mína dýpstu og innilegustu samúð. Við erum mörg sem söknum hans.
Guðmundur Oddur Magnússon