Jón Laxdal Halldórsson
Jónsa lá alltaf lágt rómur. Það var í samræmi við annað í því manneskjulega sigurverki sem hann var. Ég man ekki til þess að hann hafi skipt skapi þótt honum mislíkaði, og hann stóð fastur á sínu og gat verið innilega ósammála manni um margvísleg efni en það setti hann ekkert úr jafnvægi. Hann orðaði hugsun sína vandræðalaust, gat hæðst að vitleysunni sem stundum var borin fram, hló jafnvel rólega.
Ég kynntist Jóni lítið sem unglingur á Akureyri þótt við kepptum báðir á skíðum. Ég vissi af honum í menntaskóla en það var ekki fyrr en við vorum báðir komnir í Háskóla Íslands haustið 1972 að við urðum vinir, báðir að læra heimspeki á fyrsta ári. Þar vorum við saman í þrjú ár að læra til BA-prófs sem einn kennari okkar sagði að væri stytting á orðalaginu bölvaður asni. Hann kláraði B-ið og var bara bölvaður en ég asninn. Veturinn 1975-76 leigðum við, ásamt Oddu Margréti heitinni konu hans og Völu Dögg, dóttur þeirra, heilt einbýlishús á Akureyri og kenndum börnum og unglingum og lifðum vel og skemmtilega. Jón kenndi börnum í allmörg ár og byrjaði að þroska listahæfileika sína, orti ljóð og gaf út með frumlegum hætti, eitt kom út í dós eins og grænar baunir, byrjaði að vinna myndverk. Fáeinum árum síðar tókum við báðir þátt í að reka Rauða húsið, lítið timburhús við Skipagötuna, ásamt sex öðrum, sem listhús og það fyrsta sem boðið var upp á var eftirminnileg sýning Magnúsar Pálssonar. Það gekk á ýmsu við þann rekstur þótt ekki kostaði hann mikið fé. Þá var ég farinn að búa með Betu minni en hún og Jónsi voru vinir.
Jónsi vann lengst af ævinnar á geðdeild SAk. Við vorum samstarfsmenn þar eitt sumar. Vinnan hafði áhrif á hann og hann varð raunverulegur vinur sumra sjúklinganna. Í stórafmælum hjá honum gat maður átt von á að hitta óvenjulegt og sérstakt fólk.
Smám saman varð Jónsi sýnilegur sem myndlistamaður, sérhæfði sig í klippimyndum af öllum stærðum og gerðum og annars konar listaverkum sem voru óvenjuleg. Hann gerði til dæmis ræðupúlt sem alsett var blaðsíðum úr verkum heimspekingsins Immanuels Kants svo að eitt dæmi sé tekið. Hann náði smám saman mjög góðum tökum á list sinni, hún varð einföld, stílhrein, nákvæm og bar einkenni höfundar síns, kyrrðina, yfirlætisleysið og ígrundunina. Það mátti sjá ýmis verk Jónsa í Freyjulundi, þar sem hann bjó síðasta áratuginn eða svo með Aðalheiði, og jafnvel naglahrúga sem hann hafði raðað saman var einhvern veginn hans.
Jónsi var lifandi hluti þess listamannaumhverfis sem þróast hefur í Gilinu á Akureyri síðustu áratugina. Hann var meira að segja í tveimur hljómsveitum og söng og dansaði. Það gat verið nokkuð tilkomumikið en því miður þá missti ég of oft af þeim atburðum.
Það var með Jónsa eins og flesta aðra vini mína í lífinu að við áttum hlutdeild hvor í annars lífi en það þýddi ekki að við værum saman oft og reglulega heldur að við vissum hvor af öðrum og fylgdumst með. Við Beta sendum Aðalheiði, Brák, Völu Dögg og Arnari og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Guðmundur Heiðar Frímannsson