Fara í efni
Minningargreinar

Jón Laxdal Halldórsson

Jónsa lá alltaf lágt róm­ur. Það var í sam­ræmi við annað í því mann­eskju­lega sig­ur­verki sem hann var. Ég man ekki til þess að hann hafi skipt skapi þótt hon­um mis­líkaði, og hann stóð fast­ur á sínu og gat verið inni­lega ósam­mála manni um marg­vís­leg efni en það setti hann ekk­ert úr jafn­vægi. Hann orðaði hugs­un sína vand­ræðalaust, gat hæðst að vit­leys­unni sem stund­um var bor­in fram, hló jafn­vel ró­lega.

Ég kynnt­ist Jóni lítið sem ung­ling­ur á Ak­ur­eyri þótt við keppt­um báðir á skíðum. Ég vissi af hon­um í mennta­skóla en það var ekki fyrr en við vor­um báðir komn­ir í Há­skóla Íslands haustið 1972 að við urðum vin­ir, báðir að læra heim­speki á fyrsta ári. Þar vor­um við sam­an í þrjú ár að læra til BA-prófs sem einn kenn­ari okk­ar sagði að væri stytt­ing á orðalag­inu bölvaður asni. Hann kláraði B-ið og var bara bölvaður en ég asn­inn. Vet­ur­inn 1975-76 leigðum við, ásamt Oddu Mar­gréti heit­inni konu hans og Völu Dögg, dótt­ur þeirra, heilt ein­býl­is­hús á Ak­ur­eyri og kennd­um börn­um og ung­ling­um og lifðum vel og skemmti­lega. Jón kenndi börn­um í all­mörg ár og byrjaði að þroska lista­hæfi­leika sína, orti ljóð og gaf út með frum­leg­um hætti, eitt kom út í dós eins og græn­ar baun­ir, byrjaði að vinna mynd­verk. Fá­ein­um árum síðar tók­um við báðir þátt í að reka Rauða húsið, lítið timb­ur­hús við Skipa­göt­una, ásamt sex öðrum, sem list­hús og það fyrsta sem boðið var upp á var eft­ir­minni­leg sýn­ing Magnús­ar Páls­son­ar. Það gekk á ýmsu við þann rekst­ur þótt ekki kostaði hann mikið fé. Þá var ég far­inn að búa með Betu minni en hún og Jónsi voru vin­ir.

Jónsi vann lengst af æv­inn­ar á geðdeild SAk. Við vor­um sam­starfs­menn þar eitt sum­ar. Vinn­an hafði áhrif á hann og hann varð raun­veru­leg­ur vin­ur sumra sjúk­ling­anna. Í stóraf­mæl­um hjá hon­um gat maður átt von á að hitta óvenju­legt og sér­stakt fólk.

Smám sam­an varð Jónsi sýni­leg­ur sem mynd­listamaður, sér­hæfði sig í klippi­mynd­um af öll­um stærðum og gerðum og ann­ars kon­ar lista­verk­um sem voru óvenju­leg. Hann gerði til dæm­is ræðupúlt sem al­sett var blaðsíðum úr verk­um heim­spek­ings­ins Imm­anu­els Kants svo að eitt dæmi sé tekið. Hann náði smám sam­an mjög góðum tök­um á list sinni, hún varð ein­föld, stíl­hrein, ná­kvæm og bar ein­kenni höf­und­ar síns, kyrrðina, yf­ir­læt­is­leysið og ígrund­un­ina. Það mátti sjá ýmis verk Jónsa í Freyju­lundi, þar sem hann bjó síðasta ára­tug­inn eða svo með Aðal­heiði, og jafn­vel nagla­hrúga sem hann hafði raðað sam­an var ein­hvern veg­inn hans.

Jónsi var lif­andi hluti þess lista­mannaum­hverf­is sem þró­ast hef­ur í Gil­inu á Ak­ur­eyri síðustu ára­tug­ina. Hann var meira að segja í tveim­ur hljóm­sveit­um og söng og dansaði. Það gat verið nokkuð til­komu­mikið en því miður þá missti ég of oft af þeim at­b­urðum.

Það var með Jónsa eins og flesta aðra vini mína í líf­inu að við átt­um hlut­deild hvor í ann­ars lífi en það þýddi ekki að við vær­um sam­an oft og reglu­lega held­ur að við viss­um hvor af öðrum og fylgd­umst með. Við Beta send­um Aðal­heiði, Brák, Völu Dögg og Arn­ari og fjöl­skyld­um þeirra okk­ar inni­leg­ustu samúðarkveðjur.

Guðmund­ur Heiðar Frí­manns­son

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01