Jón Laxdal
Í gær var jarðsunginn frá Möðruvallakirkju vinur minn Jón Laxdal skáld og myndlistarmaður. Ég fylgdist með athöfninni úr fjarska en hún var ákaflega falleg og viðeigandi.
Leiðir okkar Jóns lágu fyrst saman í gegnum spúsur okkar – en Adda mín og Odda Margrét heitin voru miklar vinkonur og vinnufélagar. Odda vildi að við Jón yrðum vinir sem svo varð náttúrulega á endanum.
Nokkru síðar áttum við heilmikið saman að sælda í Listagilinu. Vorum báðir Gilrottur, ég um tíma formaður Gilfélagsins og hann iðjandi æ og sí á vinnustofunni sem hann hélt ásamt Kristjáni Pétri í kjallara Listasafnsins. Síðar flutti hann svo upp á aðra hæð í húsinu á vinnustofuna til Aðalheiðar Eysteins eða Öllu Siggu eins við segjum á Siglufirði. Á þeim árum mátti á ákveðnum tímum ganga að Jóni vísum á ásnum, borði nr. 1 hjá Vigni á Café Karólínu. Oftast skarpskyggn og alltaf gráglettinn.
Og svo áttum við sameiginlegan vin í Þorsteini Gylfasyni heimspekingi sem leiddi okkur saman endrum og sinnum. Stundum í Helgamagrastræti heima hjá Öllu og Jónsa, stundum heima hjá okkur Öddu og seinna í Freyjulundi. Einu sinni hittumst við þrír í Listamiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði fyrir tilstilli Öllu Siggu. Minnisstæður er laugardagsmorguninn þar sem hver undi við sitt og við þögðum saman við undirleik Rásar 1.
Jón hélt því fram við mig að engin væri hann heimspekingurinn þótt hann hafi numið hana eins og ég í Háskóla Íslands. Það var vitaskuld ekki rétt hjá honum og ég held að sundurgreinandi heimspekileg hugsun hans og agi birtist iðulega í myndum og ljóðum hans – fyrir utan allskyns pælingar og gagnrýni sem báru heimspekilegri hugsun vitni.
Með Jóni er genginn einn alflinkasti og merkasti listamaður sem við Akureyringar höfum átt – og í fremstu röð íslenskra myndlistarmanna þótt hann sjálfur væri hæglætið og hógværðin uppmáluð. Jón mátti heita sérfræðingur í að laða fram þá notalegu fró sem falist getur í formskynjun – sú tilfinning að allt falli á sinn rétta stað fái einhverskonar miðju í sjálfu sér. Um leið laumaði hann með spurningum, að einhverju óvæntu, illskiljanlegu og oft ósegjanlegu. Verkin eru fjöldamörg full af smáatriðum, nostri og þolinmæði sem erfitt getur verið að höndla. Og úr öllum þessum voðalegu smáatriðum verða glæsilegar heildir. Stundum eins og í úrverki.
Þegar Jón Laxdal var kjörinn bæjarlistamaður Akureyrar 1993 (og Þröstur Ásmundsson rifjaði upp síðar) vitnaði hann í orð Steins Steinarrs um að menn verði ekki skáld nema þeir komist í mikinn lífsháska og sagði að þau hefðu haldið fyrir sér vöku:
„Er hægt að yrkja á Akureyri, þessum kyrrláta bletti við spegilsléttan poll, sem líkist helst himnaríki í því að þar gerist aldrei neitt, nema þegar bankað er? Og iðulega er spurt, hvers vegna ferðu ekki burt og fleygir þér út í hringiðu listanna? Þá var ekki öðru til að dreifa en því að hér væri allt eins og það ætti að vera, hæfilegt tóm til að sinna sínu. En vitaskuld verður oss aldrei ljóst hvort í því fólst hetjudáð eða heigulsháttur að eiga hér heima. Nema það hafi verið eðlisávísun.“
Hetjudáð eða ekki – þá stöndum við sveitungar hans í þakkarskuld við Jón – framlag hans til menningarlífs á Akureyri er ómetanlegt. Takk.
Sjálfur vil ég þakka vináttu og lífsauðgun og votta Völu Dögg, Öllu, Brák, Þóreyju, Arnari og aðstandendum öllum innilega samúð mína.
Þórgnýr Dýrfjörð