Jón Geir Ágústsson
Ég finn núna þegar ég sest niður og ætla mér að skrifa nokkur minningarorð til þín elsku Jón að ég á erfitt með það, þetta gerðist allt svo hratt og tárin byrja að streyma niður kinnarnar. En um leið er ég svo þakklát fyrir hvað við fengum að njóta þess lengi að hafa þig hjá okkur og þakklát fyrir að þú gast búið heima í fallegu íbúðinni þinni í Víðilundinum því þig langaði ekkert sérstaklega að fara á hjúkrunarheimili. Það eru bara rétt rúm tvö ár síðan Heiða þín fór og nú ert þú farinn og allt eitthvað svo endanlegt.
Ég kom fyrst í Hamragerðið í ágúst 1994 og þið Heiða tókuð mér fagnandi frá fyrstu mínútu og leið mér alltaf vel á ykkar heimili, ég varð strax hluti af fjölskyldunni - ég tilheyrði. Heimilið ykkar Heiðu var einstaklega fallegt og allir alltaf velkomnir - þar ríkti kærleikur og maður fann alltaf að maður skipti máli - það skiptu allir máli. Allir sem komu við í Hamragerðinu fengu nefnilega tíma og betri gjöf er held ég ekki hægt að gefa sínu fólki. Að sitja í eldhúskróknum yfir kaffibolla og bleikri glassúrtertu var best og ekki spillti fyrir að hlæja svolítið á meðan því að alltaf slóst þú á létta strengi, varst með eitthvað grín og glens, rifjaðir upp skemmtilegar sögur og vísur sem uppskáru mikinn hlátur. Jói þinn erfði eitthvað af þessum frásagnarhæfileika þínum og hafa börnin okkar notið góðs af því í gegnum tíðina og núna barnabarnið okkar og mikið þykir mér vænt um þennan eiginleika hans.
Jói minn og þú áttuð svo fallegt samband og honum þótti svo vænt um að fá að smíða með þér og dunda núna síðustu árin. Fá að læra af þér, pæla og spekúlera þar til að besta niðurstaðan var fundinn. Ég ætla ekki að segja að þér hafi verið margt til lista lagt því að það eru enganvegin nógu stór orð yfir hæfileika þína og langar mig heldur að segja að þér hafi verið allt til lista lagt, ja nema kannski syngja. Þvílík fyrirmynd sem þú varst fyrir okkur að finna alltaf út úr hlutunum og gefast aldrei upp. Ekki skemmdi nú fyrir millimetra hugsunin þín því að við byggingarfulltrúa börnin kunnum ákaflega vel við þá nálgun og erum sérstaklega góð í að mæla millimetrana.
Börnin okkar Jóa voru svo heppnin að Hamragerðið ykkar var á miðri leið heim úr skólanum og komu þau við hjá ykkur Heiðu oft á leið sinni heim. Þar sem gripið var í spil, tekið spjall og jafnvel skellt í pönnsur - já og aftur kem ég inn á að þið gáfuð ykkur tíma, tíma til að hlusta og tíma til að bara vera og það stóra veganesti ætla ég að reyna að tileinka mér í mínu lífi. Krökkunum okkar fannst alltaf svo mikill ævintýraljómi við Hamragerðið, líf og fjör og gleði. Ég er svo þakklát fyrir tenginguna ykkar við börnin okkar því að þau munu búa að henni alla tíð - einhverjir töfrar sem erfitt er að lýsa með orðum en þau voru svo sannarlega heppinn með ömmu og afa og fyrir það verð ég ykkur ævinlega þakklát.
Takk fyrir alla hjálpina Jón, takk fyrir góða lagerstöðu á flestum hlutum, takk fyrir húmorinn og léttleikann, takk fyrir fallegu verkin þín, takk fyrir afa molana, takk fyrir sögurnar, takk fyrir að hafa búið til Álfheima fyrir okkur fjölskylduna, takk fyrir tímann og takk fyrir að þykja vænt um mig og mína.
„Það styttist. Bráðum sé ég allt,“ voru síðustu orðin þín við Jóa minn. Nú sérðu allt elsku Jón minn.
Takk fyrir allt
Þín,
Valdís