Fara í efni
Minningargreinar

Jón Geir Ágústsson

Geislafingur gagnsærgrípur streng og slærfölbláan tón á hörpu deyjandi dags.(S.G.)

Nú þegar strengir í hörpu pabba okkar hafa þagnað þá syrgjum við og söknum en gleðjumst um leið að hafa átt hann að og allt það sem hann kenndi okkur. Hann kenndi okkur að meta fegurðina í umhverfinu, vanda til verka, minnti okkur á að láta draumana rætast og ítrekaði að koma tímar og koma ráð.

Hann var fróður og vel lesinn, minnugur langt fram eftir aldri, kunni ljóð og vísur og aragrúa af sögum af uppvaxtarárum sínum frá Ólafsfirði sem alltaf var gaman að hlusta á enda var hann einstaklega skemmtilegur sagnamaður. Ólafsfjörður átti ávallt stóran stað í hjarta pabba og í hans huga var enginn staður fegurri en þar sem hann sleit barnskónum og átti hann þar stóran samheldinn frændgarð og vini.

Sem ungur maður dreymdi hann um að læra gullsmíði en efni og aðstæður þess tíma leyfðu það ekki. Þess í stað komst hann í nám í byggingartæknifræði í Þrándheimi í Noregi þar sem hann naut sín vel og stundaði skíði og skíðastökk með Magnúsi bróður sínum. Honum þótti alltaf vænt um Noreg og þann tíma sem hann átti þar.

Listagyðjan var pabba hliðholl allt frá unga aldri. Hann fékk mikla hæfileika í vöggugjöf, teiknaði, málaði, skar út í tré, smíðaði allt milli himins og jarðar, batt inn bækur, saumaði úr leðri og hannaði byggingar. Okkur fannst pabbi geta allt. Allt nema laga jólaseríur.

Alla tíð nutum við systkinin og fjölskyldur okkar þeirrar hlýju og kærleika sem var til staðar í Hamragerðinu hjá mömmu og pabba. Það var skapandi orka á heimilinu, við börnin nutum frelsis til að leika okkur og höfðum aðgang að ýmsum listverkfærum sem við fengum að njóta. Dyrnar í Hamragerðinu voru okkur ávallt opnar og öllum okkar vinum.

Að reka heimili með sex börnum hefur líklega verið ærinn starfi. Pabbi vann mikið, var í fullu starfi sem byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar í 43 ár og þegar hefðbundnum vinnudegi lauk hannaði hann fjöldamörg hús á vinnustofu sinni heima í Hamragerði. Pabbi var alltaf til taks fyrir okkur og var bóngóður með eindæmum. Hann sýndi öllum afkomendum sínum mikinn áhuga og fylgdist vel með vegferð hvers og eins.

Pabbi og mamma höfðu mikið yndi af ferðalögum bæði hér heima og erlendis.

Þau byggðu sér fallegt sumarhús í Vaðlaheiði þar sem þau áttu góðar stundir á efri árum.

Eftir að pabbi og mamma fluttu frá æskuheimili okkar flutti hann í Víðilund en mamma á öldrunarheimili. Pabbi átti góðan tíma í Víðilundinum og naut félagsskapar við gamla og nýja vini.

Þar hélt hann áfram að skapa og bjó sér til vinnuaðstöðu í íbúðinni sinni.

Fram á síðustu stundu var hann frjór í hugsun og sköpun og hugmynd að næsta listaverki aldrei langt undan.

Hann hætti aldrei að láta sig dreyma.

Regnbogann settir þú
í skýin
brú af geislum
lagða milli okkar
og þín
í dag höfum við gengið
hana
(Kristján frá Djúpalæk)

Við kveðjum ástkæran föður okkar, vin og sannan heiðursmann.

Guð geymi þig elsku pabbi og hafðu þökk fyrir allt sem þú varst okkur.

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður, Jóhann Heiðar.

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00