Fara í efni
Minningargreinar

Jóhann Sigtryggsson

Jóhann Sigtryggsson – 10. júlí 1938-20. júní 2024

Hann gengur svolítið álútur og útskeifur og skimar í kringum sig. Dökkur leðurjakkinn er of stór og skórnir óburstaðir. Yfir þunnu ljósu hárinu er skygnishúfa með ógreinilegri áletrun frá erlendu veiðafærafyrirtæki. Í annarri hendi heldur hann á langri veiðistöng og í hinni hefur hann kippu af silungi sem hann hefur þrætt upp á band. Nú það er fín heimsókn að sunnan segir hann svolítið skrækum rómi og brosir til okkar út í annað munnvikið. Þið komið nú og fáið ykkur kaffi og kex strákar. Ég er með þrjár sortir í dag bætir hann við. Og við setjumst inn í eldhúsið í litla húsinu hans á horni Aðalstrætis og Lækjargötu þar sem hann hefur lengi búið einn. Og spjallið hefst venju samkvæmt. Jói segir sögur af foreldrum okkar og forfeðrum og fólkinu í Innbænum, hverfinu sem við ólumst upp í. Sumar sögurnar höfum við heyrt áður, aðrar ekki. Og Jói fer á flug og frásagnalistin er honum meðfædd og hann man glöggt eftir löngu liðnum atburðum, hermir eftir fólki og það ískrar í honum af kátínu og hann veifar út höndunum, þegar vel tekst til með sögurnar. Hann hefur átt samleið með áum okkar og ömmum og foreldrum og séð okkur æskuvinina og systkini vaxa úr grasi. Hann rifjar upp þegar Gummi og Ingi keyptu vörubílana, þegar amma byrjaði að hjóla og að langafi reykti Gauloisis sígarettur eða þegar Steinþór í Brynju fann upp ísinn sem síðar varð svo frægur. Við, aftur á móti, munum eftir honum ungum, kvikum og spengilegum í brúnum sloppi, bundnum um mittið, að keyra út vörur á A7 sendlabílnum fyrir KEA. Eða á ferðinni á hvíta fólksvagenbílnum sem hann hafði keypt nýjan úr kassanum, um svipað leiti og við fæddumst og hefur nýlega látið gera upp. Svo sýnir hann okkur upp á efri hæðina en þar er lítið svefnherbergi og stærri stofa þar sem hann hefur breytt út útsæði til spírunar á segldúk á gólfinu og ætlar hann að setja niður í kartöflugarðinn upp á Höfða eins og undanfarin sextíu vor. Og þá er komið að næsta þætti sem er fastur liður í heimsóknum okkar félaganna. Nú hefst all nokkuð nærgöngull spurningatími um líf okkar félaganna fyrir sunnan. Um hvað við séum að gera. Og hann vill sérstaklega fá að vita hvernig gangi hjá eiginkonum okkar. Hann hefur fyrir löngu sett á sig nöfn þeirra og vill alltaf fá nákvæmar fréttir af þeim. Þetta eru alvöru konur sem þið hafið náð ykkur í strákar, segir hann. Og svo vill hann vita hvernig heilsan er hjá öldruðum mæðrum okkar. Forvitni og umhyggja um hag okkar fólks og Innbæinga allra. Þvílík hlýja og mannbæting. Við vitum vel að þessi gamli maður, sem við sitjum hjá, hefur ekki alltaf átt auðveldt líf og varð framan af ævinni fyrir neikvæðum samskiptum og jafnvel aðkasti sem örugglega mætti kalla einelti með tungutaki nútímans. Ekki er ólíklegt að hann hafi stundum verið einmana. Hann fór eiginlega aldrei að heiman, hélt áfram að veiða á Pollinum og að klóra sínar kartöflurásir í Höfðann og nostra við Bjölluna. En honum tókst að breyta hag stráksins sem skar sig úr og fékk ekki nægilegan stuðning eða tækifæri, því hann skilaði langri og farsælli starfsævi við akstur og eignaðist sína vini og varð að lokum höfðingi okkar Innbæinga.

Takk vinur, fyrir ævilanga og trygga vináttu við okkur og þrjár kynslóðir fjölskyldna okkar í Fjörunni.

Óli Þór og Maggi

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00