Fara í efni
Minningargreinar

Jóhann Pétursson

Það er þyngra en tárum taki að skrifa þessi orð. Elskulegur bróðir, mágur og frændi hefur kvatt okkur alltof snemma og skilur eftir stórt skarð í hjörtum okkar.

Hann Jói var góður maður, með ljúfa lund, hjálpsamur, traustur og skemmtilegur. Hann gat líka verið þrjóskur og stríðinn. Oft fór stríðnin og þrjóskan saman og gat hann þrætt en glott út í annað á sama tíma.

Í bernsku náði hann oft að espa systur sína upp. Með aldri og þroska varð stríðnin mildari hjá Jóa og snérist oftar en ekki um fótbolta. Eitt sinn þegar hann var í útlöndum ætlaði hann að hrekkja mág sinn og keypti Liverpool búning fyrir litla frænda sinn þar sem hann minnti að mágur sinn, faðir hans, væri United maður. Hann er hins vegar mikill Liverpool maður og var hinn ánægðasti með gjöfina. Eins benti hann yngsta frænda sínum reglulega á að rautt og hvítt væri fallegra en gult og blátt. Litli frændi stríddi honum á móti með því að klæða sig í eins mörg KA föt og hann gat þegar hann heimsótti Jóa. Jói mætti samt oft að horfa á litla frænda keppa fyrir hönd KA og hvatti hann áfram.

Þrátt fyrir nokkur ár í bernsku þar sem hann naut þess að stríða systur sinni þá var alltaf mikill kærleikur þeirra á milli. Ef litlu systur leið illa mætti Jói til að hugga hana og ef Jói var á djamminu þá rúntaði litla systir til rúmlega 4 um nóttina ef ske kynni að hann vantaði far heim. Nú á fullorðins árum nutu systkinin þess að hittast yfir kaffibolla og spjalla, fara út að borða saman eða í göngutúr. Það var gott að tala við Jóa og gátu systkinin rætt um allt. Oft ræddu þau um börnin sín og hvað Jói var stoltur af Heiðari, Lilju og Gunnborgu, ljúfmennsku þeirra, þrautseigju og dugnaði.

Samverustundir í sumarbústaðnum Liljulundi, útilegur í Vaglaskógi og ferðin til Danmerkur lifir sterkt í minningu okkar. Jói naut þess að fara í fjallaferðir á trukknum sínum og fórum við hjónin eitt sinn með honum og Valrúnu í ferð upp á Vatnajökul. Fegurðin og kyrrðin stórkostleg og félagsskapurinn dásamlegur. Einnig fékk litla frænkuskottið oft að fara með þeim í ferðir. Þeim þótti svo sjálfsagt að taka hana með í fjölskylduferðir enda hefur hjarta þeirra og heimili alltaf staðið opið fyrir fjölskyldu og vini.

Jói var einstaklega bóngóður, laghentur og frábær kokkur. Það var alveg sama hvort okkur vantaði aðstoð við matseld, þurftum að geyma búslóð, hjálp við að flytja eða vantaði pössun þá voru hann og Valrún alltaf til í að hjálpa. Eitt sinn vantaði litlu systur pössun fyrir frumburðinn. Jói var í landi og var alveg til í að passa nafna sinn. Nafnarnir áttu góða stund og horfðu á Stubbana í nokkra klukkutíma. Seinna hafði hann orð á að þetta hefði verið leiðinlegasta sjónvarpsefni sem hann hafði nokkurn tíma séð, en aldrei lét hann litla frænda finna fyrir því.

Við syrgjum þig elsku Jói okkar en erum afskaplega þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman. Þær minningar lifa í hjörtum okkar um ókomin ár. Megi allar góðar vættir gefa okkur öllum styrk á þessum erfiðu tímum.

Hólmfríður Björk, Þorvaldur Örn, Jóhann Bjarki, Helga Jenný og Pétur Örn

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00