Ingvi Rafn Jóhannsson
Elskulegur stórfrændi minn Ingvi Rafn Jóhannsson lést í svefni aðfaranótt 13. mars. Það var ósk hans hygg ég skv. samtali okkar rúmlega viku áður. Ég er svo glaður að hafa náð þessari góðu stund með honum á heimili hans, þar sem honum leið svo vel. Við ræddum um heima og geima, nánar fjölskyldur okkar, og gamlar æskuminningar, en ekki síst tónlistina sem honum hefur alla tíð verið svo hjartfólgin, ásamt auðvitað hinni stóru, myndarlegu fjölskyldu hans og Sollýjar heitinnar. Okkar náni frændskapur og vinátta stafaði ekki síst af því að foreldrar Ingva, þau Jóhann Ó. Haraldsson tónskáld og Þorbjörg Stefánsdóttir, voru systkini foreldra Hauks föður míns, þeirra Laufeyjar S. Haraldsdóttur og Eiríks Stefánssonar kennara, sem giftu sig sem sagt „í kross“ eins og við sögðum oft. Þannig er allt frændfólk Ingva skylt okkur systkinum.
Við elstu bræðurnir fæddumst á Akureyri og mikill samgangur var á milli fjölskyldnanna, meðan við bjuggum þar og einnig síðar þótt minni væri eftir að mín fjölskylda flutti suður til Reykjavíkur. Ingvi átti segulbandstæki gott og mikið var tekið upp af söng okkar barnanna í báðum fjölskyldum, sem ég veit ekki hvort er varðveitt. Ég man eftir þessum stundum, því þeir náfrændur pabbi og Ingvi höfðu gaman af þessu, báðir góðir söngvarar, eins og svo margt fólk í ættum þeirra. Ingvi hafði háa og bjarta sterka tenórrödd, sem eflaust hefði náð að heyrast víða ef hann hefði haft tíma og vilja til að sinna með meiri tilsögn fyrr. Það mun Sigurður Demetz vinur hans og kennari hafa sagt, þegar hann leiðbeindi honum nálægt fertugsaldri að ég held. Karlakóralífið var Ingva alla tíð mjög hugleikið og átti hann sinn þátt í að efla það með ódrepandi áhuga. En þegar fækka tók í kórunum á Akureyri tók hann þátt í sameiningu þeirra, sem formaður. Það var ekki auðvelt, því kórarnir Geysir og Karlakór Akureyrar voru eiginlega eins og Þór og KA í knattspyrnunni.
Fjölskylda Ingva stækkaði ört og eignuðust þau Sollý sex dætur og tvo syni. Lífið í Löngumýri 22 var fjörugt og litríkt og alltaf gaman að koma í heimsókn. Mikil var sorg fjölskyldunnar þegar Sollý kona Ingva dó alltof snemma, hún var Ingva og fjölskyldunnar stoð og stytta alla tíð. Það var stórkostlegt að upplifa að þrátt fyrir líkamslegan aldurshrumleika, kominn yfir nírætt, gat Ingvi tileinkað sér „fésbókarskrif“ og átti ótrúlegan fjölda vina, einkum úr tónlistarlífinu, sem héldu sambandi við hann. Það var honum ómetanlegt!
Ingvi fylgdist vel með fjölskyldum okkar systkina úr fjarlægð og spurði oft frétta. Dætrum okkar hjóna þótti afar vænt um vinskap Ingva og elskusemi.
Móðir mín, sem dó í ágúst síðastliðnum, hafði reglulega símasamband við Ingva og þannig fylgdust þau með afkomendum hvort annars. Þau voru síðust að kveðja þetta líf af foreldrum okkar og barna Ingva. Ég þakka innilega alla ást og ræktarsemi sem Ingvi veitti mér og mínum. Innilegar samúðarkveðjur til syrgjenda Ingva, einkum barna, barnabarna og afkomenda hans. Blessuð sé minning stórfrænda míns!
Haraldur Hauksson