Fara í efni
Minningargreinar

Ingvi Rafn Jóhannsson

Elsku­leg­ur stórfrændi minn Ingvi Rafn Jó­hanns­son lést í svefni aðfaranótt 13. mars. Það var ósk hans hygg ég skv. sam­tali okk­ar rúm­lega viku áður. Ég er svo glaður að hafa náð þess­ari góðu stund með hon­um á heim­ili hans, þar sem hon­um leið svo vel. Við rædd­um um heima og geima, nán­ar fjöl­skyld­ur okk­ar, og gaml­ar æskuminn­ing­ar, en ekki síst tón­list­ina sem hon­um hef­ur alla tíð verið svo hjart­fólg­in, ásamt auðvitað hinni stóru, mynd­ar­legu fjöl­skyldu hans og Sol­lýj­ar heit­inn­ar. Okk­ar náni frænd­skap­ur og vinátta stafaði ekki síst af því að for­eldr­ar Ingva, þau Jó­hann Ó. Har­alds­son tón­skáld og Þor­björg Stef­áns­dótt­ir, voru systkini for­eldra Hauks föður míns, þeirra Lauf­eyj­ar S. Har­alds­dótt­ur og Ei­ríks Stef­áns­son­ar kenn­ara, sem giftu sig sem sagt „í kross“ eins og við sögðum oft. Þannig er allt frænd­fólk Ingva skylt okk­ur systkin­um.

Við elstu bræðurn­ir fædd­umst á Ak­ur­eyri og mik­ill sam­gang­ur var á milli fjöl­skyldn­anna, meðan við bjugg­um þar og einnig síðar þótt minni væri eft­ir að mín fjöl­skylda flutti suður til Reykja­vík­ur. Ingvi átti seg­ul­bands­tæki gott og mikið var tekið upp af söng okk­ar barn­anna í báðum fjöl­skyld­um, sem ég veit ekki hvort er varðveitt. Ég man eft­ir þess­um stund­um, því þeir náfrænd­ur pabbi og Ingvi höfðu gam­an af þessu, báðir góðir söngv­ar­ar, eins og svo margt fólk í ætt­um þeirra. Ingvi hafði háa og bjarta sterka ten­órrödd, sem ef­laust hefði náð að heyr­ast víða ef hann hefði haft tíma og vilja til að sinna með meiri til­sögn fyrr. Það mun Sig­urður Demetz vin­ur hans og kenn­ari hafa sagt, þegar hann leiðbeindi hon­um ná­lægt fer­tugs­aldri að ég held. Karla­kór­a­lífið var Ingva alla tíð mjög hug­leikið og átti hann sinn þátt í að efla það með ódrep­andi áhuga. En þegar fækka tók í kór­un­um á Ak­ur­eyri tók hann þátt í sam­ein­ingu þeirra, sem formaður. Það var ekki auðvelt, því kór­arn­ir Geys­ir og Karla­kór Ak­ur­eyr­ar voru eig­in­lega eins og Þór og KA í knatt­spyrn­unni.

Fjöl­skylda Ingva stækkaði ört og eignuðust þau Sol­lý sex dæt­ur og tvo syni. Lífið í Löngu­mýri 22 var fjör­ugt og lit­ríkt og alltaf gam­an að koma í heim­sókn. Mik­il var sorg fjöl­skyld­unn­ar þegar Sol­lý kona Ingva dó alltof snemma, hún var Ingva og fjöl­skyld­unn­ar stoð og stytta alla tíð. Það var stór­kost­legt að upp­lifa að þrátt fyr­ir lík­ams­leg­an ald­urs­hrum­leika, kom­inn yfir ní­rætt, gat Ingvi til­einkað sér „fés­bók­ar­skrif“ og átti ótrú­leg­an fjölda vina, einkum úr tón­list­ar­líf­inu, sem héldu sam­bandi við hann. Það var hon­um ómet­an­legt!

Ingvi fylgd­ist vel með fjöl­skyld­um okk­ar systkina úr fjar­lægð og spurði oft frétta. Dætr­um okk­ar hjóna þótti afar vænt um vin­skap Ingva og elsku­semi.

Móðir mín, sem dó í ág­úst síðastliðnum, hafði reglu­lega síma­sam­band við Ingva og þannig fylgd­ust þau með af­kom­end­um hvort ann­ars. Þau voru síðust að kveðja þetta líf af for­eldr­um okk­ar og barna Ingva. Ég þakka inni­lega alla ást og rækt­ar­semi sem Ingvi veitti mér og mín­um. Inni­leg­ar samúðarkveðjur til syrgj­enda Ingva, einkum barna, barna­barna og af­kom­enda hans. Blessuð sé minn­ing stórfrænda míns!

Har­ald­ur Hauks­son

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01