Ingvi Rafn Jóhannsson
Nú er fallinn frá tengdafaðir minn og vinur. Ég er stoltur af því að geta líka vísað til hans sem vinar míns því okkar samband var einstaklega ljúft og gott. Ég held að aldrei hafi fallið styggðaryrði á milli okkar á þeim 43 árum sem okkar kynni stóðu. Þau hjónin Sólveig og Ingvi tóku mér afskaplega vel á þeirra ástríka heimili þegar ég varð heimagangur í Löngumýri 22, 16 ára gamall, þegar við Eyrún byrjuðum að skjóta okkur saman. Ég fann strax hversu ástrík og hlý þessi stóra fjölskylda var. Ég spurði einhvern tímann hvort ekki væri stöðugt minni ást og væntumþykja til staðar per barn í átta systkina hópi. Þá var svarið: „Auðvitað ekki, hjartað stækkar bara með hverjum afkomanda.“ Þetta skýrði ástríkið.
Við Ingvi Rafn fylgdumst að yfir ólík æviskeið hans. Allt frá því að hann var rúmlega fimmtugur rafvirkjameistari með eigin verslun og verkstæði, yfir í að verða óvænt ekkill, félagsmálatröll og loks eldri borgari sem þurfti á aðstoð að halda til að geta lifað eins og hann vildi sjálfstæðu lífi heima í Mýrarvegi. Aldrei heyrði ég hann kvarta yfir því sem lífið bauð honum upp á, miklu frekar var einstakt hvað hann var alltaf þakklátur fyrir það litla sem maður gat gert fyrir hann. Þótt hann stæði sjálfur í ströngu gaf hann sér alltaf tíma til að spyrja frétta og hvað væri títt af mér og mínum rétt eins og góðir vinir gera. Ég veit að ég var ekki einn um þessa upplifun af samskiptum við Ingva.
Fyrir nokkrum árum tókum við Eyrún „höbbðingjann“ (ekki prentvilla heldur hörgdælskur framburður á höfðingjann) í bíltúr um Hörgárdalinn. Þar var nú minn maður í essinu sínu og sagði okkur sögur frá veru sinni í sveitinni þar sem honum var komið í fóstur sex ára gömlum. Í Hörgárdalnum var mikið hernaðarbrölt á stríðsárunum en bæði Bretar og síðar Bandaríkjamenn voru þar með aðstöðu víða um dalinn. Hann kynntist hermönnunum og lærði af þeim ensku og fyrr en varði var hann farinn að hjálpa þeim að afla aðfanga hjá nærliggjandi bændum. Þeir voru honum þakklátir og kynntu honum tækni sem þeir notuðu og buðu honum í bíó, nokkuð sem fáir jafnaldrar hans höfðu upplifað á þessum árum. Ég held að þarna hafi krókurinn beygst í áttina að því að mennta sig í rafvirkjun og stunda síðar verslun og viðskipti.
Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa eignast svona góðan tengdaföður. Hann var mér innblástur með svo margt í mínu lífi. Ekki síst hvað varðar afahlutverkið sem ég hef nýlega stigið inn í. Það hefur verið mér ómetanlegt að hafa haft góðar fyrirmyndir. Vinur minn orðaði það þannig um daginn að það að vera afi sé nefnilega flókið jafnvægi milli þess að vera til staðar þegar á þarf að halda og vera ekki fyrir þegar þín er ekki þörf. Ingvi Rafn kunni svo sannarlega þessa list hvort sem var sem afi eða langafi. Hann var svo endalaust stoltur af öllum sínum 47 afkomendum sem öll lifa hann og það gladdi hann mikið.
Takk fyrir samfylgdina kæri tengdapabbi, ég veit að þú ert nú í góðum höndum og ert vafalaust að taka aríu með góðum félögum.
Hólmar Erlu Svansson