Fara í efni
Minningargreinar

Ingvi Rafn Jóhannsson

„Það er ráð við öllu nema ráðal­eys­inu,“ sagði pabbi oft, sér­stak­lega þegar hann vildi hvetja okk­ur áfram. Það var hon­um í blóð borið að vera spor­göngumaður, hugsa í lausn­um. Hann talaði frek­ar um að það væri hálfljós en hálf­myrk­ur þegar von­leysið greip fólk og átti þá við að það væri alltaf ljós þótt sól­in dveldi bak við drunga­leg ský.

Pabbi var ný­árs­barn for­eldra sinna og lýsti upp ver­öld­ina, var elskaður skil­yrðis­laust. Svo dró ský fyr­ir sólu þegar hann var aðeins sex mánaða og móðir hans veikt­ist af berkl­um og þurfti að fara á Krist­nes­hæli. Hún lést tæp­um mánuði áður en hann varð tveggja ára. Sorg­in hellt­ist yfir ver­öld þeirra feðga en greini­legt að þá var leitað í tón­list­ina, afi samdi mörg lög, prelúdí­ur og postlódí­ur sem gráta. Pabbi byrjaði að syngja tveggja ára og söng­ur­inn og tón­list­in varð hans akk­eri alla tíð.

Að eiga föður sem hef­ur þessa lífs­reynslu var í raun okk­ar gæfa því hann var svo miklu dýpri og vitr­ari vegna þess. Hann trúði á hið góða og miðlaði því til okk­ar. Hans gæfa var svo að hitta mömmu sem kenndi hon­um hvað sterk fjöl­skylda þýðir mikið fyr­ir börn. Mamma kom úr níu barna hópi úr Aðal­vík þar sem samstaða var leiðar­stefið og upp­gjöf ekki til. Pabbi var ein­birni. Sam­an eignuðust þau okk­ur systkin­in átta, fyrst stelp­urn­ar sex og svo strák­ana tvo. Sama á hverju gekk, þá var hóp­ur­inn sam­held­inn og sterk­ur.

Pabbi gaf okk­ur tæki­færi til að taka þátt í rekstri fyr­ir­tæk­is­ins Raf­tækni. Þar lærði ég m.a. hvað de­bet og kred­it þýddi, ýms­ar söluræður, að svara í síma, leysa úr margs kon­ar vand­ræðum, virða iðnaðar­menn og bjarga mér. Hann eft­ir­lét mér að reka versl­un­ina þegar ég var 12 ára í nokkr­ar vik­ur þegar þau fóru til Ítal­íu. Þegar hann var innt­ur eft­ir því hver væri nú í búðinni sagði hann stolt­ur að það væri hún María Björk, hún væri nú líka á þrett­ánda ári og gæti þetta.

Pabbi var flink­ur að gefa hverju okk­ar systkin­anna óskipta at­hygli, hlusta og gant­ast. Hann var mik­ill mannþekkj­ari og treysti eig­in inn­sæi. Eft­ir að barna­börn­in og síðar langafa­börn­in fædd­ust, eitt af öðru, sýndi hann þeim sömu at­hygl­ina og um­hyggj­an leyndi sér ekki. Pabbi varð hjartað og límið í fjöl­skyld­unni, ekki síst eft­ir að mamma dó fyr­ir 22 árum.

Ég kveð pabba minn full þakk­læt­is fyr­ir elsk­una, um­hyggj­una, sög­urn­ar, ætt­rækn­ina, tón­list­ina, gleðina og lausnamiðaða nálg­un­ina í líf­inu. Minn­ug þess að reiðir menn syngja ekki og góðir menn gráta, eins og hann sagði gjarn­an, eft­ir­læt­ur hann af­kom­end­un­um og þeim sem hann kynnt­ist lífs­speki sem gott er að temja sér.

Farðu í friði, takk fyr­ir allt og allt.

María Björk

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00