Ingibjörg Þorvaldsdóttir
Í desember árið 1938, rétt fyrir jól, komu tvær stúlkur í heiminn. Þetta voru frænkurnar Halla Gunnlaugsdóttir, fædd 18. desember, og Ingibjörg Þorvaldsdóttir, fædd 22. desember. Foreldrar þeirra beggja bjuggu í Munkaþverárstræti á Akureyri, Halla í númer 12 og Ingibjörg í númer 18.
Þær frænkur voru sérstaklega samrýmdar alla tíð. Þær gengu saman í gegnum lífið, giftust vinum, unnu saman og skemmtu sér. Vinátta þeirra og samband var einstakt. Framan af bjuggu þær ásamt fjölskyldum sínum í Munkaþverárstræti sem er ein af fallegustu götum Akureyrar. Seinna fluttu þær báðar upp á brekku en „Múnkinn“ var alltaf heima.
Báðar giftust þær Fjólugötudrengjum; Halla giftist Þráni Jónssyni (Didda Jóns) úr Fjólugötu 15 og Ingibjörg giftist Hilmari Gíslasyni (Marra Gísla) úr Fjólugötu 11. Þráinn vann hjá Pétri og Valdimar en þeir sáu um flutninga á milli Akureyrar og Reykjavíkur og voru umboðsmenn Coca Cola í bænum. Hilmar vann nær alla tíð hjá Akureyrarbæ, lengst af sem bæjarverkstjóri, og gat sér gott orð. Báðir voru þeir harðir Þórsarar og nokkuð hressir eins og algengt er með unga menn. Eflaust voru þeir þeim frænkum oft erfiðir en í minningunni gekk lífið sinn vanagang, í samræmi við tíðarandann.
Þann 16. mars árið 1965 kem ég inn í þessa sögu. Að vísu átti ég að fæðast mánuði fyrr en mamma datt og fótbrotnaði í Krabbastígunum. Það orsakaði að hún var gengin tíu mánuði. Á sama tíma átti Ingibjörg von á sér og 2. apríl kom Þorvaldur frændi í heiminn.
Við frændurnir í Múnkanum áttum feður sem voru bestu vinir og mæður okkar voru nánast mæður okkar beggja. Þá var lífið sannarlega ljúft og áhyggjulaust — stanslaust sólskin á sumrin og snjór á veturna, allt nákvæmlega eins og það átti að vera.
Ingibjörg og Marri eignuðust svo Ólaf árið 1967 og Kristínu árið 1969. Við strákarnir vorum alltaf saman, við Valdi með Óla í afturdragi. Þá var mikið fjör var og mæður okkar ekki alltaf hressar með uppátækin. Bjarkastígur, klappirnar, Amtsbókasafnið og Moldarvöllurinn voru okkar helstu vígi.
Fjölskyldurnar voru alltaf mikið saman og nutu samvistanna. Um árabil fórum við í hjólhýsum í Vaglaskóg hverja einustu helgi og nutum endalausa og yndislega norðlenska sumarsins. Þar var farið í ævintýraferðir, grillað og farið í fótbolta. Fullorðna fólkið skemmti sér vel með okkur krökkunum. Marri var alla tíð mikil driffjöður í okkar uppeldi. Hann dreif okkur krakkana í fótbolta, á skíði og seinna í golf sem alla tíð var hans uppáhald.
Það sem stendur upp úr og er mér kærast í þessari sögu er vinátta mömmu og Ingibjargar. Satt best að segja held ég að þær hafi talað saman nánast alla daga allt sitt líf, eða þar til mamma veiktist. Þær áttu tíð samtöl í gegnum símann í gamla daga, þá var það svarti síminn hjá Ingibjörgu og sá grái heima hjá mér. Mörg kvöld sátu þær og prjónuðu hvor á sínum endanum með tólið undir hökunni og fóru yfir málin. Þær hittust iðulega heima í kaffi. Stundum laumuðust þær til að fá sér sígó og jafnvel sérrí. Þær voru eins og systur alla tíð.
Þegar mamma veiktist og ég heimsótti hana á Eir síðustu árin var ávallt það fyrsta sem hún sagði við mig: „Hefur þú heyrt í Þorvaldi, hvernig Ingibjörg og Marri hafa það?”
Vinátta þeirra var alla tíð einstök og tengslin þeirra á milli ótrúleg. Þegar þær voru báðar orðnar veikar fengu þær aðstoð við að hringja hvor í aðra. Þær sögðu ekki mikið en voru alltaf á sömu bylgjulengd.
Ingibjörg frænka var mér ómetanleg alla tíð. Vinskapur hennar og virðing gagnvart mér og mínu verður aldrei metin til fulls. Hvernig hún tók ávallt vel á móti mér eftir að ég fullorðnaðist og flutti suður. Hvernig hún fylgdist með mér og litlu fjölskyldunni minni, börnunum mínum Gauta og Söndru Ýr. Hvernig hún fylgdi pabba eftir í hans veikindum og hjálpaði mömmu. Að ég tali nú ekki um þolinmæðina gagnvart mömmu í seinni tíð. Hvernig hún tókst á við lífið og sín veikindi af hógværð og virðingu. Hún Ingibjörg var einstök kona.
Það er eins og einhver hafi samið sögu þeirrar Ingibjargar og Höllu. Þær fæðast með nokkurra daga millibili í sömu götu. Þær giftast strákum sem voru bestu vinir og bjuggu í sömu götu. Þær hefja búskap nánast hlið við hlið. Þær töluðust við alla daga. Þær unnu saman í fjölda ára. Þær eignast börn með nokkurra daga millibili.
Þráinn lést árið 2006 og Halla árið 2019.
Ingibjörg verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju þann 1. mars 2021.
Hilmar er hlaupársbarn, fæddur 29. febrúar, og heldur innan skamms upp á 85 ára afmælis sitt.
Blessuð sé minning frænku minnar, Ingibjargar Þorvaldsdóttur.
Gunnlaugur Þráinsson