Fara í efni
Minningargreinar

Indriði Úlfsson

„Stattu þig stelpa“ sagði gamli maðurinn við mig áður en hann hallaði aftur augunum. Þetta var það síðasta sem höfðingi fjölskyldunnar sagði við mig áður en hann kvaddi þennan heim.

Elsku besti afi minn. Það er skrýtið að hugsa til þess að þú sért ekki hér með okkur lengur. Veikindi þín bar svo snöggt að.

Þegar ég minnist afa Indriða þá hugsa ég alltaf til þessa tignarlega manns sem ég leit alltaf mikið upp til. Afi var alltaf mikilllærifaðir og fyrirmynd í mínu lífi. Allt frá 4 ára aldri ætlaði ég mér að verða kennari eins og afi Indriði. Hann hló bara og þvertók fyrir þá hugmynd. Það væri ekki mikill hagnaður af því að vera kennari nú til dags. Hann var alltaf mikill og góður fjárhagsmaður. Það má því rétt ímynda sér svipinn á gamla manninum þegar ég skráði mig í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri, þar sem ég útskrifast í vor.

Afi og amma voru okkur barnabörnunum ósköp góð alla tíð. Amma kenndi manni gömlu dansana í eldhúsinu og afi kenndi okkur systrum báðum að lesa og skrifa rétt um fjögra ára aldurinn. Afi var strangur karakter líkt og kennara er einum lagið. Hann var ákveðinn, barngóður, dugnaðarforkur sem ávallt stóð við bakið á sínu fólki. Hann var pössunarsamur um sig og sína en jafnframt algjör ljúflingur og blíðmenni með mikinn húmor og geislaði af honum gleðin. Við vorum ósköp lík í skapi og áttum ekki alltaf skap saman en hann kenndi manni einnig að vera rökræðinn og vel talandi fyrir sínu máli. Hinsvegar geymi ég mikið safn minninga okkar sem dýrmætt er að eiga.

Fyrir afa Indriða lagði maður enn meiri metnað í verk sín og gjörðir hvort sem það var félagslega eða í gegnum menntaveginn. Honum þótti gaman að fylgjast með námsferli okkar og hafði mikinn áhuga á einkunnum okkar og velgengni. Hans ráð og leiðbeiningar mín fyrstu 23 ár lífsins mun ég hafa með mér í farteskinu allt fram á minn síðasta dag.

Okkar síðasta samtal var rúmum þremur dögum fyrir andlát þitt, afi. Eftir á að hyggja var það hin hinsta kveðja. Þú kvaddir mig svo innilega í símann, sagðist vera stoltur af mér, taldir mig eiga eftir að spjara mig vel á komandi tímum. Útskrift mín verður í vor og veit ég að þú getur ekki verið til staðar en þú verður ávallt með mér í hjartanu.

Ef ekki hefði verið fyrir þennan mann, sem ég er gríðarstolt af að hafa fengið að kalla afa minn, væri ég ekki nálægt því sama manneskja og ég er í dag. Eins erfitt og það er að fylgja afa Indriða til grafar er einnig ákveðin gleði í hjarta mínu. Afi, þú varst trygg stoð í lífinu sem gott var að leita til. Ég mun ávallt sakna þín og munt þú ávallt eiga stóran stað í lífi mínu. Þó dánardagur þinn í dag sé gífurlega erfiður dagur er ákveðin gleði sem fylgir líka, minningahafið og góðu stundirnar. Ég veit að ég á þig alltaf að þó ég heyri ekki rödd þína lengur.

Þú skilur eftir djúp spor. Ég verð þér ævinlega þakklát. Það mun taka eilífðina alla að þakka þér fyrir allt saman. Takk fyrir allar stundirnar saman, afi, hvíl í friði, kallinn minn. Við sjáumst seinna.

Ég elska þig, elsku afi Indriði.

Þín,

Ingibjörg Ósk.

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00