Fara í efni
Minningargreinar

Hreiðar Jónsson

Komið að kveðjustund.

Þegar litið er til baka var það ómetanlegt að hafa átt samleið með Hreiðari Jónssyni – Johnson eins og hann nefndi sig í góðra vina hópi sem notaði þá gjarnan nafnið.

Ég kynntist Hreiðari þegar ég skoppaði niður á völl sem smápolli. Stór hópur skipti liði og kepptist við að koma boltanum í mark. Þegar miðnættið nálgaðist var stolist inn á hið heilaga, iðagrænan leikvanginn. „Strákar! það er bannað að vera á vellinum“ var þrumað í hátalarakerfi vallarins. Við hlupum hver í sína áttina, því ekki vildum við verða settir í vallarbann, eins og refsingar voru á þeim tíma. Með áminningunni óx upp öflugur hópur sem gætti vallarins fyrir þeim sem vissu ekki hverjar reglurnar voru.

Í áratug átti það svo fyrir mér að liggja að vinna sem vallarstarfsmaður. Þá kynntist ég Hreiðari, við urðum vinir sem entist út ævina. Fastur punktur voru símtölin við áramót.

Samhliða starfi sínu á íþróttavellinum vann hann við frjálsíþróttaþjálfun. Grunninn hafði hann sem keppnismaður í millivegalengdum þar sem hann var fremstur meðal jafningja. Jafnframt sótti hann sér þekkingu erlendis og miðlaði til ungmenna á Akureyri og skilaði þeim í fremstu röð. Við störf sín í Skemmunni – íþróttahúsi bæjarins – sá hann að það myndi ekki vefjast fyrir honum að gerast handboltaþjálfari. Mikilvægur hluti þess fólst í styrktarþjálfun, tæknin og leikflétturnar komu þar á eftir og skilaði Þór í 1. deild árið 1973. Leikfléttur eru sér kapítuli, þar voru engir júggar eða kæróar á ferðinni, heldur voru þær búnar til við eldhúsborðið. Æfðar í drep og útfærðar þannig að andstæðingarnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð, hvernig boltanum var komið í netið, nokkuð sem þjálfarar nútímans ættu að tileinka sér.

Hreiðar var ekki allra. Margsinnis var ég spurður að því hvernig ég gæti þolað manninn! Stundum varð maður að taka á honum stóra sínum til að verja sinn mann. Spyrlar áttu það flestir sameiginlegt að þeir höfðu aldrei kynnst Hreiðari. Gróa var þeirra förunautur. Þeir létu og fara í sínar fínustu þegar hárbeitt athugasemd barst frá honum.

Hreiðar var víðlesinn og afskaplega fróður. Þá var hann tónlistarunnandi og sinnti því áhugamáli vel hin síðari ár. Hann var góður sögumaður þar sem spaugilegu hliðunum voru gerð góð skil. Hann var róttækur í skoðunum, réttsýnn og varði þá sem áttu erfitt uppdráttar. Hann setti hljóðan þegar Sovétmenn réðust inn í Tékkóslóvakíu 1968.

Þegar komið er að leiðarlokum birtast minningarnar hver af annarri. Sátum í Möðruvallastrætinu og ræddum málin og hlustuðum á Oscar Peterson. Ein plata var í miklu uppáhaldi og spiluðum við þá hlið hennar aftur og aftur. Auðvitað kostaði þetta áreiti að flytja tónarminn inn á að lagi loknu, þar til við uppgötvuðum endurtekningatakkann. Djassistinn var enn að þegar vaknað var um morguninn. Vona að þannig verði tekið á móti þér minn kæri.

Aðstandendum votta ég samúð mína.

Örn Pálsson

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01