Hreiðar Jónsson
Kynni okkar Hreiðars hófust er ég sem ungur maður lék handbolta og knattspyrnu með Þór og ÍBA á sama tíma og hann starfaði í Íþróttaskemmunni og á Akureyrarvelli.
Við urðum fljótlega góðir vinir og spjölluðum um allt mögulegt. Hreiðar var afar skemmtilegur persónuleiki, einkar fróður, víðlesinn og hafði frábæran húmor. Það má með sanni segja að við höfum náð vel saman frá fyrstu kynnum.
Hreiðar var á sínum yngri árum mikill frjálsíþróttamaður og síðar mjög fær þjálfari frjálsíþróttafólks. Ég man þegar ég sem ungur maður í handbolta sinnti einnig stjórnarstörfum fyrir Þór. Við vorum í þjálfaraleit og ég nefndi við Hreiðar hvort hann væri ekki til í þjálfa liðið, sem þá var í næstefstu deild. Eftir nokkra umræðu sló hann til en tók fram að hann hefði aldrei þjálfað handbolta áður. Hann myndi einfaldlega kynna sér allt sem hægt væri að finna um þau fræði. Skemmst er frá því að segja að liðið fór beint upp í efstu deild undir hans stjórn og það var engu líkara en hann hefði aldrei gert annað en að þjálfa handbolta!
Mér eru minnisstæðar allar flugferðirnar í útileikina og hvað honum var illa við að farþegar væru að standa upp og ganga um vélina, enda með eindæmum flughræddur. Þessar ferðir rifjuðum við oft upp í seinni tíð og hlógum mikið.
Síðar urðum við Hreiðar vinnufélagar og styrktust vinabönd okkar þá enn frekar. Hann var einstaklega sannur og traustur vinur sem ávallt stóð með vinum sínum. Verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir þá miklu aðstoð og ráðgjöf sem hann veitti mér á stórum tímamótum í mínu lífi.
Ég sakna Hreiðars mikið og mun alltaf minnast hans með virðingu og þakklæti. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og vina. Hreiðar Jónsson var frábær maður sem margir munu sakna.
Aðalsteinn Sigurgeirsson