Fara í efni
Minningargreinar

Hilmar Gíslason

Þá er Marri Gísla horfinn af þessu sjónarsviði til nýrra og skapandi verka, þar sem ekkert verður gefið eftir og gleðin, kappið og keppnisskapið verður við völd.

Marra, eða Hilmar Henry Gíslason, eins og hann hét fullu nafni, höfum við þekkt í áratugi. Hann fæddist og ólst upp í Fjólugötunni á Eyrinni og því eðlilega Þórsari frá blautu barnsbeini. Alla tíð var hann trúr sínu félagi og lagði því lið með ýmsum hætti. Marri var í fótboltanum í Þór frá unga aldri og eitthvað kom hann við sögu í handboltanum. Hann hafði vitaskuld ánægju af því að atast í okkur KA-mönnunum en síðan eftir að félögin stilltu saman strengi sína undir merkjum ÍBA var Marri lengi þar í fylkingarbrjósti og átti ófáa leiki með ÍBA-liðinu. Einnig var hann lykilmaður í einu merkasta knattspyrnuliði Akureyrar fyrr og síðar, „Early Sunrise“.

Eftir að knattspyrnuferlinum lauk tók skallaboltinn við. Marri var einn af okkur félögunum sem komu reglulega saman til æfinga í skallabolta í íþróttahúsinu við Laugargötu og síðar eftir að útbúinn var skallaboltavöllur í flugskýli Hölds á Akureyrarflugvelli var Marri mættur þar og lét heldur betur til sín taka, því keppnismaður var hann af betri gerðinni. Árið 1983 birtist gagnmerk grein í Íþróttablaðinu eftir Hörð Hilmarsson um skallablak á Akureyri. Þar er þessi lýsing á skallablakmanninum Marra: „Marri hefur frábæra skallatækni og notar höfuðið það mikið í leik sínum að ennið er oftast rauðglóandi að æfingum loknum. Annars má segja að „Marri“ noti innri hlið höfuðsins meira en flestir, því hann sendir gjarnan með „eitruðum“ kollspyrnum þangað sem andstæðingarnir eru veikastir fyrir.“

Já, Marri var sannarlega mikill keppnismaður og hörkuduglegur var hann. Í starfi sínu sem bæjarverkstjóri á Akureyri til fjölda ára kom berlega í ljós alúð hans og elja. Það var honum kappsmál að standa vel að málum til þess að þjóna bæjarbúum sem best.

Þegar Marri varð fimmtugur tókum við félagar hans okkur til og gáfum honum golfsett í afmælisgjöf. Þetta fannst Marra nokkuð undarleg gjöf, enda þótti honum golfið vart verðugt þess að um það væri talað sem sport. Marri lét þó tilleiðast og lærði undirstöðuatriðin í golfinu. Þar með var teningnum kastað svo um munaði. Á mettíma varð Marri heltekinn af golfinu og stundaði það á meðan kraftar entust. Golfiðkun Marra varð eins og í fótboltanum forðum, keppnismaðurinn stóð keikur og kláraði verkið! Svo miklum metum náði Marri í golfinu að hann var valinn í landslið öldunga með forgjöf.

Það er einkenni góðra húmorista að kunna að gera grín að sjálfum sér ekki síður en að öðrum. Þá list kunni Marri Gísla. Hann var gleðiríkur félagi og ómissandi í hópnum, hans verður sárt saknað.

Ingibjörg Þorvaldsdóttir, eiginkona Marra til áratuga, lést 18. febrúar sl. Blessuð sé minning þeirra hjóna beggja. Innilegar samúðarkveðjur sendum við börnum þeirra og annarra ástvina.

Fyrir hönd gömlu skallabolta- og golffélaganna,

Villi, Biggi, Skúli og Eyfi Ágústssynir.

 

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01