Hilmar Gíslason
Hilmar Henry Gíslason er genginn. Strákurinn úr Fjólugötunni, sem sjaldan var kallaður annað en „Marri“. Hann var bæjarverkstjóri á Akureyri í áratugi, og var iðulega kominn til verka um miðjar nætur þegar ýrði úr lofti. „Gísli minn, það var nú ekki mikið mál að fylgjast með veðurfarinu og snjókomunni, ég svaf bara með annan fótinn út um gluggann yfir veturinn. Ég vaknaði við fyrsta snjókorn og þá ræsti ég snjóruðningsliðið út,“ svaraði Marri þegar ég spurði hann út í hvernig hann hefði farið að því að hafa allar aðalgötur færar þegar við bæjarbúar vöknuðum á stórhríðarmorgnum. Síðan hló hann dátt, sínum einstaka háa og glaðværa hlátri. Það þurfti ekki að ræða þetta meir.
Áður en Marri tók að sér verkstjórnina hjá bænum kom hann víða við. Hann stjórnaði jarðýtu, veghefli, vöruflutningabíl og rútu, svo eitthvað sé nefnt. Hann var á kafi í fótboltanum og öðrum íþróttum strákurinn í Fjólugötunni um leið og hann gat sparkað bolta. Og hann hélt því áfram á meðan skrokkurinn leyfði. Það var ekkert gefið eftir, því sigurviljinn var sterkur. Stundum kostaði það pústra og kárínur, en alltaf stóð Marri upp. Nema einu sinni, þá var hann borinn rotaður af fótboltavelli á Siglufirði.
Þegar Marri varð fimmtugur fékk hann golfsett í afmælisgjöf. Hann tók það föstum tökum og náði undraverðum árangri. Hann var valinn í landslið öldunga og keppti fyrir Íslands hönd á erlendri grundu. Við hittumst oft í morgunsundi. Það fylgdi Marra ferskleiki, þótt stundum væri karlinn dálítið skakkur þegar hann mætti. „Gísli, ég hef sennilega spilað of margar holur í gær, öxlin er alveg að drepa mig, ég held ég spili ekkert í dag.“ Ég spurði hvort hann væri ekki búinn að láta lækni líta á meinið? „Jú, jú, ég var hjá einum í vikunni. Hann skoðaði mig og sagði síðan að það sem ekki væri lélegt í skrokknum, það væri ónýtt,“ svaraði Marri og hló síðan svo dátt að sundlaugarvatnið gáraðist. Ég spurði hvort hann hefði staðið við að hvíla sig á golfinu þegar við hittumst í sundinu næsta morgun? „Nei Gísli minn, það klikkaði. Ég skrapp rúnt upp á Jaðar til að hitta strákana. Áður en ég vissi af var ég farinn að spila og hætti ekki fyrr en eftir 27 holur. Þess vegna er ég skakkur núna. En það lagast þegar ég er búinn að synda,“ sagði kappinn, hló við og stakk sér í laugina.
Í fyrravetur fórum við Marri oft saman á göngu í Boganum, tókum einn rúnt á eftir og enduðum oftast í kaffi hjá „Kennedybræðrum“ í Fjölnisgötunni. Þá var margt spjallað, en ég fann að degi var tekið að halla. „Ég ætla að þiggja pláss í Hlíð, ég finn að það er eitthvað að gefa sig í höfðinu, ætli það séu ekki afleiðingar af rothögginu á Siglufirði forðum,“ sagði kappinn brosmildur þegar við kvöddumst síðast. Stuttu eftir það skall Covid yfir og öllu var lokað. Gamli góði Marri hvarf smátt og smátt. Eftir að Ingibjörg Þorvaldsdóttir kona hans lést 18. febrúar hvarf lífsviljinn. Þá var gott að fá að sofna og hverfa í sumarlandið til Ingibjargar.
Góða ferð, gamli vinur.
Gísli Sigurgeirsson