Fara í efni
Minningargreinar

Hermína Jónsdóttir

Við systkinin erum á margan hátt ólík og metum hluti gjarnan á mismunandi hátt. En við erum svo hjartanlega sammála um að betri mömmu hefðum við ekki getað fengið . Þess vegna kveðjum við í dag með miklum söknuði, en umfram allt þakklæti, móður okkar Hermínu Jónsdóttur, betur þekkta sem Hemmu.

Sem ung kona flutti hún til Reykjavíkur til að vinna á Gesta- og sjómannaheimili Hjálpræðishersins og þar kynntist hún honum sem valinn var til að fylgja henni í rúm 60 ár. Níels Jakob var einn þeirra fjölmörgu færeysku manna sem á þeim tíma komu til Íslands. Séra Bjarni gaf þau saman í Reykjavík, á þessum degi, 1. mars, fyrir 66 árum en nokkrum árum síðar fluttu þau norður til Akureyrar og festu fljótlega kaup á íbúð í Strandgötu 25b.

Við systkinin nutum mikils ástríkis sem birtist meðal annars í því að í upphafi dags var alltaf morgunmatur á borðum og eins í hádeginu þegar við komum heim í hádegishlé. Svo ekki sé talað um fötin sem hún saumaði á okkur.

En ást mömmu fundum við fyrst og fremst í hlýju og að við gátum alltaf treyst á að hún elskaði okkur skilyrðislaust. Við vissum líka að alla morgna báðu þau fyrir öllum afkomendum með nafni auk þeirra sem höfðu hringt og beðið um fyrirbæn.

Ein af systrum mömmu, Ester, hafði Downs heilkenni og það kom því ekki á óvart að starf með fötluðum yrði fyrir valinu þegar hún fór út á vinnumarkaðinn aftur, komin yfir fertugt eftir að hafa varið mestum tíma í barnauppeldi og heimilisstörf.

Það er ómögulegt að minnast á mömmu án þess að nefna barnabörn hennar 10 og langömmubörnin 12. Við börn hennar áttuðum okkur best á hvaða forréttinda við nutum þegar við sáum hvernig hún, ásamt pabba, jós af kærleika, gleði og umönnun yfir þessa litlu afkomendur. Oft var bakað, horft á fótbolta en stundum bara spjallað. Það var ekki nauðsynlegt að gera eitthvað sérstakt, bara vera með ömmu. Svo var alltaf til ísblóm í frystinum.

Mamma tók virkan þátt í starfi Hjálpræðishersins og var Heimilasambandið henni sérlega hugleikið. Um miðjan tíunda áratuginn voru fáar konur sem sóttu fundi Heimilasambandsins, hún hringdi þá í konur, bauð þeim á fund, hvatti aðrar til að byrja aftur að sækja fundi og þetta bar tilætlaðan árangur. Fleiri og fleiri sóttu Heimilasambandsfundi og mamma sinnti forystu þar til fjölda ára.

Mamma bjó heima í Kjarnagötu þar til hún var orðin níræð. Þá hafði hún misst pabba, málstol var farið að vera henni erfitt og hún var svolítið týnd í þessum heimi.

Því var það mikið lán að henni bauðst pláss á Lögmannshlíð, fyrst í Sandgerði og svo í Melgerði. Þar leið henni vel og við verðum ætíð þakklát starfsfólkinu þar fyrir góða umönnun..

Við sáum mömmu hraka mikið síðustu mánuði og teljum að það sé lausn fyrir hana að fá hvíldina. Við höfum þá einföldu trú að hún hafi nú á ný sameinast honum Kobba sínum, foreldrum og systrum. Og litlu stúlkunni sem þau misstu forðum. Sumum finnst þessi trú mikil einfeldni og eingöngu til þess að slá á sáran söknuð og missi. Við hins vegar felum góða móður okkar í faðm frelsarans sem við trúum að muni taka á móti henni og opna hlið himnaríkis og kalla: „Hún Hemma af Eyrinni er komin!”

Rannveig María, Erlingur, Anna Marit og Ragnhildur

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01