Fara í efni
Minningargreinar

Helga Haraldsdóttir

Í dag skein sól á sundin blá
og seiddi þá,er sæinn þrá
og skipið lagði landi frá.
Hvað mundi fremur farmann gleðja?
Það syrtir að, er sumir kveðja.
(Davíð Stefánsson)

Nú er hún fallin frá, elsku tengdamóðir mín, Helga Haraldsdóttir, eftir langa og erfiða sjúkdómslegu sem var einhvern veginn svo ósanngjarnt hlutskipti fyrir þessa frábæru og góðu manneskju.

Elsku Auður, Agnes, Almar og Sigurgeir, mínar hugheilu samúðarkveðjur.

Þegar leiðir okkar Auðar lágu saman á síðustu öld eru mínar fyrstu minningar um Helgu tengdar húsinu og heimili Auðar að Hamarstíg 10 á Akureyri. Húsið fallegt, hvítt með flötu þaki á horni Helgamagrastrætis og Hamarstígs umlukt fallegum garði og fyrir framan húsið stóð gjarnan fannhvít og tandurhrein VW-bjalla merkt að gömlum sið með númerinu A-1414. Þar var ég aufúsugestur á fallegu heimili Helgu og  alltaf gott að koma.

Helga kom mér fyrir sjónir frá fyrsta degi sem kraftmikil og skemmtileg manneskja, geislandi falleg og góð og sú skoðun hefur haldist frá fyrstu kynnum og fram á síðustu stundu og aldrei borið skugga á í okkar samskiptum.

Helga var að mörgu leyti samnefnari fyrir konur þess tíma sem ruddu brautina í baráttu kvenna fyrir sjálfstæði og sanngirni, hún var einstæð móðir og þurfti að takast á við ríkjandi fordóma og einhvern veginn sigla á milli skers og báru í sínu daglega lífi, sem hún gerði með reisn og  með húmorinn að vopni en erfiðleikum og mótlæti hélt hún fyrir sig sjálfa og bar ekki á torg.

Helga var dugmikil og drífandi, ætíð með mörg járn í eldinum, móðir, amma, tengdamamma, ljósmyndari, jógameistari, heilbrigðisstarfsmaður, KA-kona og svo margt fleira, en umfram allt hrókur alls fagnaðar sem lagði sig fram um að gera lífið bærilegt fyrir  samferðafólk sitt, vini og vandamenn og það voru margir sem fengu að kynnast gjafmildi hennar og góðmennsku.

Músík, fjör og gleði eru minningar sem sitja í huga mér, matur var ekki upphafið og endirinn í lífi Helgu en köld kók í gleri og grillaður kjúlli í
grillofninum góða með kokteilsósu og frönskum klikkuðu ekki og glöddu huga og maga.

Þegar farið er yfir sviðið og minningarnar streyma fram er ég henni þakklátur fyrir allar þær ljúfu og góðu stundir sem við áttum saman og  þær mun ég varðveita í hjarta mínu.

Hvíl í friði elsku Helga.

Hjörtur Fjeldsted.

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00