Fara í efni
Minningargreinar

Helga Haraldsdóttir

Elsku amma mín er farin í sumarlandið góða

Elsku amma Helga sem ég hélt að yrði 100 ára.

Elsku amma sem ætlaði að fá sér mótorhjól þegar hún yrði áttræð.

Elsku amma sem var feministi frá upphafi og fór sínar eigin leiðir í lífinu.

Elsku jóga amma eins og vinir mínir þekktu hana, sem kenndi jóga langt áður en það varð trend.

Elsku amma sem elskaði að sýna myndir og segja sögur frá gamla daga, en allir sem þekktu hana vita að það var engin 10 mínútna heimsókn til hennar.

Elsku amma. Ég skil. Ég skil að þú vildir fara. Þótt líkaminn þinn hafi verið svo sterkur og þú gætir eflaust staðið á haus enn þá, var alzheimerinn búinn að taka yfir. Þú þráðir frelsið. Og fékkst það loksins.

Ég skil. Ég skil afhverju þú vildir segja sögur. Sögur halda minningum lifandi um fólkið sem manni þótti svo vænt um. Ég elskaði að hlusta á sögurnar þínar og skrifaði í menntaskólanum tvær ritgerðir, aðra um Vigfús frænda og hina um Hermínu frænku með þig eina sem heimild. Elsku amma má ég heyra eina sögu í viðbót?

Elsku amma. Ég mun halda áfram að segja sögurnar. Börnin mín munu þekkja þig eins og ég þekkti þig, af því ég mun segja þeim sögur.

Ég mun segja þeim frá því þegar við flugum flugdrekum í sumarbústaðinum þínum. Þegar við týndum bláberin þar og gróðursettum trén okkar þar. Ég mun segja þeim hvað við Ágústa frænka elskuðum að klæða okkur upp með slæðurnar þínar.

Ég mun segja þeim frá því þegar þú fórst í Jógakennaranám í New York og Woody Harrelson var þar. Frá frábæru jógatímunum þínum sem allir elskuðu. Frá jóga röddinni þinni. Kenna þeim að hugleiða eins og þú kenndir mér. Hlusta eins langt og maður getur. Það er svo gott. Ég mun segja þeim frá því þegar þú komst okkur Ágústu frænku á óvart og sagðir að við yrðum að koma í jóga. Við vorum svo spenntar. Þegar við mættum í tímann var engin önnur en Birgitta Haukdal, átrúnaðargoðið okkar mætt í jógatímann. Það var ekki mikið um hugleiðslu þann jógatímann en við eyddum tímanum helst á hvolfi í niðurlútandi hundi til að sjá hana aðeins betur - draumur fyrir okkur.

Ég mun segja þeim frá heilögu heimsóknunumi til þín á aðfangadag með pabba til að smakka jólagrautinn sem við fórum svo heim með. Frá því þegar þú fannst á þér að eitthvað var að klikka og vildir fá að kenna mér uppskriftina af jólagrautnum svo ég gæti tekið við. Ég mun segja þeim að þú vitir núna að mamma átti uppskriftina og nú geri ég jólagrautinn hver jól, þér til heiðurs.

Ég mun segja þeim frá því hvað þú elskaðir kók, í gleri. Frá því þegar þú eyddir jólunum með okkur heima hjá Helgu Rún og við áttum bara kók zero. “Hvað ER þetta eiginlega?! Þetta er ekki kók!” Sagðirðu þá og vildir frekar vatn en einhvern kók zero viðbjóð.

Ég mun segja þeim frá því hvað þú varst mikil kjarnakona. Stóðst með sjálfri þér, ferðaðist um heiminn og fékkst þér aldrei sopa af áfengi en varst samt alltaf hrókur alls fagnaðar. Elskaðir tónlist, að dansa og kunnir alla texta fram á seinustu stundu þótt allt annað væri farið að klikka. Hvað þú elskaðir Ed Sheeran jafnvel þótt þér finndist hann alveg hryllilega ómyndarlegur. Hryllilega.

Ég mun segja þeim hvað þú varst ótrúlega fyndin og skemmtileg og hélst í húmorinn alltaf. Það var alltaf hægt að grínast með þér. Ég mun segja þeim frá seinasta jóga tímanum sem ég fór í hjá þér. Frá því þegar við vorum á leiðinni heim og þú gleymdir símanum þínum. Við snérum við og þurftum að leita hátt og lágt þar til hann fannst loksins. Frá því þegar þú sagðir við mig á leiðinni heim aftur: “Unnur mín, þegar ég dey og það er verið að láta mig síga niður, rétt áður en það er mokað fyrir, viltu kasta símanum mínum þarna ofan í svo í eitt skipti fyrir öll viti ég nú hvar síminn minn sé?” Vá hvað við hlógum.

Elsku amma ég mun segja þeim allt. Hvað þú varst með fallegustu augu heims, sérstaklega þegar þú hlóst, og hafðir ekki hugmynd um það. Ég mun segja þeim sögur frá heimilinu þínu sem er núna heimilið okkar líka. Ég mun segja þeim hvað ég sakna þín hryllilega mikið. Hryllilega.

Elsku amma þú munt lifa áfram í hjörtum okkar allra um ókomna tíð, hafðu ekki áhyggjur af því. Hafðu ekki áhyggjur. Njóttu þess að bruna um eins og brjálæðingur eins og þér einni er lagið, nú á mótorhjólinu, í sumarlandinu. Stattu á haus, hugleiddu og knúsaðu allt fólkið þitt sem þú saknaðir svo mikið. Þangað til næst elsku amma, við elskum þig.

Þín,
Unnur Anna.

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00