Heiðdís Norðfjörð - lífshlaupið
Heiðdís Norðfjörð fæddist á Akureyri 21.12. 1940 og andaðist á hjúkrunarheimilinu Hlíð 7.1. 2021. Foreldrar hennar voru Jón Aðalsteinn Norðfjörð bæjargjaldkeri og leikari f. 30.10. 1904, d. 22.3. 1957 og Anna Guðrún Helgadóttir, f. 24.7. 1920, d. 15.6. 2000.
Heiðdís ólst upp fyrst hjá föður sínum og stjúpmóður, Jónu Jónsdóttur, sem lést ári eftir að Heiðdís kom til hennar. Þá fór hún í fóstur til Gróu Hertervig og Hjörleifs Árnasonar þar sem hún var til 4 ára aldurs. Þá giftist faðir hennar aftur, Jóhönnu Ingvarsdóttur kjólameistara, f.10.6. 1911, d. 30.12. 2008, sem gekk Heiðdísi í móðurstað og ættleiddi hana síðar.
Heiðdís giftist 1.12. 1959 Gunnari Jóhannssyni bifvélavirkja f. 20.4. 1935. Foreldrar Gunnars voru Jóhann Valdemarsson bóndi á Möðruvöllum í Eyjafirði, f. 22.6. 1911, d. 3.9, 2004 og Helga Magnea Kristinsdóttur frá Samkomugerði í Eyjafirði f. 13.2. 1911, d. 18.1. 1965.
Synir Heiðdísar og Gunnars eru:
a) Gunnar Gunnarsson Norðfjörð organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík f. 26.7. 1961. Kona hans er Gréta Matthíasdóttir forstöðumaður námsráðgjafar hjá HR og eru börn þeirra Heiðdís Norðfjörð, f. 1983, Birta, f. 1987 og Katrín Sól, f. 2001. Þau eiga 3 barnabörn.
b) Jón Norðfjörð rekstrarstjóri, f. 19.3. 1966. Kona hans er Ragnheiður Björg Svavarsdóttir og eru börn þeirra Jón Heiðar, f. 1991, Svavar Árni, f. 2005, Eva María, f. 2010 og Helga Lind, f. 2017. Þau eiga 1 barnabarn.
c) Jóhann V. Norðfjörð framkvæmdastjóri f. 18.8. 1971. Sambýliskona hans er Linda Björk Rögnvaldsdóttir viðskiptafræðingur f.1989 og eru börn þeirra Gunnar Ögri, f. 2000 og Nína Rut, f. 2018.
Bræður Heiðdísar, synir Jóns og Jóhönnu voru Jón H. Norðfjörð, f. 1947 og Ásgeir Heiðar Norðfjörð, f. 1951, d. 1951.
Fóstursystkini Heiðdísar, börn Jóhönnu, eru Ingibjörg Skarphéðinsdóttir, f. 1931, og Sverrir Steinar Skarphéðinsson, f. 1935.
Systkini Heiðdísar, börn Önnu voru Sigurrós Svavarsdóttir, f. 1945, d. 1945, Svavar Svavarsson f. 1952, Helga Kristín Jónsdóttir f. 1955, d. 1996 og Hulda Jónsdóttir f. 1963.
Heiðdís lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri og stundaði síðan nám við Húsmæðraskólann á Laugalandi. Hún útskrifaðist sem sjúkraliði 1975 og starfaði við elliheimilið í Skjaldarvík sem hún veitti síðan forstöðu í allmörg ár. Hún starfaði síðan sem læknafulltrúi við embætti héraðslæknis Norðurlands eystra og var síðar læknaritari á heilsugæslustöðinni á Akureyri um langt árabil.
Meðfram störfum sínum skrifaði Heiðdís sögur fyrir börn og unglinga og út komu nokkrar barnabækur eftir hana. Hún var dagskrárgerðarmaður hjá RUV og var þá m.a. með morgunstund barnanna. Til eru margar hljóðupptökur með upplestri hennar. Hún orti einnig ljóð og samdi tónlist enda liðtækur píanisti. Þekktust eru lög Heiðdísar við ævintýrið um Pílu pínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Þau komu út á hljómplötu árið 1980. Seinna skrifaði Heiðdís leikrit við söguna um Pílu pínu sem var sviðsett af Leikfélagi Akureyrar 2016 í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarhúsið Hof.
Heiðdís var um árabil meðhjálpari við Akureyrarkirkju og hún var lengi þátttakandi í kórstarfi. Árið 2007 fékk hún viðurkenningu frá Beta-deild Alfa Kappa Gamma á Akureyri fyrir framlag til menningar og menntunarmála barna. Einnig fékk hún viðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar 2010 fyrir mikilvægt framlag til menningarlífs á Akureyri.
Útför Heiðdísar Norðfjörð fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 21. janúar, kl. 13:30.