Fara í efni
Minningargreinar

Hallgrímur Skaptason

Hallgrímur var alla sína tíð athafnamaður og hafði ákveðnar skoðanir á stjórnmálum, sem við deildum ekki en deildum heldur aldrei um.

Ég þekkti Hallgrím lengur en ég man eftir en hins vegar hafa samskiptin því miður verið stopul síðastliðin ár, meðal annars vegna Covid.

Ég bjó í húsi Skapta og Guðfinnu í Norðurgötunni ásamt sonum þeirra Hallgrími og Brynjari með mínum góðu fósturforeldrum um 1950 en man lítið frá þeim tíma.

Alla tíð síðan héldum við kunningsskap og reyndist Hallgrímur mér hinn besti vinur, upp frá því, þó samskipti væru ekki mikil framan af.

Þegar við Katrín komum heim frá þriggja ára dvöl í Danmörk 1970 fórum við að vinna hjá Norðurverki hf. þar sem Hallgrímur var stjórnarmaður og einn af stofnendum félagsins.

Skrifstofur Norðurverks voru frá árinu 1973 í húsi skipasmíðastöðvarinnar Varar, sem Hallgrímur stofnaði árið 1971 ásamt nokkrum öðrum skipasmiðum. Stofnun fyrirtækisins lýsir Skapti Hallgrímsson þannig:

„Bátasmiðjan Vör var stofnuð 20. júní 1971 á afmælisdegi afa Skapta, við eldhúsborðið hjá honum og ömmu í Norðurgötu 53 stofnendur voru Hallgrímur Skaptason, Áskell Bjarnason, Áskell Egilsson, Kári Baldursson, Jón Steinbergsson og Gauti Valdimarsson“.

Allir voru þeir skipasmiðir eða höfðu unnið við trébátasmíðar áður. Skipasmíðastöðin var starfrækt þar til til trébáta smíðar lögðust nánast af hérlendis. Þeir félagar eru nú allir fallnir frá.

Þau tíu ár sem ég vann í húsi Varar voru dagleg samskipti við Hallgrím og aðra starfsmenn Varar og voru alltaf jafn ánægjuleg.

Skipasmíðar og stúss í kringum þær var stór hluti af störfum Hallgríms um ævina og er ekki úr vegi að nefna Slippstöðina sem Skapti Áskelsson stofnaði með öðrum á sínum tíma. Ég ætla að láta fylgja hér smá sögu sem ég hef eftir Jóhannesi Garðarssyni en sagan er af samskiptum Jóhannesar við Hallgrím.

„Við unnum þá báðir í Slippstöðinni hf. ég sem rennismíðanemi en Hallgrímur einn af stjórnendunum. Hallgrímur var alltaf hreinn og beinn og glaðlegur í viðmóti. Hann reyndist mér jafnan drengur góður, og þá ekki síst þegar ég ætlaði í Tækniskóla haustið 1967. Þá þurfti ég að vera með sveinsbréf upp á vasann, til þess að fá skólavist. Námstíminn var þá 48 mánuðir og enn vantaði fáeina mánuði upp á. Hallgrímur tók sig þá til og taldi saman alla yfirvinnutíma, sem voru margir, sem ég hafði unnið á námstímanum. Hallgrímur vildi að þessir tímar væru taldir með sem ekki var venja og náði hann samkomulagi við iðnfulltrúa um það og þar með fékkst sveinsprófið .

Margs annars er að minnast eftir langa vegferð en sérstaklega er mér minnistæð ferð sem við Hallgrímur fórum á vörusýningu í Kaupmannahöfn á níunda áratugnum. Þessi ferð var afar ánægjuleg og Í alla staði vel heppnuð og ekki var hægt að fá betri ferðafélaga en Hallgrím.

Þetta var mjög í samræmi við öll okkar kynni fyrr og síðar, sem ég vil þakka Hallgrími fyrir nú þegar hann er horfinn á braut.

Börnum Hallgríms og öðrum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Franz Árnason

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00