Fara í efni
Minningargreinar

Hallgrímur Skaptason

„Það sem er hennar er okkar“ sagði hann og tók þétt í höndina á mér. Þetta er fyrsta minning mín um Hallgrím Skaptason, tengdaföður minn, þegar dóttir hans kynnti mig fyrir foreldrum sínum. Hann þurfti ekki mörg orð til að bjóða mig ótvírætt velkominn í líf fjölskyldu sinnar.

Nú er stórt skarð höggvið í þá samheldnu stórfjölskyldu sem ég hef verið svo heppinn að tilheyra í bráðum tvo áratugi. Á tæpu ári hafa bæði Heba og Halli kvatt þetta jarðlíf, hún eftir skammvinn veikindi á síðasta ári og hann nú eftir lengri baráttu. Síðustu mánuðir voru Halla erfiðir þegar sorg og vanheilsa lögðust á eitt og höfðu loks betur gegn þeim mikla lífskrafti sem hafði einkennt hann alla tíð. Það er huggun í því að undir lokin sagðist hann sáttur og tilbúinn að kveðja.

Orð mega sín lítils til að lýsa Halla og þeirri minningu sem hann skilur eftir. Hann var svo mikill karakter, persónuleiki hans svo sterkur og margslunginn, áhrif hans á aðra svo gagnger, að ómögulegt er að lýsa í orðum.

Frá unga aldri var hann atorkusamur vinnuþjarkur, kraftmikill og útsjónarsamur. Margar sögur sagði hann mér af störfum sínum við skipasmíði og rekstur bæði hjá Slippnum og Bátasmiðjunni Vör á árum áður auk félagsstarfanna fyrir Þór. Í mínum huga er ljóst að þar var oft tekist á við vandamál sem flestir myndu afgreiða sem óleysanleg, en sem tókst samt að leysa með áræði og vilja.

Þegar ég kynntist Halla var hann orðinn þjakaður af langvinnum nýrnasjúkdómi auk hjartavandamála sem höfðu rænt hann þreki nokkrum árum áður. Samt var hugurinn síkvikur og vakandi yfir málefnum líðandi stundar, bæði stórum og smáum, en ekki síður því sem var að gerast í lífi þeirra sem stóðu honum nærri. Umhyggja hans, svo traust og heil, var okkur í alla staði ómetanleg og afastelpurnar sóttu í stóra faðminn hans, fyndnu tilsvörin og kostulegu sögurnar.

Halli var hjartahlýr húmoristi. Þegar þannig lá á honum gat hann komist á þvílíkt flug að viðstaddir grétu úr hlátri og fengu engin grið nema rétt á meðan hann kom sjálfur ekki upp orði. Hann hafði líka sterka réttlætiskennd og trúði á mátt samfélagsins þrátt fyrir að vera sjálfur afar framtakssamur einstaklingur. Það var gaman að ræða við hann um slík mál; hann var alltaf upplýstur og laus við kreddur, í einlægri leit að skynsamlegum lausnum sem kæmu þeim vel sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Eins og gengur hjá körlum af hans kynslóð var Halli frekar dulur á eigin tilfinningar. Hann fann þeim þó ýmsan farveg enda óhræddur við að vera hann sjálfur. Halli var ljóðelskur bókamaður með sérstakt dálæti á verkum Kristjáns frá Djúpalæk. Þegar honum lá mikið á hjarta átti hann það til að semja vísukorn eða vandlega mótaðan texta. Hann nýtti ævi sína ekki einungis til framkvæmda heldur ekki síður til að rækta með sér dygðir á borð við þrautseigju, þolinmæði, hugrekki og umfram allt visku. Ég minnist hans með söknuði og óendanlegu þakklæti fyrir samfylgdina.

Sigurður Kristinsson

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00