Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir
Kær vinkona, Halla Sólveig, er látin, allt of snemma. Við erum búin að vera vinir síðan við vorum unglingar og að eiga svona trausta og góða vini eins og þau hjón, Sollu og Val, er ómetanlegt. Við vorum saman í grunnskóla, Oddur, Valur og Solla, og Magga small svo inn í hópinn. Við höfum farið í margar hjólaferðir til útlanda, hjólað hér innanlands, farið saman í útilegur og brallað ýmislegt saman. Magga og Solla gengu oft saman og fóru í kaffi hvor til annarrar. Þar voru málið rædd af einlægni og vináttu. Oft var glatt á hjalla hjá þeim, því Solla er einlæg, góður hlustandi, full af húmor og með góða frásagnarhæfileika. Hún sá alltaf jákvæða hlið á öllu. Til dæmis þegar sonur okkar skírir yngstu dóttur sína Hallveigu var Solla ekki lengi að segja að hún hefði fengið nöfnu. Solla var alltaf glöð og hafði sérstaklega góða nærveru.
Fjölskyldan er dýrmæt og það er óhætt að segja að hún var Sollu mikils virði, og þeim hjónum. Samband þeirra við börnin var afskaplega gott og kærleiksríkt. Barnabörnin voru ekki svikin af því að eiga svona afa og ömmu.
Núna þegar Solla er lögð af stað í ferðina miklu sitjum við hér eftir með sorg í huga og ótal spurningar. En eins og stendur í Hávamálum: „En orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur“ þá mun Solla lifa áfram í hjörtum okkar og við munum ylja okkur við góðar minningar um kæra vinkonu.
Kæri Valur, Elvar Knútur, Sigurgeir, Inga Lind, Sigrún Eva, tengdabörn og barnabörn, orð mega sín lítils, en okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð og góðar vættir verndi ykkur og styrki. Munið G.Æ.S.-ina hennar Sollu.
Margrét Harpa og Oddur Helgi